Skólavefurinn.is
www.skolavefurinn.is
(Gömul sögn)
I.
Í gömlum sögum er sagt frá klerki,
er sjaldgæfur þótti í orði og verki.
Til náms var hann sagður seinn og þungur.
Því settust að honum illar tungur
og mæltu svo um, að í messuklæðum
mundi hann afneita kristnum fræðum.
Eitt vorið lauk hann þó vondu prófi.
Með vígsluna gekk í löngu þófi.
Afdalasveit þótti hæfa honum.
Þar hlaut hann að bregðast fæstra vonum,
og fyrst honum var ekki annars auðið,
þá afréð hann loks að sækja um brauðið.
Með gamla biblíu, trúlaus talinn,
tölti hann vígður fram í dalinn.
En gamlar sagnir, sem virða verkin,
vitna um fátæka dalaklerkinn.
II.
Annáll er til, sem um það getur,
að eitt sinn kom mikill frostavetur.
Þar er sagt, meðal annarra orða,
að eldsneyti þraut og vistarforða,
og hundruð manna urðu hungurmorða.
Um vorið fór biskup að vísitéra.
Það var honum ljúft og skylt að gera.
Hann yfirheyrði og úrskurð felldi.
Engum gat dulist hans tign og veldi.
Frá afdölum höfðu engar fréttir
náð eyrum biskups síðan um réttir.
Hann varð að kynna sér verksummerkin.
Hann varð að heimsækja dalaklerkinn,
því kirkjunnar æðsta valdsmann varðar
um verkamenn sína – ofanjarðar.
Hann varð að kynna sér klerksins hagi
og kirkjunnar eignir – sér í lagi.
III.
Hver biskupsfákur var föggum hlaðinn,
og fylgdin nálgaðist kirkjustaðinn.
Í dalnum var allt í góðu gengi,
grasið í legum um tún og engi,
blómlegar hlíðar til beggja handa,
og biskup fullur – af heilögum anda.
Bleikur af undrun varð biskupsskarinn:
Bæirnir stóðu – en kirkjan var farin.
Hafði guðshúsið gamla fokið,
en grautfúnir kofarnir staðist rokið?
Höfðu galdrar slíkt ódæði unnið?
Auðvitað hefur kirkjan brunnið ...
En leyna biskup svo vondu verki,
það var ekki sæmandi neinum klerki.
Hólarnir dundu af hófataki. –
Herra biskupinn sté af baki
og heilsaði klerki við hestasteininn.
Þá hittust ístran og skinin beinin.
Þá mætti drambið í dýrum slæðum
drenglyndri hógværð í slitnum klæðum.
Þá storkaði valdið vesölum klerki.
Þá vofði sverð yfir krossins merki.
IV.
... Sumarið reyndist svikult dalabændum,
og svíki það, er heyleysið í vændum.
Menn settu á guð og gaddinn, það er vani,
sem gæti orðið heillar þjóðar bani.
Sú gamla venja gæti verið sprottin
af getuleysi þeirra, er treysta á drottin.
Og kaldan hroll í brjóst mér sjálfum setur
hinn síðastliðni, mikli frostavetur.
Bústofninn féll á fátækari bæjum.
Hin forna hungurvofa stóð á gægjum,
og björg var enga að sækja í aðrar sveitir.
Þá sáu menn þá líkn, sem bænin veitir.
Fyrr hefði byggðin fúnað öll í valnum
en fengið þeirra hjálp – sem gleyma dalnum.
Í þyngstu raunum reynast verkin betur
en ritningin og gamalt fræðiletur;
og heimska er, sé hungur fyrir stafni,
að halda, að menn lifi á Jesú nafni.
Ég veit, að klerkar eiga að biðja og blessa,
en brauð er soltnum hollara en messa.
Grallaralög var gagnslítið að syngja,
og gömlum klukkum lét ég hætta að hringja.
Til þess þarf klerk, sem mér er meiri og betri,
að milda þann – sem ræður slíkum vetri.
Ég trúarveikur tók til minna ráða.
Með talandi verkum hvatti ég til dáða.
Ég gekk til þeirra, er gátu heyi fargað,
og gat á þann hátt mörgum skepnum bjargað.
Sjálfur lét ég mikið hey af hendi.
Hungruðu fólki matbjörg nokkra sendi.
Mitt guðsorð var að miðla feng og forða
til fólks, sem annars væri hungurmorða.
Einn spaðbiti var máttugri en messa.
Ég mælti í fólkið kjark, en hætti að blessa.
Kúgildin öll ég kotungunum sendi.
Mín köllun var að láta allt af hendi.
Þau urðu forlög fáka minna og sauða
að frelsa börn með sínum eigin dauða.
Af gaddinum hefði getað hlotist verra.
Ég gaf það, sem ég átti – og meira, herra.
Nú kem ég að þeim kafla í sögu minni,
sem kann að særa mann í stöðu þinni.
Eldsneyti bænda hafði fennt og fokið.
Á fjölda bæja var því öllu lokið.
Við kaldar hlóðir konur snauðar sátu.
Klökugar skorpur hungruð börnin átu.
Og við að heyra grát og gnístran tanna
gleymdi ég einni skyldu – vígðra manna.
Frá staðnum tók ég meira en ég mátti,
miðlaði því, sem heilög kirkja átti.
Með hverju spreki huga mínum hægði.
Ein hrörleg stofa búslóð minni nægði.
Líf veitti mörgum litli svarðarhlaðinn.
Svo lét ég greipar sópa um kirkjustaðinn,
því vetrarharkan læsti klakaklónum
um kofana – ef dó í öskustónum.
Við þessar döpru, köldu kotaglæður
kúrðu sig vesöl börn og þjáðar mæður.
En þeim til lífs varð öllu að fórna og farga.
Loks fann ég engin ráð til bjarga.
Ég brenndi eina borðinu og stólnum ...
Þá blasti við mér kirkjan úti á hólnum.
Sjá, herrann sjálfur hugsun minni beindi
að húsi sínu, er miklum viðum leyndi.
Og hvað sem allir heimsins klerkar kenna,
var kirkjan til þess gerð að líkna – brenna,
og verða þannig lífgjafi og ljósa
lýðsins, sem var að svelta í hel og frjósa,
og letra sjálf, með logunum sínum björtu,
sín lög, sitt orð í mannleg hjörtu.
Úr húsi drottins bar ég alla bekki
og braut í eldinn. Þetta nægði ekki.
Úr húsi drottins reif ég bönd og bita,
svo börnin fengju ljós og hita.
Með guðs hjálp einni gat ég verkið unnið.
Guði til dýrðar hefur kirkjan brunnið.
Á viðum hennar var sá logi alinn,
er veitti öllum líf, ‒ sem byggja dalinn.
V.
Klerkurinn þagði. En biskup barði
á brjóst sér og hljóður til himins starði;
hugði það lögmál helgra skrifta,
að hempunni skyldi klerkinn svipta.
Biskup fann, að hér beið hans vandi
og bókfesti skýrslu svohljóðandi:
Sú kynlega vissa hjá klerki fengin,
að kúgildin séu til þurrðar gengin.
Kirkja fyrirfinnst engin.
www.skolavefurinn.is