Skólavefurinn.is

Ljóðasafnarinn

Veldu stig

Móðurást

Jónas Hallgrímsson

Ljóð

Skólavefurinn.is

www.skolavefurinn.is

Fýkur yfir hæðir  og frostkaldan mel,
í fjallinu  dunar, en komið er él,
snjóskýin þjóta  svo ótt og svo ótt;
auganu hverfur  um heldimma nótt
vegur á klakanum  kalda.
 
Hver er in  grátna sem gengur um hjarn,
götunnar leitar,  og sofandi barn
hylur í faðmi og  frostinu ver,
fögur í tárum,  en mátturinn þverr ‒
hún orkar ei  áfram að halda.
 
„Sonur minn  góði, þú sefur í værð,
sérð ei né  skilur þá hörmunga stærð
sem að þér ógnar  og á dynja fer;
eilífi guðssonur,  hjálpaðu mér
saklausa  barninu´ að bjarga.
 
Sonur minn  blíðasti, sofðu nú rótt;
sofa vil eg líka  þá skelfingar nótt;
sofðu, ég hjúkra  og hlífi þér vel;
hjúkrar þér  móðir, svo grimmasta él
má ekki fjörinu  farga.“
Fýkur yfir hæðir  og frostkalda leið,
fannburðinn  eykur um miðnæturskeið;
sjóskýjabólstrunum  blásvörtu frá
beljandi vindur  um hauður og lá
í dimmunni  þunglega þýtur.
 
Svo þegar dagur  úr dökkvanum rís,
dauð er hún  fundin á kolbláum ís;
snjóhvíta  fannblæju lagði´ yfir lík
líknandi vetur –  en miskunnarrík
sól móti  sveininum lítur.
 
Því að hann  lifir og brosir og býr
bjargandi móður  í skjólinu hlýr,
reifaður  klæðnaði brúðar – sem bjó
barninu værðir,  og lágt undir snjó
fölnuð í  frostinu sefur.
 
Neisti guðs  líknsemdar ljómandi skær,
lífinu bestan er  unaðinn fær,
móðurást  blíðasta, börnunum háð,
blessi þig  jafnan og efli þitt ráð
guð, sem að  ávöxtinn gefur.

Verkefni

Skólavefurinn.is

www.skolavefurinn.is

1. Segðu með eigin orðum um hvað ljóðið fjallar.
2. Lýstu ríminu í ljóðinu og taktu sérstaklega eftir síðustu línu hvers erindis.
3. Finndu dæmi um karlrím og kvenrím í ljóðinu.
4. Segðu frá stuðlum og höfuðstöfum í fimmta erindi.
5. Hvernig mundir þú skýra setninguna: Fögur í tárum, en mátturinn þverr?
5. Finndu samtals fimm samsett lýsingarorð í fyrsta og fimmta erindi.