Skólavefurinn.is
www.skolavefurinn.is
Kirkjan suður á sandinum
við sævardjúpin blá,
hún er okkur tákn þess,
sem trúin orka má.
Kirkjan suður á sandinum
sýnt það hefur mér,
að enginn, sem að trúir,
þaðan óbænheyrður fer.
Kirkjan suður á sandinum
situr ein og hljóð.
En stormurinn kveður þar
sinn kalda vetraróð.
Stormarnir kveðast þar
við klettana á.
En aldan hún rís þar
svo ógurleg og há.
Til er gömul saga,
er segir því frá,
hvernig að hún byggð var
þessum eyðisandi á.
Sagt er þar, að byrðingur
sigldi hingað stór.
Vissi enginn af honum,
hvar hann var, eða fór.
Þeir höfðu lent í hafvillu,
hraktir af leið,
voru búnir að þola mikla
vosbúð og neyð.
Öldurnar í nóvember
nöldra stundum hátt.
Þá á margur sjómaður
í særokinu bágt.
En Íslendingar eiga sína
afburðamenn.
Þeir voru hér áður
og eru hér enn.
Enginn mælti æðru,
en allir vissu þá
að engar voru líkur,
að landi mætti ná.
Biskup var á byrðingnum
og byrjaði svo tal:
„Nú veit enginn okkar,
hvað afráða skal.“
„Ég vil því biðja Drottin
að vísa okkur leið.
Hann hefur aldrei synjað mér
um sína hjálp í neyð.“
Biskup féll á kné sín
og bað til Drottins hátt:
„Sýndu okkur hjálparþurfum
miskunn þína og mátt.“
Heyrðu þeir þá brimhljóð
og bárusogin há.
Vissu því, að land var ekki
langt þarna frá.
Lífsvonin lifnaði,
en lamaði þrótt
myrkrið og rokið
um miðja vetrarnótt.
Sáu þeir þá í myrkrinu
leiftrandi ljós,
sem vísaði þeim leið
inn á vík, eða ós.
Engil þeir í víkinni
undurfagran sjá.
Lagði af honum ljómann
leiðina á.
Allir störðu hljóðir
en biskup mælti brátt:
„Drottinn er að birta okkur
miskunn sína og mátt.
Áfram því í Guðs nafni,
engill bendir mér.
Nú mun okkur létt veita
land að taka hér.“
Þarna tóku þeir landið,
og þáðu skjól og líf.
Þeim er öllum óhætt,
sem eiga Guð að hlíf.
Þú skalt vita, að máttug eru
magtarvöldin slík:
Enn í dag við engilinn
er hún kennd, sú vík.
Enn í dag er máttur Guðs
og miskunnin söm.
Væri okkur bænaiðja
og trúrækni töm.
Mælti biskup klökkur
til manna sinna þá:
„Þökkum honum allir,
sem lét oss landi ná.
Svo skal héðan halda,
með hjarta og sinni glatt.
En gleymum ekki að gjalda
Guði vorum skatt.
Hér skal byggja kirkju,
sem komumst við af,
til lofs og dýrðar honum
sem lífið okkur gaf.“
Svona er nú sagan
sem segir því frá,
hvers vegna hún byggð var
þessum eyðisandi á.
Allir þekkja Strandarkirkju
og öllum er hún kær,
og á hana´ er heitið
af ýmsum fjær og nær.
Enn er hún kyrr á sandinum
og enn er trúin ný:
að Drottinn haldi hendi
yfir húsinu því.
Enn er á hana heitið,
og enn verður hún við.
Drottinn gefi oss öllum
sinn eilífa frið.
Drottinn blessi alla,
sem elska hans hús,
og hvern þann, sem á kærleika
og kristindóm er fús.
Gott eiga þeir, sem trúa
á Guð sinn efalaust.
Skín þeim eilíft vor
eftir skammvinnt hryggðarhaust.
Þeir sjá allir ljósið,
sem lýsir myrkrin svört,
yfir dauðans djúpið
inn á dýrðarlöndin björt.
Nú hef ég kveðið kvæðið mitt
um kirkjuna á Strönd.
Þó hvorki séu ljóðin mín
liðug eða vönd.
Ég syng þau fyrir börnin,
er sitja þau mér hjá.
En hér má hver, sem heyra vill
hlýða þau á.
-------------------------
„Kirkjan situr á sandinum
með hnappagullin smá.
Það er Guð og María
sem þetta húsið á.“
-------------------------
hnappagull = gull á hnöppun (húnum) á turnspírum
orka má = getur gert; fær áorkað
vetraróður (no.) = vetrarkvæði (stormurinn er gerður að persónu sem fer með kuldalegt ljóð)
byrðingur = breitt skip
vosbúð = bleyta og kuldi; volk
enginn mælti æðru = enginn lét í ljós ótta eða hugleysi (æðra: ótti, kjarkleysi)
afráða = ákveða
synja = neita
brimhljóð = hljóð sem verður við öldugang
bárusog = bárusog verður þegar öldurnar sogast frá landi
ós = ármynni (þar sem áin rennur í sjó)
magtarvöld = máttarvöldin
trúrækni töm = sem eru vön að biðja til æðri máttarvalda
sinni = hugur
skammvinnt = stutt
hryggðarhaust = erfitt haust sem veldur hryggð
vönd = vönduð
www.skolavefurinn.is