Skólavefurinn.is
www.skolavefurinn.is
Það gerast stundum ævintýri
eftirtektarverð.
Eitt sinn voru tíu milljón
tindátar á ferð.
Þeir sögðu það sitt takmark
að sigra þennan heim.
Og fólkið varð svo skelkað,
að það flýði undan þeim.
Þeir létu greipar sópa
um líf og eign hvers manns
og hlýddu sem sagt engu
nema orðum foringjans.
Þó henti það í fyrstu
að margir sögðu: Svei,
það tekur ekki að hræðast
svona tindáta grey.
En til hvers er að skrafa
og skruma af sinni makt?
Það stoðar ekki mikið
það, sem maður hefur sagt.
Og tindátarnir flæddu
yfir borg og sveit í senn
með allar sínar flugvélar
og fallhlífarmenn.
Þeir virtust ekki þekkja
neinar venjur eða lög.
En foringinn var slunginn
og slægvitur mjög.
Hann brosti hýrt til kónganna
og bauð þeim góðan dag
og sagði: Ég skal vernda
okkar sameiginlega hag.
Og þessu trúðu allir
og þótti gaman að,
því kóngar eru heimskir –
og kannski veistu það.
En foringinn var gleyminn
á orð sín og eið,
og hörmung er að vita,
hvernig höfðingjunum leið.
Þeir skulfu út í horni
og sögðu hver um sig:
Er maðurinn orðinn ruglaður?
Því ræðst hann svona á mig?
En til hvers er að fjasa
og fella sorgartár?
Í tignarsess hins látna
settist tindáti grár.
Og áfram þusti herinn
í endalausri röð.
Þess getur enn í sögnum
hvað sóknin var hröð.
Þeir brutu upp allar hirslur
og harðlæstar dyr.
Svo æðisgengin frekja
hafði aldrei þekkst fyrr.
Og fólkið varð svo hissa
og hrætt og reitt í senn,
að það má jafnvel sjá það
á sumu þeirra enn.
Svo komu þeir að sjónum
og settust allir þar.
Og skelfing lítil eyja
þar skammt frá landi var.
Og foringinn hélt ræðu
og sagði af miklum móð:
Nú treysti ég á yður,
mín tindátaþjóð!
Ég treysti á vorn málstað
og tindátans þor.
Í eyjunni býr nefnilega
óvinur vor!
En foringjanum gleymdist
eða gætti ei þess í svip,
að enginn fer á sjóinn
ef ekki er til neitt skip.
Að vaða yfir hafið,
getur varla átt sér stað,
en tindátarnir höfðu ekki
hugsað út í það.
Og foringinn varð hávær,
eins og honum var tamt
og hrópaði út í loftið:
Við höfum það samt!
Og loksins, þegar allt virtist
endileysa tóm,
tók foringinn að nýju
til máls í reiðum róm.
Hann sagði: Burt skal halda
og hætta þessum leik.
Og dugið mér nú piltar
og komist fljótt á kreik!
Eitt ríki er til, sem veitt oss getur
ríkulegri hnoss.
Það ríki er langt í burtu
og fyrir austan oss.
Og allir hlýddu tindátarnir
orðum foringjans
og flýttu sér nú austur
til hins fyrirheitna lands.
Þeir ráku upp voða öskur,
sem heyrðust víða um heim.
Og engum tókst að sofna
fyrir óhljóðum þeim.
Og foringinn hélt ræðu
og nefndi stund og stað,
er öllu væri lokið –
Og ekki meira um það.
En gæfan reyndist hverful
og gekk þeim ekki í vil.
Margt fer stundum öðruvísi,
en ætlast var til.
Því tindátarnir bognuðu
og bráðnuðu eins og smér.
Svo hörmulegan ósigur
beið aldrei nokkur her.
Og fólkið sagði: Burt með svona
bölvað ekki sen pakk,
og tindátarnir flýðu,
og foringinn sprakk.
Menn þurrkuðu af sér svitann
og svo komst allt í lag.
Var furða þótt þeir skemmtu sér
og gerðu sér glaðan dag?
Þeir settust hver hjá öðrum,
eins og sigurvegurum ber.
Og sumir voru drjúgir
og dálítið upp með sér.
Og þannig endar sagan –
eða svona hérumbil
– og nú er ekki framar
neinn tindáti til.
www.skolavefurinn.is