Skólavefurinn.is

Ljóðasafnarinn

Veldu stig

Tölvuleikur

Þórarinn Eldjárn

Ljóð

Skólavefurinn.is

www.skolavefurinn.is

Með lafandi tungu við tölvuna sat hann
og tökkunum hamaðist á
en faðir hans þurfti á meðan að mata hann
og mamman bar kopp til og frá.
Þetta var leikurinn „Drepum og drepum
og drepum án miskunnar“
en strákurinn safnaði stigum og þrepum
og stolt sinna foreldra var.
Hann sat við svo lengi að á meðan óx mosinn
en metið sitt loks gat þó bætt.
Hann límdist við skjáinn, sat fastur og frosinn
og fann að hann gat ekki hætt.
Þá loksins kviknuðu í kollinum perur:
Hann kveinaði af skelfingu og fann
að innan í tölvunni voru verur
sem voru að leika með hann.

Verkefni

Skólavefurinn.is

www.skolavefurinn.is

1. Hvernig var „hann“ þar sem hann sat við tölvuna?
2. Hvað gerðu mamma hans og pabbi?
3. Hvers konar leiki var drengurinn að leika í tölvunni?
4. Hvað finnst þér um leiki sem fela í sér ofbeldisfulla hegðun?
5. Hvernig var komið fyrir „honum“ þegar hann loksins fékk bætt metið?
6. Af hverju varð hann allt í einu hræddur?
7. Hvers konar tölvuleiki þekkir þú og hvað finnst þér skemmtilegast að gera á tölvu?
8. Hvað finnst þér um kvæðið?
9. Hvernig berðu fram orðin „mata hann“ í fyrsta erindinu þannig að takturinn haldist eðlilegur?