Skólavefurinn.is

Ljóðasafnarinn

Veldu stig

Tvö ljóð

Ólína Andrésdóttir

Ljóð

Skólavefurinn.is

www.skolavefurinn.is

VESTANROK VIÐ BREIÐAFJÖRÐ

 

Hylur mökkur heiðisbrá,
himinn klökkur tárast þá.
Skýja dökkir skrokkar slá
skuggum rökkurs fjöllin á.
 
Vestanáttar voða él
vekja reiða sjóa.
Rísa þeir hátt við himins hvel,
halda inn Breiðaflóa.
 
Veðra glymur ógnar önd,
olli dauðans grandi.
Nú er brim á Barðaströnd
og bára á Rauðasandi.
 
Unnur kalda, ógna vald
áttu að gjalda og týna.
Ritað aldrei undanhald
er á skjaldbreið þína.

Vestanrok við Breiðafjörð: Vísa 1: Mökkurinn hylur bláan himininn sem tárast þá og skýjaflákarnir varpa dimmum skuggum á fjöllin. Vísa 2: Vestanélin magna öldurnar sem rísa hátt og halda inn Breiðafjörðinn. Vísa 3: Veðurofsinn ógnar lífi okkar enda hefur hann valdið dauða manna; brimið er mikið við ströndina. Vísa 4 (Aldan er hér ávörpuð): Alda, þú býrð yfir ógnvekjandi valdi sem getur goldið okkur illt (refsað okkur) og eytt okkur (drekkt okkur). Þú hopar aldrei (ekkert undanhald er ritað á þinn kúpta skjöld).

mökkur: (líklega hér): skýjabólstrar

heiðisbrá: auga hins bláa himins (brá: auga; heiði: blár himinn, sbr. sól skín í heiði). Skýin hylja hið bláa auga himinsins

ógna (so): hræða (veðragnýrinn ógnar lífsandanum, sálinni)

önd: lífsandi, andi, sál

grand: háski, tjón, eyðilegging (átt er við að veðrið (glymur veðranna) hafi valdið dauða margra)

Barðaströnd og Rauðisandur eru við norðanverðan Breiðafjörð

unnur: alda

BLÆJALOGN Á BREIÐAFIRÐI

 
Unnur bíður æskufríð
eftir stríðið langa
storms við lýði, lögð um síð
logns und blíðan vanga.
 
Sé ég landið hljótt og hlýtt
handaband þitt strjúka;
heyri þig anda undurblítt
upp við sandinn mjúka.
 
Og friðarboga faðmlags til
faðminn toga bláa,
glampa og loga af ljósi og yl
lygna voga gljáa.
 
Skín í heiði himins frítt
heldur á leiðum vörðinn,
lætur greiðast ljúft og blítt
ljós um Breiðafjörðinn.
 
Sólin gárum grænum því
guðvef kláran vefur.
Faðmi báru breiðum í
bliki og márinn sefur.

Blæjalogn á Breiðafirði:  Vísa 1: Eftir langt stríð við storminn getur hin fríða alda loksins lagst við blíðan vanga lognsins. Vísa 2 (Aldan er hér ávörpuð): Ég sé landið gæla við þig (strjúka handaband þitt. Ég heyri þig anda blítt upp við mjúkan sandinn. Vísa 3: Og ég sé þig teyjga þinn bláa faðm móti faðmlagi regnbogans (sólin hefur brotist fram og myndað regnboga); ég sé lygna voga glampa af ljósi og yl og glitra í sólinni. Vísa 4. Frítt ljós himinsins skín í heiði og heldur vörð á leið okkar og dreifir sér um Breiðafjörð. Vísa 5: Því sólin vefur dýrindis silkivef handa grænum smáöldunum (slær á öldurnar glitrandi bjarma). Æðarblikinn og máfurinn sofa í breiðum bárufaðminum.    

 

stríðið langa: átt er við að óveður hafi geisað lengi 

lýðir: menn (lýðir stormsins: herskarar stormsins, þ.e. stormurinn sjálfur)

um síð: um síðir, loksins

und: undir

friðarbogi: regnbogi

gára: smáalda

guðvefur: dýrt (silki)klæði

klár: bjartur

Verkefni

Skólavefurinn.is

www.skolavefurinn.is

Vestanrok við Breiðafjörð 

1. Hvað gerist þegar mökkur hylur heiðisbrá?
2. Hverju slá dökkir skrokkar skýjanna á fjöllin?
3. Hvað gera „vestanáttar voða él“?
4. Hverju ógnar veðraglymurinn?
5. Hvaða ógna valdi býr unnur (aldan; hafið) yfir?
6. Hvað merkja tvær síðustu braglínurnar?

 

Blæjalogn á Breiðafirði

1. Hvernig er unnur í þessu ljóði?
2. Hvað heyrir Ólína?
3. Hvað gerir sólin?
4. Finndu dæmi um innrím í báðum ljóðunum.