Sagan Sýður á keipum eftir Jón Trausta eða Guðmund Magnússon eins og hann hét með réttu, kom fyrst út árið 1916 og var þá spyrt saman við söguna Krossinn helgi í Kaldaðarnesi. Eins og með flestar sögur Jóns Trausta var sögunni tekið vel af almenningi, en dómar um hana voru nokkuð misjafnir, allt frá því að vera með því besta sem hann hafði látið frá sér fara, til þess versta. Sýnir það hve oft er erfitt að henda reiður á dómum gagnrýnenda.
Sagan gerist á verstöðinni við Dritvík á Snæfellsnesi og gefur okkur skemmtilega innsýn í lífið á slíkum stöðum, en það var löngum einn helsti styrkur höfundar að draga upp myndir af lokuðum heimum, lokuðum samfélögum, jafnhliða því að segja góða sögu. Nægir að nefna sögurnar af Höllu og heiðarbýlinu því til staðfestingar.
Líkt og í fyrri verkum Jóns Trausta leggur hann í þessari sögu mikið upp úr náttúru- og umhverfislýsingum og er þar á heimavelli. Guðmundur Magnússon var mikill náttúruunnandi og gerði sér far um að kynna sér land sitt með beinum hætti. Fór hann gjarnan í leiðangra um valda staði og skrifaði um þá. Hann fór t.a.m. með leiðsögumanni um Snæfellsnes og notar töluvert úr ferðalýsingum sínum í þeirri ferð í söguna.
Því hefur stundum verið haldið fram að persónusköpun Guðmundar hafi á stundum verið ábótavant, en það á ekki við í þessari sögu. Helstu persónur sögunnar eru einmitt afskaplega vel upp dregnar og sannfærandi í þessu umhverfi.
Þegar Guðmundur hóf að skrifa sögur var raunsæisstefnan að ryðja sér til rúms og varð hann fyrir töluverðum áhrifum frá henni. Það er hins vegar álit margra að þegar líður á og einkum þegar hann snýr sér að sögulegum skáldsögum hafi sýn Guðmundar breyst. Í Bókmenntasögu Máls og menningar frá 1996 segir að þær sögur hafi einkennst ,,af rómantískri fortíðarhyggju og kristilegu verðmætamati...“, og ýjað að því að þær standi eldri sögum hans töluvert að baki hvað skáldskap varðar. Eflaust má færa einhver rök fyrir því, en slíkar staðhæfingar verður þó að taka með fullum vara og breytt lífsýn höfundar segir ekkert til um ágæti skrifanna í sjálfu sér. Er það trú undirritaðs að í sögunni Sýður á keipum sýni Jón Trausti á sér margar sínar bestu hliðar sem rithöfundur. Þá minnir tónninn í sögunni nokkuð á eldri smásögur hans, s.s. Strandið á Kolli og Á fjörunni, sem margir vilja meina að sé með því besta sem hann skrifaði.
Við vekjum athygli á því að hægt er að hlusta á alla kafla sögunnar upplesna. Sigurður Arent Jónsson les.