Þessi markmið og gátlistar eru sá grunnur sem við á Skólavefnum vinnum eftir í okkar námsefnisgerð í íslensku. Hann byggist á Aðalnámskrá grunnskóla auk þess sem stuðst hefur verið við bekkjarnámskrár ýmissa skóla.
Aðalnámskráin er góður stýrigrunnur og tekur fyrir heildræn markmið um það hvað nemendur eiga að læra og hafa á valdi sínu að loknu námi, en þar er ekki farið ítarlega í einstaka efnisþætti. Er sú vinna eftirlátin skólunum sjálfum og gefur hún þeim um leið kost á ákveðnu frelsi í yfirferð; þeir geta þá til dæmis lagað kennslu sína að ákveðnu námsefni og eigin áherslum.
Skólavefurinn hefur nú útbúið heildstætt námsefni í íslensku fyrir öll stig grunnskólans. Til þess að auðvelda kennurum yfirsýn um námsefni okkar í íslensku töldum við æskilegt að setja fram þessi markmið og gátlista yfir þau atriði sem við teljum mikilvæg í hverjum árgangi. Til einföldunar og stuðnings bendum við auk þess gjarnan á aðferðir og leiðir til þjálfunar.
Það má því komast svo að orði að það sem hér er sett fram jafngildi skólanámskrá á grunni Aðalnámskrár. Námsefnið velja síðan kennararnir sjálfir en okkur á Skólavefnum er það ánægjuefni að geta bent á að æ fleiri skólar hafa á síðustu misserum talið sér hag í að nýta sér það heildstæða námsefni í íslensku sem við höfum á boðstólum.
Það skal tekið fram að þessi markmið ná einungis yfir þau atriði sem við teljum okkur geta prófað úr gagnvirkt með beinni svörun.
Hér getið þið nálgast stöðupróf eða nokkurs konar gátlista í íslensku fyrir 3. bekk þar sem leitast er við að mæla námsstöðu barna í ákveðnum atriðum miðað við aldur.
Prófin eru unnin út frá Aðalnámskrá grunnskóla, auk þess sem tekið er mið af prófum sem tekin eru í völdum skólum á þessu aldursstigi. Við viljum vekja athygli á því að prófið miðast við að nemendur hafi lokið eða séu að ljúka námi í 3. bekk.
Athugið að prófið gefur ákveðnar vísbendingar um stöðu nemandans og verður að skoðast út frá því. Hér er fyrst og fremst verið að kanna hvar nemandinn getur bætt sig.
Rétt er að benda á að suma þætti á gátlistanum er erfitt að kanna á gagnvirkan hátt.
Ath. að það vantar spurningar 10. og 27.