Þessi markmið og gátlistar eru sá grunnur sem við á Skólavefnum vinnum eftir í okkar námsefnisgerð í íslensku. Hann byggist á Aðalnámskrá grunnskóla auk þess sem stuðst hefur verið við bekkjarnámskrár ýmissa skóla.
Aðalnámskráin er góður stýrigrunnur og tekur fyrir heildræn markmið um það hvað nemendur eiga að læra og hafa á valdi sínu að loknu námi, en þar er ekki farið ítarlega í einstaka efnisþætti. Er sú vinna eftirlátin skólunum sjálfum og gefur hún þeim um leið kost á ákveðnu frelsi í yfirferð; þeir geta þá til dæmis lagað kennslu sína að ákveðnu námsefni og eigin áherslum.
Skólavefurinn hefur nú útbúið heildstætt námsefni í íslensku fyrir öll stig grunnskólans. Til þess að auðvelda kennurum yfirsýn um námsefni okkar í íslensku töldum við æskilegt að setja fram þessi markmið og gátlista yfir þau atriði sem við teljum mikilvæg í hverjum árgangi. Til einföldunar og stuðnings bendum við auk þess gjarnan á aðferðir og leiðir til þjálfunar.
Það má því komast svo að orði að það sem hér er sett fram jafngildi skólanámskrá á grunni Aðalnámskrár. Námsefnið velja síðan kennararnir sjálfir en okkur á Skólavefnum er það ánægjuefni að geta bent á að æ fleiri skólar hafa á síðustu misserum talið sér hag í að nýta sér það heildstæða námsefni í íslensku sem við höfum á boðstólum.
Það skal tekið fram að þessi markmið ná einungis yfir þau atriði sem við teljum okkur geta prófað úr gagnvirkt með beinni svörun.
Hér er á ferðinni stöðupróf eða nokkurs konar gátlisti í íslensku fyrir 5. bekk þar sem
leitast er við að mæla námsstöðu nemenda í ákveðnum atriðum miðað við aldur.
Prófið er unnið út frá Aðalnámskrá grunnskóla, auk þess sem það byggist á prófum sem tekin eru á þessu aldursstigi í völdum skólum. Við viljum vekja athygli á því að prófið miðast við að nemendur hafi lokið eða séu að ljúka námi í 5. bekk.
Athugið að prófið gefur ákveðnar vísbendingar um stöðu nemandans og verður að skoðast út frá því. Hér er fyrst og fremst verið að kanna hvar nemandinn getur bætt sig.
Rétt er að benda á að suma þætti á gátlistanum er erfitt að kanna á gagnvirkan hátt.
Til athugunar við undirbúning prófsins:
Námskrá Skólavefsins fyrir 5. bekk er heppilegur leiðarvísir.
Litabækur Skólavefsins geyma fjölmarga lesskilningstexta fyrir hvert aldursstig í rafrænu og útprentanlegu formi.
Vanda málið (Þetta er málið), nánar tiltekið Lesbók 1 og 2 og Vinnubók 1 og 2, geymir fjölmarga texta sem henta 5. bekk. Verkefni, svör og leiðbeiningar fylgja.
Skýringar á hugtökum, bæði málfræði- og bókmenntahugtökum, er að finna á hugtakalista Skólavefsins, sjá https://skolavefurinn.is/system/files/skolavefurinn_efni/_opid/islenska/vanda_malid/vetur01/index.html
Á slóðinni hér að ofan er einnig hægt að nálgast verkefni undir fyrirsögninni Íslenskukeppni; þá er þar líka að finna leiðbeiningar um ritun og framsögn (sjá „Ritun í grunnskóla“ og „Frásagnir í skólum“). Loks skal bent á Veistu svarið, sjá slóðina https://skolavefurinn.is/veistu-svarid. Þar eru ótal spurningar sem m.a. tengjast ýmsum þáttum móðurmálsins: Þeim má svara rafrænt hvar og hvenær sem er og fá niðurstöður jafnóðum.
Lögð skal áhersla á að lesa stutta texta. Til að auðvelda nemendum skilning er æskilegt að sá texti sem settur er fyrir sé fyrst lesinn upphátt fyrir nemendahópinn.
Nemendur fái að spreyta sig sem oftast á að lesa sjálfir upphátt (hér kemur til kasta foreldra eða annarra aðstandenda).
Þá er mælt með að reglulega (helst daglega) sé lesin framhaldssaga upphátt fyrir nemendahópinn.
Hvatt er til umræðu um þá texta sem lesnir eru sameiginlega. Má tengja innihald textans við aðstæður hér og nú? Skynsamlega valdir textar ættu að hvetja til gagnrýninnar hugsuar og dýpka skilning nemenda á eigin lífi og annarra og stuðla þannig að betra lífi og bættu samfélagi (hér koma til umræðu atriði eins og umburðarlyndi, réttsýni, jafnrétti, virðing fyrir skoðunum annarra o.s.frv.).
Í 5. bekk er æskilegt að lesa þjóðsögur og goðsögur en einnig aðra stutta bókmenntatexta, bæði kvæði og óbundið mál, t.d. íslenskar og þýddar smásögur. Fréttatextar og aðrir blaða- og vefmiðlatextar verði einnig hluti lesefnis nemenda til eflingar lesskilnings og samfélagsvitundar, sbr. orð Stephans G. Stephanssonar: „Lífsins kvöð og kjarni er það að líða/ og kenna til í stormum sinna tíða.“
Mikilvægt er einnig að nemendur lesi leiðbeiningar (t.d. með vöru sem setja þarf saman!); þeir æfist jafnframt í að lesa úr töflum, súluritum, línuritum o.s.frv.; og þjálfist í myndlestri af ýmsu tagi, sbr. skýringarmyndir og tákn (umferðarskilti).
Þeir æfist í notkun handbóka og uppsláttarrita af ýmsu tagi, sbr. orðabækur og þau tákn sem þar eru notuð.
Þeir læri að nýta sér upplýsingar á vefmiðlum í tengslum við námið.
Nemendur efli orðaforða sinn markvisst, t.d. með því að skýra orð og skilgreina, finna samheiti, andheiti o.s.frv.
Orðtök og málshættir verði einnig lærð og þjálfuð með hjálp handbóka.
Viðvíkjandi bókmenntum er á þessu aldursstigi sjálfsagt að minnast á algeng hugtök til að koma böndum á umræðuna:
tími: Hvenær ætli atburðir gerist? Fyrir óralöngu, sbr. ýmsar þjóðsögur? Á okkar tímum, síðustu öld o.s.frv.?
staður/ umhverfi: Hvar (t.d. í hvað landi/ landshluta/ borgarhluta/ aðstæðum) ætli atburðir sögunnar (eða ljóðsins) eigi sér stað? (Hafa má í huga að ævintýri og goðsögur verða ekki auðveldlega tengd við tiltekinn stað eða tíma!)
Hvað um sennileika og ósennileika, t.d. í goðsögum, ævintýrum, dæmisögum og þjóðsögum? Kynna má hugtök eins og yfirnáttúrlegir atburðir. Í þessum sögum gefst einnig tækifæri til að rýna í dulin skilaboð því þær geyma algild sannindi um það hvernig menn skuli haga sér í lífinu eða hvað skuli varast (laun dygðarinnar, sök bítur sekan, dramb er falli næst o.s.frv.).
myndmál: Hvað er að segja um líkingar? (Hverju er líkt við hvað?) Fær eitthvert fyrirbæri í náttúrunni persónuleg einkenni (þokan „læðist“, sólin „elskar allt“)?
hliðstæður/ andstæður: Hvernig beitir höfundur hliðstæðum og andstæðum? Hér kemur þrítekningin (oft með vaxandi spennu) til athugunar, einnig endurtekningar af ýmsu tagi. Í ævintýrum og þjóðsögum eru stílbrögðin andstæður og hliðstæður ríkjandi (góður – vondur o.s.frv.). Minna má á hina sterku byggingu þjóðsagna og ævintýra með kynningu, rás atburða með vaxandi spennu, uppgjöri og sögulokum: æskileg fyrirmynd hvers sögumanns!
rím: Ríma einhver orð í ljóðinu? Er hljómur í textanum, sbr. stuðlun (endurtekin hljóð, bæði í bundnu og óbundnu máli)?
taktur: Er reglubundinn taktur í kvæðinu/vísunni? Er hægt að klappa taktinn? Í því sambandi mætti kynna ferskeytluna (ferskeyttan hátt): „Yfir kaldan eyðisand …“ o.s.frv.
Hugtök eins og hefðbundið/ óhefðbundið ljóð séu kynnt, einnig hugtökin, vísa, staka, ferskeytla, ljóð (munur er á merkingu orðanna vísa og ljóð!), smásaga, goðsaga, skáldsaga, ævintýri, þjóðsaga, ævisaga, leikrit, spennusaga o.s.frv.
Þau skáld, sem verk eru lesin eftir, verði kynnt og þau sett í sögulegt og landfræðilegt samhengi.
Þau tækifæri sem bjóðast óvænt til kynningar séu gripin, t.d. í sambandi við listviðburði.
· geta lesið upphátt og í hljóði stutta texta og fjallað um innihald þeirra
· geta tekið þátt í umræðu um texta og tengt þá við málefni á líðandi stund
· geta tekið gagnrýna afstöðu til texta
· hafa tamið sér umburðarlyndi í umræðu um texta og virðingu fyrir málstað annarra
· hafa lesið valdar þjóðsögur, dæmisögur og goðsögur, valin kvæði og smásögur
· hafa lesið „nytjatexta“ af ýmsu tagi, t.d. fréttatexta
· geta tileinkað sér upplýsingar skýringartexta af ýmsu tagi, lesið úr línuritum, töflum og súluritum og skilið algeng tákn (sbr. t.d. umferðarskilti)
· geta flett upp í léttum handbókum, orðabókum og vefmiðlum við upplýsingaöflun.
· hafa styrkt og aukið orðaforða sinn með markvissum aðgerðum
· hafa lært orðtök og málshætti með skipulegu átaki
· kunna skil á nokkrum bókmenntahugtökum (tími, umhverfi, myndmál, rím, taktur, vísa, kvæði, hefðbundið/óhefðbundið ljóð)
· þekkja ferskeytluna (ferskeyttan hátt)
· hafa fræðst um skáld og rithöfunda sem textar eru lesnir eftir
Ath.: Lesskilningstexta er æskilegt að leggja fyrir nemendur með jöfnu millibili, sbr. Litabók Skólavefsins sem geymir fjölmarga lesskilningstexta fyrir hvert aldursstig í rafrænu og útprentanelgu formi.
Í málfræðinni er haldið áfram að fást við orðflokkana og jafnframt fær stafsetningin aukið vægi. Mikilvægt er að nemendur finni að málfræðiþekking styður við stafsetninguna: þessi þættir vinni saman.
Gott er að grípa þau tækifæri sem gefast til að ræða um tungumálið og tengja t.d. við hagnýt atriði eins og stafsetningu. Þá er happadrjúgt að beita algengum málfræðihugtökum.
Umræða um „rétt mál og rangt“ getur verið skemmtileg; en hún er vandmeðfarin. Forðast ber nöldur og ósveigjanleika en kapp skal lagt á umburðarlyndi. Það er t.d. varla „rangt“ að segja „mér langar“ af því að helmingur þjóðarinnr segir það. Hitt er svo annað mál að í opinberri umræðu (í töluðu máli og rituðu) hefur tiltekin hefð skapast um að eitt sé heppilegra en annað (sbr. „mig langar“).
Almennt um stafsetningu: Gott er að láta nemendur, bæði á yngsta stigi og miðstigi, skrifa texta beint upp úr bók. Þannig má skerpa sjónminni (um leið og rithöndin þjálfast).
Gott er síðan að láta nemendur skrifa stuttar stafsetningaræfingar reglulega. Kennari fari strax yfir með hópnum (en taki ekki verkefnin heim!).
Við lok 5. bekkjar á nemandi að
· þekkja undirflokka fallorða (nafnorð, fornöfn, lýsingarorð, greini og töluorð).
Nánar um nafnorð: Við lok 5. bekkjar á nemandinn að
· þekkja öll föll eintölu og fleirtölu
· geta greint kenniföll nafnorða
· kunna skil á veikri og sterkri beygingu
· geta beygt nafnorð bæði með og án greinis
· geta beygt saman nafnorð og lýsingarorð
· þekkja muninn á sérnöfnum og samnöfnum
· þekkja stofn nafnorða (þolfall eintölu)
· geta myndað samsett orð úr orðhlutum og leyst samsett orð upp í frumparta sína (og skynjað þannig breytileika í samsetningu orða, sbr. eingarfallssamsetningu og stofnsamsetningu)
· geta greint á milli nafnorðs með greini og nafnorðs án greinis (hann þekki jafnframt lausa greininn og viðskeytta greininn)
Nánar um lýsingarorð: Við lok 5. bekkjar:
· hafi nemendur áttað sig á sérstöðu lýsingarorða meðal fallorða
· geti nemendur stigbreytt lýsingarorð
· geti nemendur sambeygt lýsingarorð og nafnorð
· þekki nemendur muninn á eðli veikra og sterkra lýsingaroða (hér kemur greinirinn við sögu (sbr. góður maður, góði maðurinn)
· þekki nemendur sérstöðu óbeygðra lýsingaroða sem enda á –a (andvaka, gjaldþrota o.s.frv.)
Andheiti og samheiti:
· Nemendur haldi áfram að styrkja orðaforðann með því að finna andheiti og samheiti orða.
· Hvort tveggja má svo tengja bókmenntalestri þar sem andstæður og hliðstæður birtast sem mikilvæg stílbrögð.
Stafsetning: Við lok skólaárs í 5. bekk kunni nemendur skil á reglum um:
· stóran og lítinn staf
· ng og nk
· n og nn í lýsingarorðum
· n og nn í greininum
· n og nn í karlkynsnafnorðum
· n í kvenmannsnöfnum sem enda á -unn
· n í kvenkynsnafnorðum sem dregin eru af sögnum (könnun, skoðun o.s.frv.)
· nn í einkunn, miskunn o.s.frv.
· n í lýsingarorðum sem enda á -an og -in/-inn
· helstu greinarmerki: punkt, kommu (í upptalningu og víðar), spurningarmerki (í beinni spurningu) o.s.frv.
Hlustun er nátengd bókmenntaumræðu, sbr. það sem segir hér að ofan um mikilvægi upplestrar og umræðu.
Nemandinn þarf að geta endursagt eða svarað spurningum um það sem hann hefur hlustað eða horft á (sbr. kvikmyndir og sjónvarpsefni af ýmsu tagi).
Síaukna áherslu ber að leggja á að nemendur geti tjáð hug sinn munnlega og skriflega.
Frásögn þarf að æfa skipulega. Í 5. bekk er við hæfi að láta nemendur endursegja stuttar sögur eða segja frá eigin upplifun.
Samtal. Kennari skapi aðstæður fyrir umræðu, t.d. um þá texta sem lesnir eru. Hér eru ævintýri og þjóðsögur sígilt umræðuefni, m.a. vegna þess að þar er gjarnan uppeldislegur undirtónn, t.d. um rétt og rangt, laun dygðarinnar o.s.frv.
Framburður: Huga þarf að framburði og þeim mun sem oft er á framburði og stafsetningu (guð, frb.: gvuð; vatns, frb. vats/vass o.s.frv.). Hlúa þarf að skýrmæli en forðast jafnframt ofvöndun (sbr. Blönduós, frb.: Blöndós (ekki Blönduós í venjulegu tali).
Ritun þarf að sinna þrep fyrir þrep. Í tengslum við stafsetningu má þjálfa ritun, skrift og frágang, t.d. hvað snertir greinarmerki og lengd málsgreina. Leggja ber áherslu á einfalda setningabyggingu og það að láta málsgreinina (þ.e. það sem er milli punkta!) innihalda heila hugsun (muna að setja punkt!).
Nemandinn skrifi reglulega nokkrar línur beint upp úr bók og jafnframt eftir upplestri í sambandi við stafsetnignarkennsluna.
Smátt og smátt má svo þyngja ritunarverkefnin með því að tengja þau við lýsingar á hlutum, landslagi, dýrum eða persónum (raunverulegum eða skáldsögulegum); sbr. einnig leiðarlýsingar, útdrætti, stuttar fréttir, frásögn af eigin upplifun o.s.frv.
Lagt er til að skipuleg ritun sé á dagskrá vikulega. En ekki er ætlast til að kennarinn fari yfir; hann gangi á milli og taki stikkprufur: „Hér á að vera punktur!“
Hvetja skal nemendur til að vanda skriftina. Handskrifuð dagbók getur bætt bæði rithönd og ritfærni og komið böndum á hugsunina; ástæða er til að hvetja nemendur til að skrifa dagbók – sem þeir geta geymt ævilangt og leitað til.
Við lok 5. bekkjar á nemandi að
· geta svarað einföldum spurningum (skriflega eða í krossaprófi) eftir hlustun (400 orða texti) eða áhorf á stutt myndband
· geta skrifað útdrátt úr texta eftir hlustun (t.d. 100 orð úr 400 orða upplesnum texta) eða eftir að hafa lesið texta.
· geta tekið þátt í umræðu um framburð og skýrmæli
· geta sagt stutta sögu í þröngum hóp eða greint frá eigin upplifun
· geta skissað upp mynd út frá upplesnum leiðbeiningum
· geta myndað hæfilega langar málsgreinar (milli punkta!) og tengt þær saman þannig að eðlilegt flæði verði í textanum
· geta skrifað stafsetningaræfingar upp úr bók eða eftir upplestri
· geta skrifað stutta frétt, frásögn eða endursögn
Nánari skýringar á hugtökum, bæði málfræði- og bókmenntahugtökum, er að finna á hugtakalista Skólavefsins
[ ] Andheiti (I: Kafli 35)
[ ] Aukaföll (II:Kafli 8)
[ ] Eintala og fleirtala (I: Kafli 20, 53; II: Kafli 3, 4, 14, 27, 41)
[ ] Fallorð (I: Kafli 20)
[ ] Fallbeyging (II: Kafli 5, 6, 9, 12, 14, 27, 34, 59)
[ ] Föll (nefnifall, þolfall, þágufall, eignarfall) (I: Kafli 20)
[ ] Grannir og breiðir sérhljóðar (I: Kafli 51, 53b)
[ ] Greinir (I: Kafli 30, 31; II: Kafli 59a)
[ ] Gæsalappir (II: Kafli 31, 46) [ ] Kenniföll (II: Kafli 21, 22)
[ ] Komma á eftir upphrópun (II: Kafli 52)
[ ] Kyn lýsingarorða (II: Kafli 26, 28)
[ ] Kyn nafnorða (I: Kafli 20, 49, 50)
[ ] Ljóðstafir (stuðlar og höfuðstafir) (II: Kafli 16)
[ ] Lýsingarorð (II: Kafli 26, 34, 35, 36, 40, 41, 53)
[ ] Lýsingarorð sem enda á -a (II: Kafli 28)
[ ] Málshættir (I: Kafli 23, 48)
[ ] Myndmál og líkingar (I: Kafli 18)
[ ] Nafnháttur sagna (II: Kafli 43, 45)
[ ] Nafnorð (I: Kafli 29, 33, 39; II: Kafli 34, 53)
[ ] Nafnorð með greini (I: Kafli 30, 31)
[ ] Nútíð og þátíð (II: Kafli 45, 46, 51)
[ ] Orðflokkar (II: Kafli 52)
[ ] Orðtök (II: Kafli 25)
[ ] Persónur sagnorða (II: Kafli 49)
[ ] Rím (I: Kafli 12, 17, 47; II: Kafli 48)
[ ] Sagnorð (II: Kafli 43, 44, 45, 46, 47, 49, 53)
[ ] Samheiti (I: Kafli 15)
[ ] Samsett orð (II: Kafli 38, 58)
[ ] Sérhljóðar og samhljóðar I: Kafli 3)
[ ] Sérnöfn og samnöfn (I: Kafli 10, 27, 29, 32, 42, 43)
[ ] Spurningarmerki (II: Kafli 52)
[ ] Stafrófið (I: Kafli 1, 2, 4)
[ ] Stafsetning
- [ ] Stór og lítill stafur (I: Kafli 10, 27 og 53a)
- [ ] ng/nk (I: Kafli 51, 52, 53b)
- [ ] n/nn (I: Kafli 30, 36, 38, 40, 41)
- [ ] n og nn í lýsingarorðum (II: Kafli 37, 50)
- [ ] n og nn í greininum (II: Kafli 59a)
- [ ] n og nn í karlkynsnafnorðum (II: Kafli 59b)
- [ ] n og nn í kvenmannsnöfnum sem enda á -unn (II: Kafli 59c)
- [ ] n í kvenkynsnafnorðum sem dregin eru af sögnum (II: Kafli 59d)
- [ ] n í einkunn, miskunn o.s.frv. (II: Kafli 59e)
- [ ] n í lýsingarorðum sem enda á -an og -in/-inn (II: Kafli 59f)
- [ ] n og nn (II: Kafli 54, 56, 59a, b, c, d, e, f)
[ ] Sterk og veik beyging nafnorða (II: Kafli 17)
[ ] Stigbreyting lýsingarorða (II: Kafli 26, 29, 59)
[ ] Stofn nafnorða (II: Kafli 19, 20)
[ ] Tala (eintala og fleirtala) (II: Kafli 2, 3, 4, 26)