Inngangur

 

Í nútíma samfélagi er mikilvægt að kunna að hlusta. Sífellt flóknari samfélagsgerð kallar hreinlega á að einstaklingur geti meðtekið munnleg skilaboð úr ólíkum áttum. Við á Hlusta.is höfum útbúið efni sem hefur það að markmiði að þjálfa fólk sérstaklega í að hlusta. Efnið tekur mið af Aðalnámskrá grunnskóla í samfélagsfræði og íslensku. Auk þess að þjálfa hlustun og minni, hjálpa æfingarnar nemandanum að halda einbeitingu og stuðla að öguðum vinnubrögðum.
Efnið byggir á stigskiptum upplesnum textum með gagnvirkum æfingum. Er um að ræða 90 texta sem skipt er niður í 6 þyngdarstig (15 æfingar á hverju stigi). Mismunurinn á þyngdarstigunum felst í nokkrum atriðum, m. a. í textalengd, orðaforða, lengd orða og setninga, leshraða og mis þungum textum. Auk þess þyngjast verkefnin á hverju stigi og spurningum fjölgar. Þið lesið ykkur betur til um hvernig stigin eru skilgreind á forsíðunni og um notkunina með því að smella á tengilinn ,,Leiðbeiningar" hér að ofan.

Rétt er að vekja athygli á því að bæði er hægt að vinna æfingarnar einstaklingsbundið þannig að hver sé með eigin tölvu og svari gagnvirkt, en einnig er hægt að prenta út og fjölfalda spurningar fyrir heila bekki og láta lesturinn hljóma um kennslustofuna.
Við hvetjum alla til að kynna sér þetta efni vel, hvort heldur er um að ræða einstaklinga eða skóla, því þjálfun sem þessi gagnast öllum óháð aldri.

Hlusta.is