Um gildi hlustunar
Um gildi hlustunar
Þeir sem hafa áhuga á að efla þjálfun í hlustun benda gjarna á að af þeim fjórum megin aðferðum sem við notum í samskiptum, þ.e. skrifa, lesa, framsögn og hlustun er áherslan á þjálfun í skóla í sömu röð þ.e. mest á skriftir, svo á lestur, því næst framsögn en lang minnst á hlustun. Þetta er hinsvegar í algeru ósamræmi við hvernig við verjum tíma okkar og hvaða samskiptaaðferð er okkur mikilvægust í raun. Við eyðum mestum tíma í hlustun, næst að tala, svo í lestur, en minnstur tími okkar fer í að skrifa. Þrátt fyrir þennan skort á formlegri þjálfun þurfa nemendur að verja verulegum (reyndar langmestum) tíma í að hlusta á kennarann, allt upp í 2/3 hluta námstímans, samkvæmt þýskri rannsókn.
Aukin áhersla er nú lögð á hlustun í Aðalnámsskrá grunnskólanna, enda er stór hluti náms byggður á getunni til að heyra, meðtaka og vinna í framhaldi af því úr upplýsingunum. Það er jákvætt að aukin áhersla er á hlustun því hæfileikinn til að beina athyglinni að og greina hlustunaráreiti er mikilvægur, ekki síst þar sem fjöldi og magn áreita, og þá aðallega sjónrænna, vex hröðum skrefum. Og vegna eðlis skynjunar mannsins, þ.e. tilhneigingar til að treysta fremur á sjón er þjálfun í að hlusta og meðtaka inntak talaðs máls afar mikilvæg.
Fram að þessu hefur skort námsefni sem þjálfar hlustun með beinum hætti. Markmið okkar með þessum æfingum er að mæta þessari þörf.
Hvernig minnið virkar
Almennt séð teljum við að öll æfing leiði til betri árangurs. En við viljum m.a. ræða kosti Hlustunaræfinganna í tengslum við og með „Information Processing Theory“ (IPT) sem bakgrunn.
Samkvæmt þessari kenningu berast skynfærunum mikið af upplýsingum og í örfáar sekúndur höfum við möguleika á að velja úr, grípa þessi áreiti í „skynminni“ (e; sensory registry) og senda í skammtímaminnið (STM). Við verðum þá að beina athyglinni að tilteknu áreiti og greina einstaka þætti þess, annars á þessi færsla sér ekki stað.
Athygli (attention í IPT) á áreitið er afar mikilvæg við þessa færslu og það þarf þjálfun til að heyra og greina einstaka þætti áreitisins. Þetta þarf einstaklingurinn að temja sér. Nægir hér að nota dæmi eins og að hlusta og greina dægurlagatexta eða það sem fram fer í fjarskiptakerfum, t.d. flugvéla eða skipa, sem mörgum reynist mjög erfitt í upphafi. Æfingin skapar klárlega meistarann.
Að greina í sundur og grípa orð og setningar getur verið mjög erfitt og er þá stundum betra að loka á annað áreyti, sem getur verið auðvelt, eins og að loka augunum, en það er ekki alltaf hægt. Og stundum flækist dæmið meira þegar mörg hljóð berast samtímis eða nálægt í tíma.
Þegar upplýsingarnar hafa komist í skammtímaminnið þarf að meðhöndla þær, grúppa og setja í samhengi. Oft er talað um að aðeins tiltekinn fjöldi af upplýsingaeiningum geti dvalið í STM en eflaust er hægt að auka þá rýmd og hvernig við grúppum skiptir þá líka máli. Einstaklingurinn getur þjálfað og aukið getu sína þótt eflaust sé sterkur erfðaþáttur líka. Hann þarf að þjálfa STM jafnvel þótt ómeðvitað sé. Í STM dvelja upplýsingarnar aðeins í u.þ.b. tuttugu sekúndur sé ekki verið að vinna með þær frekar.
Dæmi, sem ég held að sé viðeigandi, er hvernig fólk grípur og heldur upplýsingum um símanúmer í STM til þess að nota síðar. Margir eru með skapalón (form) sem þeir vilja setja númerin í (algengast fyrstu þrír stafirnir saman og svo næstu fjórir saman), til að ná að festa athygli á þau og setja inn í STM. Rétt framsetning skiptir miklu máli en þjálfun í að grípa númer og meðhöndla í STM einnig. Þú vilt fá upplýsingarnar á réttu formi, en ef ekki, umraðar einstaklingurinn númerinu og til þess þarf þjálfun. Með þessari aðferð er einstaklingurinn að tryggja að upplýsingarnar hverfi ekki heldur nýtist síðar.
Þjálfun og minnistækni (mnemonics) skipta svo aftur miklu máli til að koma upplýsingunum frá STM í langtímaminni (LTM). Þjálfun er hér mjög mikilvæg.
Þjálfun í að setja upplýsingarnar í samhengi er af mörgum talin lykillinn og er eflaust háð þjálfun. Að hafa mikið efni og fjölbreytt í LTM ætti líka samkvæmt kenningunni að gera verkið léttara. Dæmi um það er tungumálanám þar sem fyrri þekking nýtist.
Læra að læra
Þá má líka segja að hlustunaræfingar gefi kennurum kjörið tækifæri til að ræða „námstaktík“ við nemendur. Við ósjálfrátt ræðum „námsstrategíu” eða góðar námsvenjur við nemendur, halda reglu varðandi svefn og lærdóm o.sfrv. enn taktíkin er oft látin liggja milli hluta og hver og einn prufar sig áfram þar.
Annað sem vert er að hafa í huga varðandi hlustunaræfingarnar er að:
- Inntak efnisins fellur að námsskrá í samfélagsfræði og íslensku.
- Þjálfun í einbeitingu nýtist í öllu námi.
- Þá krefst form námsins mikils aga; annað hvort ertu að taka þátt eða ekki.
Nám hefur breyst frá því sem áður var. Aðferðafræðin og miðlarnir eru núna fjölbreyttar og er það er jákvætt en mikilvægt er að gera sér grein fyrir hlutverk hlustunar nú og áður fyrr. Áherslan á hlustun, eina og sér, hefur minnkað því hún hentar ekki öllum jafn vel og önnur meira sjónrænni framsetning býðst nú í auknum mæli, en þrátt fyrir þetta er mikilvægi hlustunar í nútímasamfélagi síst minna. Það er því slæmt ef þjálfun í henni er látin víkja og verður vikið að því hér á eftir.
En klassískt dæmi um þjálfun í hlustun er getan til að læra vísur, enda er rím og form ein af betur þekktum aðferðum til að auka heyrnarminni. Margir undrast getu eldra fólks til að læra og fara rétt með texta. Ekki er spurning að getan var meiri áður, sérlega ef um bundið mál var að ræða. Formið er þarna mikilvægt og börn lærðu snemma bragfræði án þess að þekkja reglurnar meðvitað, þau fundu einfaldlega hvort vísan var rétt, félli að forminu.
Annað dæmi um þetta eru þulur og rímur þar sem erfiðara var að nýta þessa minnisaðferð, bragfræðina. Í þessu tilfelli er ljóst að þjálfunin skipti máli, þótt minnisaðferðin sé ekki eins ljós, enda kepptust krakkar gjarnan við að vera sem fljótust að læra, með sem fæstum endurtekningum.
Mikilvægi hlustunar
Nú er aðaláherslan á hlustun til að læra versið utanbókar liðin tíð en samt er jafn mikilvægt að geta einbeitt sér að máli eða frásögn, haldið aðalatriðunum og unnið með þau í framhaldi. Ástæða þess er m.a. að við búum í flóknara samfélagi þar sem við eigum samskipti við fleiri og fjölbreyttari aðila.
Þrátt fyrir að við höfum nú upptökutæki og myndavélar nánast alltaf við höndina og grunnskólabörnin mörg hafi aðgang að terabytum af geymsluminni þá er getan til að hlusta og - meðtaka strax og milliliðalaust upplýsingar aðalatriði.
Þessi geta gerir okkur kleyft að skilja aðrar manneskjur og vinna úr því sem fyrir okkur er borið og setja í LTM, upplýsingar og reynslu sem við þurfum að hafa við höndina. Öll terabytin af upplýsingum á tölvunni, flakkaranum, utanáliggjandi drifinu, iPodinum og símanum er ekki þekking, það eru gögn. Við getum ekki nýtt þau til að setja dagleg áreiti í samhengi.
Reynsla og rannsóknir sýna að þjálfun í hlustun eykur færni nemandans á margvíslegan hátt. Þjálfun í hlustun nýtist ekki aðeins beint í skólastarfinu og náminu, aukinni færni í málinu og almennri getu til að meðtaka námsefni, heldur líka til að þroska heilsteyptar manneskjur sem eru tilbúnar að taka þátt í samfélaginu. Getan til að hlusta og meðtaka hefur eðlilega verið tengd við:
- betri námsárangur
- aukin afköst og hraða í lausn vandamála
- betri samskipti og aukið traust milli einstaklinga
- aukna nákvæmni og færri mistök
- öryggi og yfirvegun í samskiptum
- betri þekkingu á málefnum og skapandi lausnir
Þroski framheilans og hugsun
Í þessu sambandi má líka nefna að nýlegar rannsóknir sýna að ung börn sem horfa mikið á sjónvarp, sem er vitsmunalega passíft atferli andstætt við hlustun, bera þess merki mörgum árum síðar hvað varðar slakari frammistöðu í skóla, meðal annars í rökhugsun.
Og hið gagnstæða er sennilega líka rétt að börn sem mikið er talað við og kunna að hlusta, standa sig betur og það eru vísbendingar um að hlustun, sem iðulega framkallar hugsun, þroski sérstaklega framheilann. Með líffræðilegum aðferðum hefur verið sýnt fram á að framheilinn er mjög virkur þegar við tökumst á við vandamál og þessi virkni dofnar svo þegar við náum tökum á viðfangsefninu, vandamálið er leyst.
Þetta er afar áhugavert og er eflaust ástæða þess að svo margir góðir hlutir eru tengdir við að börn hlusti á sögur. Góður þroski framheilans er eiginlega forsenda þess að einstaklingum ganga vel í því sem þeir takast á hendur. Framheilinn er það sem maður notar þegar maður hugsar og það hlýtur að vera takmark okkar með menntun að efla slíkt atferli. Spurningarnar eins og hvers vegna og hvað ef eru jú afgreiddar í framheilanum.
Óyggjandi hefur verið sýnt fram á að unglingar sem eru góðir í að hlusta standa sig betur í námi og þeir sem eru slakir á þessu sviði standa sig verr en jafnaldrar.
Hlusta.is