Þorvaldur Thoroddsen | skolavefurinn.is

Þorvaldur Thoroddsen

Vefslóð

Lýsing

Í liðnum Fólk í sögunni vekjum við athygli á einstaklingum sem á einhvern hátt sköruðu fram úr eða settu mark sitt á sögu sinnar samtíðar. Á 19. öld fóru Íslendingar að gefa landi sínu og náttúru þess meiri gaum en áður. Fram að því voru það einkum útlendir menn sem stunduðu skipulegar náttúrufræðirannsóknir hér á landi, en þó höfðu þeir Eggert Ólafsson og Sveinn Pálsson lagt sitt af mörkum er þeir ferðuðust um landið á árunum 1752-1757. Þá vann Björn Gunnlaugsson um miðja 19. öld þarft og mikið starf við landmælingar og dró upp betri kort en áður hafði þekkst af landinu. En það er fyrst með tilkomu Þorvaldar Thoroddsens að skipuleg og heildstæð lýsing á landinu og náttúru þess er unnin af Íslendingi. Á þeim árum voru Íslendingar farnir að eygja vonina um frelsi frá Dönum og ekki þverfótaði fyrir skáldum sem ortu hrifnæm ljóð um land og þjóð í fortíð og framtíð. Framlag Þorvalds Thoroddsens var engu síður mikilvægt fyrir alla þá baráttu en hans ljóð voru skráð í rannsóknum, kenningum og staðreyndum um náttúruna og landið; rannsóknir sem við búum að enn í dag og munum búa að um ókomin ár.