Setningafræði - Skýringar á vef
Lærðu um uppbyggingu setninga, setningarliði og málskipan.
Í setningafræði er fjallað um tengsl orða í samfelldu máli. Í slíkri umræðu er mikilvægt að hafa gömlu góðu orðflokkana á valdi sínu en jafnframt að átta sig sem best á sambandi milli orða í setningu. Þegar sagt er að eitt orð standi með öðru eða að eitt orð taki með sér annað orð er vísað til setningafræðilegra atriða. Í umræðu um setningar munu okkur birtast ýmis ný hugtök. En fyrst skulum við taka dæmi þar sem einungis orðflokkarnir koma til umræðu.
Dæmi:
Þetta er mjög góður mysingur
Kjarnaorðið er mysingur. Lýsingarorðið góður stendur með nafnorðinu mysingur. Lýsingarorð lýsa einmitt nafnorðum. Síðan stendur mjög með góður; með atviksorðinu mjög er lögð áhersla á að mysingur sé ekki aðeins góður heldur mjög góður. Atviksorð lýsa einmitt gjarnan lýsingarorðum.
Verkefni
1. Hvert er kjarnaorðið í setningunum hér fyrir neðan?
- Þetta er afleitur leikur.
- Hann er mjög góður handboltamaður.
2. Hvaða tilgangi þjóna orðin afleitur og góður í setningunum?
3. Hvað er gott að hafa bak við eyrað þegar hugað er að setningafræði?