Hljóð- og rafbækur

124 hljóðbækur í boði

Íslendingasögur - Fornrit

Brennu-Njáls saga

Brennu-Njáls saga

Íslendingasögur

Brennu-Njáls saga, eða Njála eins og hún er kölluð, þarfnast engrar kynningar við. Flestir Íslendingar vita af henni og hvaða sess hún hefur í bókmenntum vorum. Sagan hefur að geyma margar af helstu hetjum fortíðarinnar, fólk eins og þau Njál og Bergþóru, Gunnar og Hallgerði langbrók, Kára Sölmundarson og hinn stórbrotna Skarphéðin Njálsson. Þá má ekki gleyma einum helsta skúrki íslenskra bókmennta, Merði Valgarðssyni. Sagan telur 159 kafla. Það er skylda allra að þekkja þetta lykilrit íslenskra bókmennta, enda er hún kennd við flesta framhaldsskóla. Hér gefst ykkur þægileg leið til að tileinka ykkur þessa frábæru sögu.

Egils saga Skallagrímssonar

Egils saga Skallagrímssonar

Íslendingasögur

Egils saga Skallagrímssonar er og verður okkur Íslendingum ávallt hugleikin, enda ein af stórbrotnustu Íslendingasögunum og talin skrifuð af sjálfum Snorra Sturlusyni. Egils sögu má skipta í tvo hluta, en sá fyrri (1-27) segir sögu Kveld-Úlfs Bjálfasonar; sona hans Skalla-Gríms og Þórólfs og baráttu þeirra við norska konungsvaldið. Sá síðari segir svo sögu Egils sjálfs, af skáldinu, vígamanninum og bóndanum sem býður erlendu valdi byrginn og hefur sigur að lokum.

Eiríks saga rauða

Eiríks saga rauða

Íslendingasögur

Eiríks saga rauða segir frá landnámi norrænna manna á Grænlandi og landafundum í Vesturheimi. Mun hún skráð snemma á 13. öld og er höfundur hennar ókunnur. Í flestum megindráttum mun Eiríks saga vera skáldskapur en byggir þó á sönnum atburðum, er eiginlega ofin inn í atburði sem áttu sér stað í raunveruleikanum. Þó svo að nafn sögunnar gefi til kynna að hún fjalli í megindráttum um Eirík Þorvaldsson hinn rauða, er því öðruvísi farið í sjálfri sögunni. Honum eru eiginlega ekki gerð mikil og góð skil nema í tveimur köflum. Ef miða ætti við rými og hlutdeild persónanna í sögunni mætti frekar segja að aðalpersóna sögunnar sé Guðríður Þorbjarnardóttir Vífilssonar, þess sem kom með Auði djúpúðgu til Íslands.

Eyrbyggja saga

Eyrbyggja saga

Íslendingasögur

Eyrbyggja saga er um margt merkileg saga, ólík mörgum hinna þekktari, hvað varðar áherslur og efnistök. Þrátt fyrir að hún hafi aldrei notið jafn mikilla vinsælda og sögur eins og Njála, Egla og Laxdæla og standi þeim sögum töluvert að baki hvað varðar listfengi og byggingu, er hún samt ein af þessum stóru sögum sem allir áhugamenn um Íslendingasögur þurfa að kunna skil á. Persónur sögunnar skarast töluvert við bæði Brennu-Njáls sögu og Laxdæla sögu og svo þykir hún forvitnileg í sagnfræðilegu og þjóðfræðilegu tilliti. Sagan er á margan hátt frábrugðin öðrum Íslendingasögum og á það ekki síst rætur að rekja til aðalpersónu sögunnar, Snorra goða, sem er ólíkur þeim hetjum sem við eigum að venjast annars staðar frá. Má jafnvel halda því fram að Snorri sé nútímanlegri hetja en menn eins og Gunnar á Hlíðarenda og Egill Skallagrímsson og tali því betur inn í nútímann en þeir.

Finnboga saga ramma

Finnboga saga ramma

Íslendingasögur

Við bjóðum upp á Finnboga sögu ramma í heildstæðum kennslubúningi. Söguna er hægt að nálgast í vefútgáfu með gagnvirkum æfingum og líka í útprentanlegri útgáfu með sömu verkefnum. Á vefnum er svo boðið upp á gagnvirkar orðskýringar og þar er einnig hægt að hlusta á söguna upplesna. Finnboga saga er bráðskemmtileg og enginn skortur á ýkjukenndum lýsingum. Hún er ein af yngri Íslendingasögunum, talin rituð á fyrri hluta 14. aldar en lýsir atburðum sem eiga að hafa átt sér stað á 10. öld og allt fram yfir kristnitöku (Finnbogi lét gera kirkju í elli sinni). Sögusviðið vítt, allt frá Flateyjardal í Suður-Þingeyjarsýslu til Húnavatnsþings og loks Trékyllisvíkur. En einnig bregður söguhetjan sér til Noregs og þaðan allt til Grikklands og lendir í mörgum ævintýrum. Þetta er saga Finnboga Ásbjarnarsonar sem fæddist á Eyri í Flateyjardal á 10. öld. Faðir hans var bóndinn og goðorðsmaðurinn Ásbörn dettiáss. Nýfæddur var Finnbogi borinn út en Gestur og Syrpa, ábúendur á Tóftum í Flateyjardal, fundu hann þar sem hann lá reifaður í urð, og ólu hann upp. Var hann í fyrstu kenndur við fundarstaðinn og nefndur Urðarköttur. Nafnið Finnbogi hlaut hann eftir að hafa bjargað manni þeim úr sjávarháska er Finnbogi hét, en sá gaf upp öndina og gaf Urðarketti nafn sitt að launum fyrir björgunina. Síðan var það sjálfur Grikkjakonungur sem gaf Finnboga viðurnefnið „hinn rammi“ eftir mikla aflraun sem hann framdi á þingi sem konungurinn efndi til. Sagan af Finnboga ramma er miklu meira en skemmtisaga af heljarmenni sem m.a. gat unnið vopnlaus á bjarndýri. Sagan er listavel skrifuð og lýsir lífshlaupi göfugs manns frá vöggu til grafar, manns sem ekki efndi til illinda að fyrra bragði en var stundum baldinn í æsku og fastur fyrir þegar hann óx úr grasi. Oft þurfti hann að verja hendur sínar því að enginn skortur var á öfundarmönnum. Gleði og sorgir, skin og skúrir skiptast á í lífi þessa manns og fólks hans. Konur gegna mikilvægu hlutverki í þessari sögu; þær eru að mörgu leyti drifkraftur atburða. Ef einhver spyr um gildi sögunnar og það hvers vegna hún sé tekin til kennslu gæti eitt svar af mörgum verið þetta: Fyrir utan skemmtana- og listgildi má líta má á hana sem dæmisögu um það að göfugum mönnum farnast að lokum vel.

Fóstbræðra saga

Fóstbræðra saga

Íslendingasögur

Fóstbræðrasaga fjallar einkum um þá Þormóð Bersason, sem kallaður var Kolbrúnarskáld, og Þorgeir Hávarsson. Þó að þessir tveir bindist vinarböndum og eigi samleið í uppivöðslusemi þegar þeir eru ungir eru þeir ólíkir um flesta hluti. Þorgeir er fyrst og fremst vígamaður kynjaður aftan úr heiðni; hugmyndaheimur hans á margan hátt úr takt við samtímamenn hans, en Þormóður er fjölbreyttari maður, kvennamaður og skáld sem getur lagað sig að breyttum aðstæðum, s.s. tileinkað sér nýja trú o.þ.h. Er sagan ólík öðrum Íslendingasögum, ekki síst fyrir afstöðu höfundar. Í flestum Íslendingasögum er höfundurinn nánast ósýnilegur í bakgrunni og lætur söguþráðinn líða áfram án þess að taka beina afstöðu, en því er hins vegar öðruvísi farið í Fóstbræðrasögu. Þar talar höfundurinn til okkar nánast með beinum hætti. Hefur sagan heillað marga vegna skemmtilegra lýsinga og sérstæðs stíls og t.a.m. byggði Halldór Kiljan Laxness söguna Gerplu á Fóstbræðrasögu.

Gísla saga Súrssonar

Gísla saga Súrssonar

Íslendingasögur

Gísla saga Súrssonar hefur lengi verið með vinsælustu Íslendingasögunum og Gísli sjálfur ein ástsælasta hetjan sem þær hafa vakið til lífsins. Hefur sagan enda verið kennd í skólum landsins um áraraðir. Eins og með svo margar Íslendingasögur eru skilin á milli skáldsögunnar og raunverulegra atburða víða óglögg. Við vitum jú að flestar aðalpersónur sögunnar voru til og að ákveðinn kjarni atburðarásarinnar er sannur, en við gerum okkur líka fulla grein fyrir því að höfundur sögunnar, hver svo sem hann er, tekur sér listrænt skáldaleyfi þegar sagan kallar á það. Í raun má sannleiksgildið einu gilda, því höfundi tekst að glæða persónurnar þvílíku lífi að þær standa manni jafnvel enn nær en raunverulegt fólk. Nægir þar að nefna Auði konu Gísla, Þorkel bróður hans, Þorgrím goða og fleiri.

Grettis saga

Grettis saga

Íslendingasögur

Grettis saga hefur löngum verið ein af ástsælustu Íslendingasögunum. Hún fjallar um Gretti Ásmundarson frá Bjargi í Miðfirði, sem gekk undir nafninu Grettir sterki, enda var maðurinn ógnarsterkur og lét ekki bugast þótt við forynjur væri að etja. Í sögunni er greint frá æsku og uppvexti Grettis, brekum hans og óláni, sem olli því að hann varð á endanum útlagi. Var hann í útlegð í mörg ár og kom víða víða við á landinu en að lokum náðist hann í Drangey á Skagafirði og var veginn þar eftir hetjulega baráttu. Skemmtileg saga sem allir Íslendingar ættu að þekkja.

Gunnlaugs saga ormstungu

Gunnlaugs saga ormstungu

Íslendingasögur

Gunnlaugs saga ormstungu tilheyrir flokki Íslendingasagna sem eru um 40 talsins, skrifaðar á 13. og 14. öld en greina frá atburðum sem eiga að hafa gerst löngu fyrr. Í sumum þeirra er í upphafi jafnvel sagt frá landnámi seint á 9. öld, en yfirleitt er sögutíminn seinni hluti 10. aldar og allt fram á fyrri hluta þeirrar 11. Í Gunnlaugs sögugerast atburðir nálægt árinu 1000 og tengjast þá m.a. kristnitökunni.   Sagan er talin rituð á seinni hluta 13. aldar. Ekkert er vitað um höfundinn en hann hefur verið lærður maður sem þekkt hefur til margra rita; hugsanlega var hann prestlærður. Riddarasögur hefur hann þekkt því að greina má áhrif evrópskra riddarasagna í sögu hans, t.d. Flóres sögu og Blankiflúr, ævintýralegri ástarsögu ungmenna sem skrifuð var á frönsku á 12. öld en þýdd á íslensku á þeirri 13. Einnig má geta þess að draumur Þorsteins á Borg um fuglana á sér merkilega hliðstæðu í Niflungaljóðinu þýska frá því um 1200. Gunnlaugs saga er ekki varðveitt í frumriti fremur en aðrar Íslendingasögur en tvö skinnhandrit eru til af henni, annað frá 14. en hitt frá 15. öld. Yngri pappírshandrit eru frá þessum skinnhandritum runnin.  Í fyrirsögn annars skinnhandrits sögunnar segir að sagan sé skráð „eftir því sem sagt hefir Ari prestur hinn fróði Þorgilsson, er mestur fræðimaður hefir verið á Íslandi á landnámssögur og forna fræði“. Þessi staðhæfing stenst reyndar illa því að Ari fróði lést löngu áður en Gunnlaugs saga var skrifuð. En skrásetjari handritsins hefur hugsanlega viljað ljá sögunni sannfærandi svip með því að tengja hana nafni sjálfs Ara fróða.   Löngum hafa menn deilt um það hvort Íslendingasögurnar séu hreinar og klárar skáldsögur eða hvort líta megi á þær sem nokkurs konar arfsagnir sem byggðar séu á sönnum atburðum, en hafi svo nærst á hugmyndaflugi og frásagnargleði kynslóðanna þann tíma sem leið frá því að atburðirnir gerðust fram til þess að sögurnar voru færðar í letur.  Víst er að margar af persónum Gunnlaugs sögu eru nefndar í eldri ritum. En þar með er auðvitað ekki sagt að þeim sé lýst í sögunni eins og þær raunverulega voru. Hvað t.d. um skáldskap Gunnlaugs í sögunni? Hæpið mun talið að hann sé í raun og veru hægt að rekja alla leið til persónunnar Gunnlaugs.  En hvað sem öllum sannleika líður, þá hefur Gunnlaugs saga ormstungu lengi verið með vinsælustu Íslendingasögunum. Hún fjallar um heitar ástir ungmenna og mikil örlög en er jafnframt blandin gamansemi og húmor. Hún er sterk í byggingu og er römmuð inn af draumum sem feður aðalpersónanna dreymir. Draumur Þorsteins á Borg, við upphaf sögu gefur tóninn og grípur lesandann traustataki. Draumar þeirra Illuga og Önundar í lok sögu kallast á við draum Þorsteins.   Helstu persónur eiga hver sín einkenni, mikla kosti og augljósa galla, sem gera dramatísk átök óumflýjanleg. Sagan er tilvalin til umræðu um mannlegan breyskleika og mannleg samskipti, og mætti nýta til siðferðislegrar og heimspekilegrar rökræðu.      Gunnlaugs saga er á margan hátt góður gluggi að lengri og flóknari Íslendingasögum. Hér kynnumst við afkomendum Egils á Borg, en leiða má að því rök að Gunnlaugs saga sé skrifuð sem nokkurs konar framhald sögu Egils: fólkið hefur viljað fá meira að heyra af Mýramönnum. En vel má nú fara hina leiðina og kynna sér Egils sögu að loknum lestri sögunnar um sonardóttur skáldsins á Borg.  Á Gunnlaugs sögu má líta sem dæmisögu um það hvernig farið getur ef haldið er dauðahaldi í gömul hetju- og sæmdargildi í friðsömu bændasamfélagi. Eða öllu heldur, hvernig farið getur ef ekki er hugað að dygðum á borð við sanngirni og tillitssemi í samskiptum manna. En jafnframt er þetta saga um mannlega reisn og mannlegan harm í viðsjárverðum heimi.

Hrafnkels saga Freysgoða

Hrafnkels saga Freysgoða

Íslendingasögur

Kjalnesinga saga (lengri)

Kjalnesinga saga (lengri)

Íslendingasögur

Kjalnesinga saga fellur í flokk yngri Íslendingasagna og er talin rituð um eða eftir aldamótin 1300. Þar er raunsæið farið að víkja fyrir reyfarakenndum atburðum sem eiga ekkert skylt við raunverulega atburði. Við merkjum þar skyldleika við þjóðsögur og fornaldar- og riddarasögur. Ólíkt mörgum eldri Íslendingasögum virðist höfundur leggja meiri áherslu á að skemmta lesandanum en teygja einhvern sannleika til eða frá. Og það tekst höfundi Kjalnesinga sögu mjög vel, því sagan er skemmtileg aflestrar auk þess sem hún er vel upp byggð á allan hátt og gefur öðrum sögum ekkert eftir að því leytinu til. Kjalnesinga saga birtist hér í rafrænni útgáfu, ætluð til lestrar á unglingastigi og í framhaldsskólum. Það er von okkar að þessi útgáfa verði til þess að auðvelda aðgang ungs fólks að þessari bráðskemmtilegu og töfrandi sögu – og að hún kveiki síðan áhuga á fleiri sögum.

Króka-Refs saga

Króka-Refs saga

Íslendingasögur

Króka-Refs saga hefur notið vinsælda á fyrri tíð eins og m.a. sést af því að út frá henni hafa verið ortar a.m.k. þrennar rímur. Eitt rímnaskáldanna er sjálft passíusálmaskáldið, Hallgrímur Pétursson. Vinsældir sögunnar má rekja til þess að hún er vel og skipulega sögð, hún er spennandi og viðburðarík, og hetjan er heilsteypt og afar snjöll og úrræðagóð. Líkja má sögunni við ævintýri sem endar vel. Hún hefur þó ekki notið sömu virðingar og ýmsar eldri Íslendingasögur sem geyma örlagaþrungnari frásagnir og djúphugsaðri atburðarás en hér er um að ræða. Sagan er listavel skrifuð. Gamansemi og skopskyn birtist víða. Það er því létt yfir frásögninni og jafnframt má draga af henni lærdóm, m.a. um mannlega kosti og bresti. Hún mun vafalaust höfða til skólafólks á unglinga- eða framhaldsskólastigi. Frásagnarsnilld sögumannsins birtist m.a. í beitingu andsæðna og hliðstæðna. Þannig er Refur fullkomin andstæða sumra þeirra manna sem hann á í útistöðum við. Hliðstæð atvik (t.d. smíðar Refs á Íslandi og í Grænlandi eða dulbúningur hans í Noregi og Danmörku) styrkja bygginguna. Sama er t.d. um upphaf sögunnar og endi að segja: hún byrjar á Kvennabrekku og endar einnig þar þó að sjálf hetjan hafi ekki átt afturkvæmt til Íslands. Allmargar útgáfur eru til af Króka-Refs sögu, sjá gegnir.is. Hér er textinn færður til nútímastafsetningar en ýmsar gamlar beygingarmyndir orða fá þó að halda sér.

Laxdæla saga

Laxdæla saga

Íslendingasögur

Eins og með aðrar Íslendingasögur er ekki vitað um höfund Laxdælu, en því hefur stundum verið haldið fram að hún sé skrifuð af konu og verður það að teljast nokkuð óvenjulegt. Hafa menn komist að þeirri niðurstöðu kannski fyrst og fremst vegna þess hve konur hafa þar stór hlutverk og eru í raun miklir áhrifavaldar í allri framvindu sögunnar. Ber þar fyrst að geta Guðrúnar Ósvífursdóttur og svo Unni djúpúðgu og einnig írsku konungsdótturinni og ambáttinni Melkorku. Þá er í sögunni að finna eina af áhugaverðari gátum Íslendingasagnanna, sem menn hafa deilt um og leitað svara við án árangurs í gegnum tíðina, en það er túlkun orða Guðrúnar Ósvífursdóttur er Bolli Bollason sonur hennar spyr hana hverjum bænda sinna og ástmanna hún hefði unnað mest, en Guðrún svarar með þeim frægu orðum: „Þeim var ég verst er ég unni mest.“ Já, nú er bara að lesa sjálfa söguna eða hlusta á hana upplesna og sjá hvort þið getið svarað þeirri gátu.

Snorra-Edda

Snorra-Edda

Snorri Sturluson

Snorra-Edda er íslensk handbók í skáldskaparfræðum, samin af Snorra Sturlusyni, einhvern tíma á bilinu 1220–1230. Verkið hefst á Prologus (formála) þar sem lýst er sköpun heims, upphafi trúarbragða og tilurð hinna fornu ása. Meginmálið skiptist svo í þrjá hluta þar sem fremst fer Gylfaginning, þá Skáldskaparmál og loks Háttatal. Gylfaginning er öðrum þræði frásögn og kennslubók í goðafræði. Er hún okkar helsta heimild um norrænan goðsagnaheim. Skáldskaparmál segja frá upphafi skáldskaparins. Þar er kenningum og heitum lýst með dæmum úr fornum skáldskap, og vitnað er í fjölmörg skáld. Einnig er þar að finna goðsögur og hetjusögur sem sagðar eru til að lýsa uppruna kenninga.

Völuspá

Völuspá

Völuspá er kvæði um sögu heimsins frá sköpun að endalokum. Völva segir Óðni söguna, það sem hún veit úr fortíð, samtíð og framtíð. Sama efni er í Gylfaginningu Snorra-Eddu nema þar er engin völva.

Ljóð

Arnór jarlaskáld: Úr Þorfinnsdrápu og um...

Arnór jarlaskáld: Úr Þorfinnsdrápu og um...

Arnór Þórðarson jarlaskáld

Samkvæmt Boga Melsteð var Arnór sonur Þórðar skálds Kolbeinssonar og Oddnýjar eykindils í Hítárnesi. En frá Þórði segir í Bjarnar sögu Hítdælakappa. Arnór mun hafa farið utan 1034. Hann kvongaðist í Orkneyjum og skapaði sér nafn ytra sem mikið og gott skáld. Auknefni sitt fékk hann af því að yrkja um þá Þorfinn Sigurðarson og Rögnvald Brúsason sem voru jarlar í Orkneyjum.

Bernskuheimili mitt

Bernskuheimili mitt

Ólöf Sigurðardóttir

Ólöf frá Hlöðum var ein af fáum kvenskáldum sem gátu sér orðs á 19. öld. Ljóðakver kom fyrst út eftir hana árið 1888 og var það með fyrri ljóðabókum sem út komu eftir konu á Íslandi. Ólöf orti undir áhrifum frá raunsæisstefnunni og bera ljóð hennar skýran vott sjálfstæðrar hugsunar; konu sem lét engan kúga sig til hlýðni, og verður það að teljast nokkuð óvenjulegt á þeim tíma. Þegar Bernskuheimili mitt kom fyrst út vakti frásögnin töluverða hneykslan, enda nokkuð berorðar lýsingar. Það má þó öllum vera ljóst sem hlusta á eða lesa þessa frásögn að Ólöf er einungisað segja satt og rétt frá. Góð heimild um heimilishald til sveita á nítjándu öld.

Bjarni Gizurarson: Valin ljóð

Bjarni Gizurarson: Valin ljóð

Bjarni Gizurarson

Bjarni þótti á sínum tíma í hópi merkustu skálda landsins, en hann var af hinu kunna skáldakyni að austan. Var Einar skáld í Heydölum afi hans. Einar fæddist árið 1621. Foreldrar hans voru séra Gizur Gíslason að Þingmúla og kona hans Guðrún Einarsdóttir prests í Heydölum, Sigurðssonar. Þekktastur var Bjarni fyrir kvæði sitt Hrakfallabálk en það var nokkuð vinsælt um tíma og var prentað í kveri sem bar nafnið Nokkur gamankvæði og kom út árið 1832.

Bjarni Thorarensen: Valin ljóð

Bjarni Thorarensen: Valin ljóð

Bjarni Thorarensen

Bjarni Thorarensen braut blað í sögu bókmennta Íslendinga. Hann var fyrsti skáldfulltrúi rómantísku stefnunnar hér á landi og brá ljósi á þann veg fyrir menn eins og Jónas Hallgrímsson, Grím Thomsen, Steingrím Thorsteinsson og fleiri. Þá lagði hann grunninn að hinum hástemmdu ættjarðarkvæðum sem voru einkennandi fyrir alla 19. öldina samfara baráttunni fyrir sjálfstæði frá Dönum.

Borgin hló (valin ljóð)

Borgin hló (valin ljóð)

Matthías Johannessen

Borgin hló var fyrsta ljóðabók Matthíasar og kom út 1959. Í bókinni er komið víða við og „stórum“ viðfangsefnum gerð skil, s.s. bernskunni, ástinni, dauðanum, stríði og friði.

Bragi Boddason: Úr Ragnarsdrápu og um skáldið

Bragi Boddason: Úr Ragnarsdrápu og um skáldið

Bragi Boddason

Sagt hefur verið að Bragi Boddason sé forfaðir allra íslenskra skálda; að hann hafi fundið upp dróttkvæðan hátt og verið fyrir það afrek tekinn í goða tölu.

Eggert Ólafsson: Valin ljóð

Eggert Ólafsson: Valin ljóð

Eggert Ólafsson

Eggert Ólafsson var einn af forvígismönnum upplýsingarinnar hér á landi og átti sinn þátt í að vekja Íslendinga til umhugsunar um stöðu sína og hvað þeir þyrftu að gera til að ná sér upp úr þeim hörmungum og doðahugsun sem honum fannst einkenna þá á 18. öld. Eggert lést langt um aldur fram en hugmyndir hans lifðu ekki síst með því að Fjölnismenn fóstruðu þær í riti sínu og héldu nafni hans á lofti.

Egill Skallagrímsson: Höfuðlausn og Sonatorrek

Egill Skallagrímsson: Höfuðlausn og Sonatorrek

Egill Skallagrímsson

Egils saga Skallagrímssonar er ein frægust allra Íslendingasagna og mun hún vera rituð á fyrri hluta 13. aldar. Hún er í stórum dráttum skáldsaga og telja menn að hún sé búin til sem umgjörð utan um vísur Egils, sem væntanlega eru þá talsvert eldri. Egill sjálfur er þungamiðja sögunnar, enda enginn hvunndagsmaður þar á ferð. Bjó hann yfir mörgum þeim eiginleikum sem kappar þess tíma þurftu að hafa til þess að geta kallast hetjur. Fáir ef nokkur stóðust honum snúning að vopnfimi og kröftum, hann var áræðinn og óttaðist fátt, og þess utan var hann afbragðs skáld en frægustu kvæði hans, Höfuðlausn og Sonatorrek, þykja með því besta í kveðskap sem varðveist hefur frá þessum tíma.

Einar Sigurðsson í Eydölum: Valin ljóð

Einar Sigurðsson í Eydölum: Valin ljóð

Einar Sigurðsson í Eydölum

Einar Sigurðsson fæddist árið 1538, sonur prestshjónanna Guðrúnar Finnbogadóttur og Sigurðar Þorsteinssonar á Hrauni í Aðaldal í Þingeyjarsýslu. Hann átti eftir að lifa langa og viðburðaríka ævi á þeim miklu umbrotatímum sem framundan voru í íslensku þjóðlífi. Langþekktasta kvæði Einars er Kvæði af stallinum Kristí sem kallast vöggukvæði. Kvæðið er sungið sem jólasálmur og oft kennt við upphafslínu sína: Nóttin var sú ágæt ein. Það er alls 29 erindi. Kvæðið er þrungið ást og umhyggju fyrir litla Jesúbarninu sem liggur í lágum stalli, allslaus og varnarlaus eins og öll nýfædd börn. Það er freistandi að hugsa sér að Einar hafi ort það við vöggu eins af sínum mörgu börnum og raulað það við þau.

Ferjuþulur

Ferjuþulur

Valgarður Egilsson

Valgarður Egilsson flytur okkur sögu í formi þulu, sögu af för sinni með ferjunni upp á Skaga. Farþeginn horfir til allra átta og hugmyndaflugið er óhamið. Þulurnar eru eins konar frásöguljóð með breytilegri hrynjandi og hafa yfir sér ævintýralegan blæ.

Gísli Brynjólfsson: Valin ljóð

Gísli Brynjólfsson: Valin ljóð

Gísli Brynjólfsson

Gísli Brynjólfsson markaði spor bæði í bókmenntum okkar sem skáld og í stjórnmálasögu landsins, þó svo nafn hans sé ekki jafn þekkt og margra annarra. Hann var eldhugi í öllu sem hann gerði og frelsishugsjónin átti huga hans þó svo að hugmyndir hans í þeim efnum færu ekki alltaf saman við hugmyndir fjöldans. Sem ljóðskáld var hann í hávegum hafður um tíma, en þar einnig naut hann ekki alltaf sannmælis og fékk ekki þá almennu viðurkenningu sem hann átti skilið. Hefur því verið haldið fram að afstaða hans í stjórnmálum hafi þar haft sitt að segja, en Gestur Pálsson sagði eitt sinn að „vegna þeirra hafi hann orðið svo illa þokkaður meðal Íslendinga, að það hafi orðið tíska að neita honum um skáldanafn". Það var helst sem fræðimaður að Gísli hlaut þá viðurkenningu sem honum bar enda var hann t.a.m. betur að sér í fornum íslenskum kveðskap en flestir samtímamenn hans.

Hrunadansinn

Hrunadansinn

Matthías Johannessen

Það hefur stundum verið sagt að skáldin séu samviska stjórnmálamannanna, og að listin sé oft á tíðum vegvísir inn í framtíðina. Það á svo sannarlega við með ljóðabálk Matthíasar Johannessens, Hrunadansinn.

Hvammar

Hvammar

Einar Benediktsson

Hvammar var síðasta ljóðabók Einars Benediktssonar og kom út árið 1930.

Jóhann Jónsson: Ljóðasafn

Jóhann Jónsson: Ljóðasafn

Jóhann Jónsson

Í þessu ljóðasafni eru öll ljóð sem aðgengileg eru eftir Jóhann Jónsson. Hér er um að ræða sannkallaðar ljóðaperlur sem allir ljóðaunnendur þurfa að kynna sér.

Jón Þorláksson frá Bægisá: Valin ljóð

Jón Þorláksson frá Bægisá: Valin ljóð

Jón Þorláksson frá Bægisá

Oft er sagt að Jón biskup Arason sé forfaðir allra núlifandi Íslendinga og yfirgnæfandi líkur eru á að svo sé. Hann hefur jafnframt mörgum verið hugleikinn sem einn stórbrotnasti leiðtogi þjóðarinnar en það var hans ógæfa að vera uppi á þeim tímum þegar samfélagið kallaði eftir nýjum sið. Jón er þó þekktur fyrir að taka örlögum sínum með jafnaðargeði og hefur m.a. þess vegna hlotið virðingarsess í sögu þjóðarinnar. Margir listamenn hafa síðan gert ævi hans og örlög að yrkisefni enda er efnið öllum þeim hugleikið sem láta sig sögu og menningu varða. Torfhildur Hólm samdi sögulegar skáldsögur, eins og sögurnar af Brynjólfi biskupi og Jóni Arasyni, og nutu þær gríðarlegra vinsælda þegar þær voru gefnar út. Margir vilja meina að Torfhildur Hólm sé fyrsti atvinnurithöfundur Íslendinga og sannarlega var hún fyrsti atvinnukvenrithöfundurinn.

Kolbeinn Tumason: Heyr himna smiður

Kolbeinn Tumason: Heyr himna smiður

Kolbeinn Tumason

Eitt fegursta trúarljóð að fornu er án alls efa Heyr himnasmiður eftir Kolbein Tumason, en hann var uppi á 12. og 13. öld og þótti mestur höfðingi í Skagafirði.

Kvæði 1

Kvæði 1

Eggert Ólafsson

Eggert Ólafsson (1726-1768) orti töluvert um æfina þó svo að hann teljist ekki til stórskálda. Fjölnismenn hömpuðu honum og hafði hann mikil áhrif á þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson. Eggert var þó á engan hátt jafn mikið skáld og hann var fræðimaður og baráttumaður, og voru kvæði hans flest því marki brennd að vera farvegur fyrir skoðanir hans og baráttumál í lífinu. Þrátt fyrir að kvæði hans verði seint talinn haglega eða vel ort fá þau mikinn kraft úr eldmóðinum sem á stundum hrífur lesandann svo með sér að hann gleymir öllu öðru. Í þessari bók er að finna flest ljóða Eggerts.

Kvæði 2

Kvæði 2

Einar Benediktsson

Þessi bók hefur að geyma ljóðahlutann úr fyrstu bók Einars, Sögur og kvæði, sem kom út árið 1897. Einar fór ekki troðnar slóðir í skáldskap sínum og skóp sér sinn eigin persónulega stíl. Mörg ljóða hans voru mikil að vöxtum og oftast bjó að baki þeim mikil hugsun. Hann reyndi á þanþol tungunnar og smíðaði ný orð ef þess þurfti með til koma hugsun sinni rétt til skila. Myndmál hans er óvenju kröftugt og hann notaði gjarnan óvenjulegar táknmyndir sem fólk átti ekki að venjast. Stundum hefur verið sagt að ljóð Einars séu torskilin og það kannski leitt til þess að þau hafi ekki orðið sú almenningseign sem skáld af hans stærðargráðu ætti að vera. Þá hafa ljóð Einars að stærstum hluta fallið utan vega í skólakerfinu sem er mikil synd. Hið sanna er að ljóð Einars eru hreint ekki torskilin, sem allir finna sem lesa þau.

Ljóð

Ljóð

Ólöf Sigurðardóttir

Ljóð Ólafar eru brennd marki erfiðs uppvaxtar og þeirra viðja sem ónógt frelsi bindur, en þó eru ljóð hennar persónulegri en tíðkaðist og sjónarhornið annað en hjá t.a.m. karlkyns skáldum þess tíma.  Vonbrigðin með sitt hlutskipti leyna sér ekki.  Ástin er henni ofarlega í huga, og þá aðallega ófullnægð ást og þráin eftir hinni sönnu ást.  Þá kemur fram sterk tilhneiging til að búa við frelsi og vera öðrum óháð, en hún og maður hennar Halldór bjuggu svo að segja aðskilin þó að þau byggju á sama bæ.  Var það fyrst og fremst að hennar ósk, en sýnir líka hvern mann Halldór hafði að geyma að láta þetta eftir henni.  Í þessu ljóðasafni eru öll ljóðin í ritsafni Ólafar sem kom út hjá Helgafelli árið 1945 og eru það öll ljóð sem kunn eru eftir Ólöfu.

Ljóð I

Ljóð I

Jóhann Gunnar Sigurðsson

Jóhanni Gunnari Sigurðssyni var ekki skammtaður langur tími hér á jörðu.  Hann lést úr tæringu einungis 24 ára gamall og að honum gengnum urðu íslenskar bókmenntir þeim mun fátækari, ekki síst ef litið er til þess hvað hann, þrátt fyrir ungan aldur, skildi eftir sig af góðum og vönduðum kveðskap. Við ætlum á næstunni að bjóða upp á allt höfundarverk Jóhanns í þremur bindum og byrjum á bókinni LJÓÐ I, sem hefur að geyma 66 ljóð og þar af mörg af hans bestu og kunnustu ljóðum.

Páll Ólafsson: Valin ljóð

Páll Ólafsson: Valin ljóð

Páll Ólafsson

Það er óhætt að segja að sem skáld hafi Páll Ólafsson haft nokkra sérstöðu á sínum tíma og það kannski fyrst og fremst vegna þess hve auðvelt hann átti með að yrkja og svo vegna afstöðu sinnar til kveðskapar almennt. Það lá ekki fyrir honum að mennta sig og raunveruleikinn, það umhverfi, sem mótaði hann varð þ.a.l. á margan hátt öðruvísi munstrað en margra samtímaskálda sem sóttu sér sameiginlega reynslu í það ferli og umhverfi sem menntun hafði í för með sér í þá daga. Þá hefur Páll vafalaust ekki litið á sig sjálfan sem skáld og ekki átt von á því að gefa ljóð sín út á bók ef marka má orð Jóns bróður hans sem fyrstur manna gaf út ljóðmæli Páls: ,,Það var ekki fyrr en á efri árum að honum kom til hugar, að nokkru sinni mundi koma út ljóðasafn eftir sig. Lengst af æfinnar hélt hann því ekki saman, því sem hann kvað. En þegar hann loks fór að rita upp og láta rita upp, það sem hann hafði þá eða gat náð til af ljóðum eftir sig, var margt glatað.” Þá segir hann á öðrum stað í bréfi til Jóns: ,,Ég hefi aldrei kveðið neina vísu í þeim tilgangi, að láta prenta hana, né til að troða mér inn í skáldatölu, heldur eins og þú veist af því, að ég hef aldrei unað við annað og aldrei getað haldið mér saman, líkt og spóinn.” (Haft eftir Páli Hermannssyni í formála ljóðasafns Páls Ólafssonar frá árinu 1955.)

Rímur af Högna og Héðni

Rímur af Högna og Héðni

Sigurður Breiðfjörð

Sigurður Breiðfjörð var og er fremsta rímnaskáld okkar Íslendinga þó svo að rímurnar og Sigurður hafi liðið nokkuð fyrir ómaklegar árásir Jónasar Hallgrímssonar á sínum tíma. Ríman af Högna og Héðni er lesin upp úr fyrsta bindi rímnasafns Sigurðar sem gefið var út af Ísafoldarprentsmiðju árið 1971 í sex bindum. Ríman var kveðin árið 1819.

Rímur af Þórði hræðu

Rímur af Þórði hræðu

Sigurður Breiðfjörð

Rímur af Þórði hræðu mun Sigurður hafa kveðið um 1820. Samanstanda þær af tíu rímum og er að finna í fyrsta bindi ritsafns Sigurðar sem gefið var út af Ísafold í umsjá Sveinbjörns Bertelssonar árið 1971.

Sigfús Daðason: Valin ljóð (Höfundur les)

Sigfús Daðason: Valin ljóð (Höfundur les)

Sigfús Daðason

Sigfús fyllti flokk þeirra skálda sem flokkuð voru sem atómskáld, en slík kenningarnöfn eru villandi og er ávallt hæpið að reyna að draga skáld og verk þeirra í einhverja dilka eða fella undir einhverjar stefnur. Það hefur gjarnan verið sagt um ljóð Sigfúsar að þau séu vitræn og heimspekileg, en að sama skapi torræð og skorti ljóðrænu. Ekki eru þó allir sammála því og er það eins og með annað, ef menn gefa sig að einhverju þá opnast það fyrir þeim. Ljóð Sigfúsar kalla kannski á að menn rýni betur í þau en margt annað til að njóta þeirra sem skyldi en þeir sem fundið hafa fyrir töfrum Sigfúsar verða auðugri en áður.

Söknuður

Söknuður

Jóhann Jónsson

Jóhann Jónsson skáld skildi ekki mikið ljóðasafn eftir er hann kvaddi þennan heim ungur að árum, en ljóð hans, ,,Söknuður” er eitt fallegasta ljóð sem ort hefur verið á íslenska tungu, og þó svo að liðin séu um áttatíu ár síðan það kom út hefur snilld þess hvergi fölnað og stendur það enn á jafntraustum grunni og þegar það var ort.  Ljóðið er einnig merkilegt fyrir það að  ásamt með ljóðinu Sorg eftir Jóhann Sigurjónsson er það talið marka upphaf nútíma ljóðagerðar.  Nýtt og ferskt form þess olli straumhvörfum í íslenskri ljóðagerð.  Jóhann varð ekki langs lífs auðið, en hann fæddist 12. September árið 1896 og lést 1. September árið 1932 stuttu fyrir þrítugasta og sjötta afmælisdag sinn. úr berklum.  Þessi bók hefur að geyma ljóð og laust mál Jóhanns, auk vandaðra ritgerða um manninn og verk hans eftir þá Gunnar Má Hauksson og Inga Boga Bogason

Sveinbjörn Egilsson: Ljóðmæli

Sveinbjörn Egilsson: Ljóðmæli

Sveinbjörn Egilsson

Sveinbjörn lagði alúð við ljóð sín eins og allt annað og þó safnið sé ekki stórt að vöxtum, rísa ljóð hans oft upp fyrir meðalmennskuna.

Vísur Vatnsenda-Rósu

Vísur Vatnsenda-Rósu

Rósa Guðmundsdóttir (Vatnsenda-Rósa)

Vísur Vatnsenda-Rósu hafa lifað lengi með þjóðinni og lifa enn góðu lífi, enda með hjartnæmustu ástarljóðum sem tungan hefur að geyma. Rósa hét með réttu Rósa Guðmundsdóttir og var fædd árið 1795, ein af fimm börnum foreldra sinna. Móður sína missti hún þegar hún var 12 ára gömul. Ekki mun Rósa hafa notið neinnar formlegrar skólagöngu í æsku, en á heimili foreldra hennar var ágætur bókakostur og hefur hún notið þess. Rósa mun á unglingsaldri eitthvað hafa verið í vist á amtmannssetrinu á Möðruvöllum. Þar var þá skrifari amtmanns, Páll Melsteð. Sagan segir að þau Páll hafi fellt hugi saman og að hinar kunnu ástarvísur Rósu séu afsprengi þeirrar ástar. Ekki verður neitt um það sagt hvort þetta sé rétt, en það hefur þá verið skammvinnt ástarsamband, því Páll kvæntist skömmu síðar dóttur amtmannsins. Sagan um ástir þeirra Páls hefur þó reynst furðu lífseig og víst er að Páll var svaramaður Rósu er hún giftist fyrri manni sínum, Ólafi Ásmundssyni. Þá var fyrsta barni þeirra Rósu og Ólafs gefið nafnið Pálína. Oft þarf ekki meira til að sögur fari á kreik, en stundum er líka fótur fyrir þeim. Rósa lést úr lungnabólgu 28. september árið 1855. Öllum heimildum ber saman um að Rósa hafi verið falleg og glæsileg kona. Þá mun hún hafa verið leiftrandi greind, hnyttin í tilsvörum og orðheppin með afbrigðum. Hún þótti nokkuð sérsinna og fór sínar eigin leiðir. Þá hefur hún verið gott skáld, eins og hinar kunnu ástarvísur bera með sér, en hefur áreiðanlega ekki órað fyrir að vísurnar ættu eftir að lifa jafn lengi og raun ber vitni. Það hvort hinar kunnu vísur hennar hafi verið ortar til Páls Melsteðs er engin leið að segja til um og hafa sumir jafnvel haldið því fram að hún hafi ekki ort þær allar. Verður sennilega aldrei úr því skorið, en fyrst sagan um þær hefur lifað allan þennan tíma má allt eins leyfa henni að lifa áfram.

Vogar

Vogar

Einar Benediktsson

Vogar var fjórða ljóðabók Einars Benediktssonar (1864-1940) og kom út árið 1921.

Þyrnar

Þyrnar

Þorsteinn Erlingsson

Þó svo að Þorsteinn hafi ort mikið frá unga aldri var það fyrst árið 1897 að ljóð hans voru birt á bók. Var það fyrir tilverknað Odds Björnssonar á Akureyri, en bókin fékk nafnið ,,Þyrnar”. Framan af voru ljóð Þorsteins hefðbundin í stíl og umgerð, og hann sótti yrkisefnin í sveitina og landið. Áhrif frá Steingrími Thorsteinssyni og Benedikt Gröndal leyndu sér ekki.  Í Kaupmannahöfn kynntist Þorsteinn sósíalisma sem hann tók fagnandi og afneitaði af sömu ákefð kristinni trú. Uppfrá því fór hann að sækja í önnur yrkisefni og ljóð hans urðu beinskeyttari og full af skoðunum á samfélaginu í kringum sig.

Skáldsögur á íslensku

Anna frá Stóruborg

Anna frá Stóruborg

Jón Trausti (Guðmundur Magnússon)

Sagan Anna frá Stóruborg eftir Jón Trausta eða Guðmund Magnússon eins og hann hét réttu nafni er söguleg skáldsaga og byggir eins og fleiri sögur Jóns Trausta á traustum heimildum í bland við  munnmælasögur.  Var hún hluti af sagnaflokki Jóns sem hann kallaði Góðir stofnar.  Sagan hefur allt frá því hún kom út notið gríðarlegra vinsælda hjá íslensku þjóðinni rétt eins og sögurnar um Höllu og heiðarbýlið.  Og eitt er víst að hún á jafn mikið erindi til okkar í dag eins og þegar hún kom fyrst út.   Anna sem sagan fjallar um var íslensk hefðarkona á 16. öld.  Þótti hún stórlát og mikil fyrir sér. Reisti hún bú á Stóru-Borg undir Eyjafjöllum. Sagt er að margir auðmenn hafi beðið hennar en hún hryggbrotið þá alla, því hún elskaði bara fátæka smalamanninn Hjalta.

Aprílsnjór

Aprílsnjór

Indriði G. Þorsteinsson

Fáir íslenskir höfundar hafa haft jafnmikið vald á smásagnaforminu og Indriði G. Þorsteinsson. Aprílsnjór er ein af hans áhugaverðustu sögum og þar koma fram hans bestu eiginleikar sem höfundar.

Arfleifð frumskógarins

Arfleifð frumskógarins

Sigurður Róbertsson

Arfleifð frumskógarins eftir Sigurð Róbertsson sem kom  fyrst út árið 1972 hlaut góðar viðtökur og þótti þá ágætt innlegg í þann tíma, en í kynningartexta sem fylgdi bókinni má finna eftirfarandi lýsingu:  ,,Arfleifð frumskógarins fjallar um nútímamanninn í umróti tuttugustu aldar og viðleitni hans til að fylgjast með hamskiptum tímans.“ Sigurður var kunnur rithöfundur á sínum tíma og hlaut ýmsar viðurkenningar á löngum ritferli, ekki síst fyrir leikrit sín, en af þekktum leikritum hans má nefna Uppskera óttans (1955) og Mold (1966). Arfleifð frumskógarins var fimmta skáldsaga Sigurðar en áður höfðu komið út sögurnar, Augu mannanna (1946), Vegur allra vega (1949), Bóndinn í Bráðagerði (1954) og Gróðavegurinn (1956).  Sigurður lést árið 1996.

Ást og auður

Ást og auður

Jóhann Gunnar Sigurðsson

Ást og auður er stutt örlagasaga í 11 köflum, oft átakanleg. Segir þar frá stúlkunni Sigríði, bóndanum Gísla sem ann henni hugástum og kaupmanninum Þórarni sem giftist henni. Sagan minnir stundum á Kærleiksheimilið eftir Gest Pálsson. Hún telst þó ekki til raunsæis heldur nýrómantíkur, en skilin eru ekki mjög skörp. Það sem kannski helst gerir söguna jafn góða og skemmtilega aflestrar og raun ber vitni er einlægnin og ákefðin sem býr að baki. Það er eins og maður finni samkennd höfundar með sögupersónunum og það að hér er skrifað af sárri reynslu, þess sem átt hefur en misst. Þá er ljóðrænn textinn seiðandi og myndmálið oft á tíðum forvitnilegt.

Bernskuheimili mitt

Bernskuheimili mitt

Ólöf Sigurðardóttir

Ólöf frá Hlöðum var ein af fáum kvenskáldum sem gátu sér orðs á 19. öld. Ljóðakver kom fyrst út eftir hana árið 1888 og var það með fyrri ljóðabókum sem út komu eftir konu á Íslandi. Ólöf orti undir áhrifum frá raunsæisstefnunni og bera ljóð hennar skýran vott sjálfstæðrar hugsunar; konu sem lét engan kúga sig til hlýðni, og verður það að teljast nokkuð óvenjulegt á þeim tíma. Þegar Bernskuheimili mitt kom fyrst út vakti frásögnin töluverða hneykslan, enda nokkuð berorðar lýsingar. Það má þó öllum vera ljóst sem hlusta á eða lesa þessa frásögn að Ólöf er einungisað segja satt og rétt frá. Góð heimild um heimilishald til sveita á nítjándu öld.

Borgir

Borgir

Jón Trausti (Guðmundur Magnússon)

Sagan Borgir eftir Jón Trausta var eins og sagan Leysing skrifuð árið 1907 en hún endurspeglar vel þær breytingar sem íslenskt samfélag gekk í gegnum á þeim árum. Ólíkt t. a. m. sögunni um Höllu sem hann skrifaði árinu áður er sjónarhornið í Borgum tengt sjónum og þeim uppgangi sem á sér stað í sjávarútvegnum. Vilja þeir sem gerst til þekkja meina að sögusviðið í Borgum sé Seyðisfjörður og nágrenni, en Guðmundur bjó um tíma á Austfjörðum, starfaði m. a. eitt og hálft ár við sjómennsku í Mjóafirði áður en hann hóf að nema prentiðn undir handarjaðri Skafta Jósefssonar ritstjóra Austra á Seyðisfirði. Þrátt fyrir að sagan Borgir sé kannski ekki eins kunn og sögur á borð við Höllu og Önnu frá Stóruborg, gefur hún þeim ekkert eftir og er nauðsynleg lesning fyrir alla áhugamenn um íslenskar bókmenntir.

Brasilíufararnir

Brasilíufararnir

Jóhann Magnús Bjarnason

Sagan Brasilíufararnir naut geysilegra vinsælda er hún kom út. Þótt um sé að ræða spennu- og ástarsögu sem segir frá ævintýrum Íslendinga á framandi slóðum hefur hún vissa skírskotun til nútímans, en hópur fólks fluttist í raun búferlum til Brasilíu á seinni hluta nítjándu aldar í von um betra líf þegar illa áraði á Íslandi.

Brynjólfur biskup Sveinsson

Brynjólfur biskup Sveinsson

Torfhildur Hólm

Sagan Brynjólfur biskup Sveinsson kom fyrst út árið 1882 og vakti þá verulega athygli. Höfundur sögunnar, Torfhildur Hólm var stórmerk kona sem ruddi brautina fyrir kynsystur sínar, því ekki einasta var hún fyrst íslenskra kvenna til að gefa út skáldsögu, heldur var hún fyrsta konan sem hafði atvinnu af ritstörfum almennt. Sagan af Brynjólfi var fyrsta bókin hennar. Í sögunni fylgir Torfhildur æfi Brynjólfs af trúmennsku en skáldar í eyðurnar eins og tíðkast í dag. Brynjólfur var biskup frá 1639 og til 1674. Var hann kunnur fyrir gáfur og fræðistörf. Hann lærði við Kaupmannahafnarháskóla 1624-1629 og varð konrektor við Hróarskelduháskóla 1632-1638. Var ævi hans viðburðarík og full af átökum sem Torfhildur gerir góð skil í þessari frábæru sögu.

Einir

Einir

Guðmundur Friðjónsson

Guðmundur Friðjónsson (1869-1944) fæddist á Sílalæk í Aðaldal. Um þrítugsaldur hóf hann búskap á Sandi í Aðaldal og bjó þar síðan til dauðadags. Hann var að mestu sjálfmenntaður, alþýðuskáld sem margir vilja meina að hafi verið með betri skáldum síns samtíma. Fyrsta smásagnasafn Guðmundar, Einir, kom út árið 1898.

Eiríkur Hansson 1 - Bernskan

Eiríkur Hansson 1 - Bernskan

Jóhann Magnús Bjarnason

Jóhann Magnús Bjarnason skrifaði söguna Eirík Hansson á árunum 1893-1897, en fyrsti hluti hennar var gefinn út á Íslandi af Oddi Björnssyni árið 1899. Hlaut sagan góðar viðtökur bæði meðal Íslendinga í Vesturheimi og á Íslandi. Sagan hefst á Íslandi og rekur sögu drengsins Eiríks Hanssonar sem flyst sjö ára gamall til Vesturheims ásamt ömmu sinni og afa. Þar tekur við hörð lífsbarátta í nýju landi. Frábær saga sem gefur okkur innsýn inn í landnám Íslendinga í Vesturheimi á síðari hluta 19. aldar.

Eiríkur Hansson 2 - Baráttan

Eiríkur Hansson 2 - Baráttan

Jóhann Magnús Bjarnason

Baráttan er annar hluti sögunnar um Eirík Hansson eftir Vestur-íslenska rithöfundinn Jóhann Magnús Bjarnason. Skrifaði hann söguna á árunum 1893-1897, en Oddur Björnsson hóf útgáfu hennar á Íslandi árið 1899. Í þessum öðrum hluta fylgjumst við áfram með söguhetju okkar Eiríki Hanssyni og baráttu hans við að fóta sig í nýju landi. Er hér á ferðinni skemmtileg saga sem allir unnendur góðra bóka, hvort heldur er börn eða fullorðnir geta haft bæði gagn og gaman af að heyra.

Eiríkur Hansson 3 - Þráin

Eiríkur Hansson 3 - Þráin

Jóhann Magnús Bjarnason

Þráin nefnist þriðji og síðasti hluti sögunnar um Eirík Hansson eftir Jóhann Magnús Bjarnason. Hún tekur upp þráðinn þar sem öðrum hlutanum lýkur og við fylgjumst með Eiríki þar sem hann er að halda inn í heim fullorðinna. Margir hafa bent á að sagan sé að mörgu leyti ævisaga höfundar, alla vega notast hann við mjög margt úr eigin ævi. Sagan er einlæg og falleg og persónulegur stíll Jóhanns Magnúsar er eins og sniðinn að sögu sem þessari. Þá má líka segja að sagan hafi töluvert heimildagildi um það hvernig var fyrir Íslendinga að hefja líf í Vesturheimi á síðari hluta 19. aldar.

Grasaferð

Grasaferð

Jónas Hallgrímsson

Sagan Grasaferð kom út í síðasta árgangi Fjölnis árið 1847 tveimur árum eftir lát Jónasar. Er sagan á margan hátt tímamótaverk, en margir telja hana marka upphaf íslenskrar sagnagerðar á síðari tímum og að hún sé fyrsta listræna smásagan í íslenskum nútímabókmenntum. Jónas mun hafa skrifað hana nokkru fyrr og hafa menn nefnt árin 1835 og 1836. Nokkur áhöld eru um það hvort sagan eins og við þekkjum hana sé eins og Jónas hafi hugsað sér hana fullkláraða. Er margt sem bendir til þess að hann hafi ætlað sér að eiga meira við hana. Hvernig og með hvaða hætti er ómögulegt að geta sér til um. Til marks um þetta er í fyrsta lagi sú staðreynd að Jónas hafði ekki skráð neitt nafn á söguna og þá endar hún nokkuð óvænt eins og Jónas hafi hætt í miðju kafi. Þrátt fyrir að sagan sé á yfirborðinu einföld í sniðum, er margt í henni sem krefst nánari skoðunar. Vilja margir trúa því að sagan sé táknræn og að lykill hennar sé einhvers konar ,,leit''. Er þá átt við leit drengsins (Jónasar?) að öryggi, karlmennsku, framtíð o.s.frv. Þá má líka lesa úr sögunni ákveðinn ótta við framtíðina og það að fullorðnast. Drengurinn sækir í að leiða "systur" sína eins og hann hafði gert er hann var yngri. Einnig má velta vöngum yfir manninum sem birtist allt í fjallinu fyrir ofan þau og grjóthruninu í fjallinu. Margir vilja líka dvelja við þá hugsun að fjallið sjálft sé táknmynd.

Gull

Gull

Einar Hjörleifsson Kvaran

Sagan Gull eftir Einar Hjörleifsson Kvaran sem er beint framhald af hinni vinsælu sögu Ofurefli sem kom út árið 1908 og er nú þegar að finna hér á vefnum. Liðu þrjú ár frá útkomu Ofurefli áður en Gull kom út (1911). Hlaut sagan ágætar viðtökur, enda mörgum farið að lengja eftir framhaldinu. Sögurnar sem endurspegla samtíma sinn á skemmtilegan hátt eru taldar vera fyrstu Reykjavíkurskáldsögurnar. Stórskemmtilegar sögur eftir þennan mikla stílsnilling.

Guðmundur Guðmundsson: Valin ljóð

Guðmundur Guðmundsson: Valin ljóð

Guðmundur Guðmundsson

Það hefur oft verið sagt um Guðmund Guðmundsson að hann hafi verið „lognsins skáld“, en það eru vægast mikil ósannindi, því fá skáld eru í raun tilfinningaþrungnari og háleitari en hann. Einnig virðist vera að hann hafi hreinlega ekki verið tekinn nægilega alvarlega sem skáld, einkum eftir að hann lést. Menn viðurkenna jú að hann hafi búið yfir ótrúlegri bragsnilld og rímtækni, en láta líka þar við sitja. Hverju sem um er að kenna þá virðist Guðmundur einhvern veginn hafa týnst í skáldaflórunni eftir að hann dó og er það synd um jafn hæfileikaríkt skáld.

Hafblik

Hafblik

Einar Benediktsson

Hafblik kom út árið 1906 og var önnur frumsamda ljóðabók Einars. Áður hafði komið út eftir hann Sögur og kvæði árið 1897 og þýðing Einars á leikriti Henrik Ibsens Pétri Gaut árið 1901. Vilja margir meina að Hafblik sé ein af betri bókum Einars. Í bókinni er að finna frumsamin ljóð auk margra öndvegisþýðinga. Var bókin rökrétt framhald af fyrstu bók Einars; tónninn persónulegur og nýstárlegur og krefur lesandann um óskipta athygli. Þrátt fyrir að umfjöllunarefni ljóðanna séu á sömu nótum og í fyrri bókinni eru ljóðin á margan hátt þroskaðri og hugsunin skýrari.

Halla

Halla

Jón Trausti (Guðmundur Magnússon)

Halla eftir Jón Trausta, sem hét með réttu Guðmundur Magnússon er fyrsta bókin í ritröðinni um fólkið í Heiðarbýlinu, en þær bækur allar nutu gríðarlegra vinsælda þegar þær komu út og hafa gert alla tíð síðan. Það má reyndar með nokkrum sanni segja að Halla sé fyrsta metsölubókin á Íslandi.  Ástæðuna fyrir því að Guðmundur Magnússon skrifaði undir dulnefni má rekja til þess að ljóð sem hann hafði látið frá sér fara hlutu litla náð hjá þeim sem skrifuðu um bókmenntir.  En þegar sagan Halla kom út árið 1906 vissi enginn hver höfundurinn var. Í kjölfarið skrifaði hann fjórar bækur undir yfirheitinu Heiðarbýlið og margar fleiri sögur.  Jón Trausti lést fyrir aldur fram árið 1918 úr spænsku veikinni og er með ólíkindum hvað honum tókst að skrifa mikið á ekki lengri tíma.  Sögur Jóns Trausta eru sprottnar úr íslenskum raunveruleika og fundu strax samhljóm í hjörtum landsmanna.   Þær eru sannferðugar örlagasögur sem Íslendingar lifðu frá degi til dags.

Hallgrímur Pétursson: Valin ljóð

Hallgrímur Pétursson: Valin ljóð

Hallgrímur Pétursson

Hallgrímur Pétursson fæddist árið 1614. Árið 1651 gerðist hann prestur í Saurbæ og þar mun hann sennilega hafa tekið til við að yrkja Passíusálmana sem alltaf munu halda nafni hans á lofti. Áður hafði hann ort töluvert af lausavísum, rímum og veraldlegum kvæðum, en með aldrinum hneigðist hann meira til alvarlegri trúarkveðskapar.

Heiðarbýlið I - Barnið

Heiðarbýlið I - Barnið

Jón Trausti (Guðmundur Magnússon)

Barnið eftir Jón Trausta er sjálfstætt framhald sögunnar Höllu og fyrsta bókin í ritröðinni Heiðarbýlið sem samanstendur af fjórum bókum.  Hefst hún þar sem sögunni Höllu sleppir.  Sögurnar nutu gríðarlegra vinsælda á sínum tíma, en segja má að með þessum sögum sínum hafi Jón Trausti haslað sér völl sem fyrsti metsöluhöfundur Íslands.  Sögurnar rekja líf og örlög fólks við erfiðar aðstæður í sveit, en þann veruleika þekkti höfundur vel. Skapar hann í sögunum ógleymanlegar persónur og samfélag og lýsingar hans á náttúrunni og umhverfinu á heiðinni eru hreint út sagt stórkostlegar.   Til marks um það hvað Jón Trausti átti stóran sess í hjörtum sinnar samtíðar má t. a. m. vitna í orð Halldórs Kiljans Laxness úr bókinni Í túninu heima. Þar segir:  „Jón Trausti, Guðmundur Magnússon frá Hrauntanga í Öxarfjarðarheiði, stendur mér fyrir hugskotssjónum sem einn mestur undramaður að verið hafi í íslenskri sagnasmíð fyrr og síðar.  Allir vetur mínir heima eru tengdir minningunni um nafn þessa manns og verka hans."

Heiðarbýlið II - Grenjaskyttan

Heiðarbýlið II - Grenjaskyttan

Jón Trausti (Guðmundur Magnússon)

Grenjaskyttan er önnur bókin í ritröðinni um fólkið á Heiðarbýlinu eftir Jón Trausta eða Guðmund Magnússon eins og hann hét með réttu; sú þriðja ef Halla er talin með.  Í bókinni höldum við áfram að fylgjast með örlögum þessa ágæta fólks á Heiðarbýlinu.  Sögurnar sem urðu mjög vinsælar byggja á margan hátt á reynslu Guðmundar sjálfs sem fyrstu árin ólst upp á heiðarbýlinu Hrauntanga í Öxarfjarðarsýslu.  Þá fæddist hann á bænum Rifi á Melrakkasléttu sem var nyrsti bærinn á Íslandi.  Þekking höfundar á aðstæðum á áreiðanlega mikinn þátt í því hve sögurnar eru trúverðugar og einfaldur stíll hans á vel við fábrotið lífið á norðurhjara veraldar þar sem fólk þarf að leggja allt í sölurnar bara til að komast af.

Heiðarbýlið III - Fylgsnið

Heiðarbýlið III - Fylgsnið

Jón Trausti (Guðmundur Magnússon)

Fylgsnið er þriðja bókin í ritröðinni um fólkið á Heiðarbýlinu eftir Jón Trausta eða Guðmund Magnússon eins og hann hét með réttu; sú fjórða ef Halla er talin með.  Kom hún út árið 1910.  Með sögunum öðlaðist Guðmundur viðurkenningu sem mesti rithöfundur landsins.  Fram að því höfðu íslenskir rithöfundar ekki mikið lagt sig eftir að skrifa skáldsögur.  Var það helst Jón Thoroddsen, Torfhildur Hólm og Jónas frá Hrafnagili.  En nú var allur byrjendabragur af íslensku skáldsögunni og því má segja að Guðmundur Magnússon hafi brotið blað í íslenskri skáldsagnagerð með útkomu bókarinnar Höllu og næstu bóka.

Heiðarbýlið IV - Þorradægur

Heiðarbýlið IV - Þorradægur

Jón Trausti (Guðmundur Magnússon)

Þorradægur er fjórða bókin í ritröðinni um fólkið á Heiðarbýlinu eftir Jón Trausta eða Guðmund Magnússon eins og hann hét með réttu; sú fimmta ef Halla er talin með.  Rekur hún endahnútinn á söguna um fólkið á heiðinni. Kom hún út árið 1911.  Þegar sagan Halla kom út árið 1906 vissi enginn hver höfundurinn var og áttu kannski síst von á það væri Guðmundur Magnússon.  Hann naut gríðarlegra vinsælda allt þar til hann lést fyrir aldur fram árið 1918 úr spænsku veikinni.  Sögur Jóns Trausta eru sprottnar úr íslenskum raunveruleika og fundu strax samhljóm í hjörtum landsmanna.   Þær eru sannferðugar örlagasögur sem Íslendingar lifðu frá degi til dags.

Hjálmar Jónsson frá Bólu: Valin ljóð

Hjálmar Jónsson frá Bólu: Valin ljóð

Hjálmar Jónsson frá Bólu

Hjálmar byrjaði ungur að setja saman vísur og hélt þeirri iðju sinni ódeigur fram að því síðasta. Honum veittist létt að yrkja og liggur eftir hann mikið af lausavísum og ljóðum.

Hofstaðabræður

Hofstaðabræður

Jónas Jónasson frá Hrafnagili

Sagan Hofstaðabræður er áhugaverð dramatísk saga í 10 köflum sem gerist á þeim tímum þegar kaþólskan er að víkja fyrir Lútherstrú. Segja má að umgjörð sögunnar séu átökin milli þeirra Jóns Arasonar biskups og sona hans og Daða Guðmundssonar í Snóksdal. Þá er gaman að geta þess að Jón Arason var um tíma prestur á Hrafnagili.

Hólmgönguljóð

Hólmgönguljóð

Matthías Johannessen

Hólmgönguljóð nefnist önnur ljóðabók Matthíasar og kom hún út árið 1960. Eru ljóðin mjög persónuleg og höfundur sækir sér efnivið í myndir og líkingar víða að til að gefa reynsluheimi sínum dýpri merkingu.

Hrannir

Hrannir

Einar Benediktsson

Hrannir var þriðja ljóðabók Einars Benediktssonar og kom út árið 1913, en þá voru liðin sjö ár frá útkomu bókarinnar Hafbliks (1906). Eins og fyrr er það Ísland; landið, tungan og arfurinn sem er hreyfiaflið í flestum ljóðanna. En bókin sýndi líka nýja hlið á skáldinu Einari Benediktssyni, því hún hafði að geyma sléttubanda rímu upp á nærri 160 erindi sem var Ólafs ríma Grænlendings. Þótti mörgum það skjóta skökku við og ekki samræmast því sem hann hafði gert áður. Einar gerði sér vel grein fyrir því að ríman væri ákveðið stílbrot og því ritaði hann formála að bókinni þar sem hann bæði réttlætir og skýrir tilkomu rímunnar. Í formálanum hvatti hann menn að blygðast sín ekki fyrir rímnakveðskapinn og lausavísur, því mikil list sé að þeim kveðskap, ef rétt sé að farið. Gerir hann mikið úr gildi slíks kveðskapar ekki síst fyrir það hvílíka fádæma þýðingu rímurnar hafi haft fyrir skilning þjóðarinnar á málinu og fyrir varðveiting málsins sjálfs.

Í kompaníi við allífið

Í kompaníi við allífið

Matthías Johannessen

Þessi frábæra viðtalsbók Matthíasar Johannessen við Þórberg Þórðarson er engri lík og að margra sögn besta viðtalsbók sem gefin hefur verið út á Íslandi. Hér gefst mönnum tækifæri til þess að kynnast skáldinu Þórbergi eins og hann var. Bókin kom fyrst út í tilefni af sjötugsafmæli Þórbergs árið 1959.

Jón biskup Arason

Jón biskup Arason

Torfhildur Hólm

Kreppuráðstafanir

Kreppuráðstafanir

Sigurður Róbertsson

Smásagan Kreppuráðstafanir eftir Sigurð Róbertsson leiftrar af kímni. Hér segir frá skrifstofumanninum Halldóri Hansen, sem er undirtylla allra, en þráir að segja öðrum fyrir verkum. Þegar hann heyrir að nú muni kreppa að í samfélaginu, vegna stríðs og annarra erfiðleika, ákveður hann að láta til sín taka svo um munar. Ekki dugi að fljóta sofandi að feigðarósi - nú skuli spara. Ráðstafanir hans reynast þó ekki sem gæfulegastar.

Kærleiksheimilið

Kærleiksheimilið

Gestur Pálsson

Gestur Pálsson var einn af Verðandi-mönnum en þeir boðuðu raunsæið með tímariti sínu fyrstir allra á Íslandi. Sögur Gests hafa löngum þótt bera af öðrum samtímasögum og er Kærleiksheimilið af mörgum talin vera hans besta saga.

Leiðin til skáldskapar

Leiðin til skáldskapar

Sigurjón Björnsson

Leiðin til skáldskapar eftir Sigurjón Björnsson kom fyrst út í ritröðinni Smábækur Menningarsjóðs árið 1964. Var hún 15 bókin í þeirri ritröð. Undirtitill bókarinnar er: Hugleiðingar um upptök og þróun skáldhneigðar Gunnars Gunnarssonar. Sem sálfræðingur kafar Sigurjón djúpt í bækur hans til að leita að höfundinum Gunnari og finna út hvað það er sem knýr hann áfram. Grunnviðfangsefnið er sagan Fjallkirkjansem að öðrum verkum ólöstuðum verður að teljast mesta höfundarverk Gunnars. Sigurjóni verður vel ágengt í rannsóknum sínum og má jafnvel segja að þessi bók sé skyldulesning allra þeirra sem vilja skilja Gunnar Gunnarsson og verk hans, enda skrifar Sigurjón á einum stað: ,,Fjallkirkjan er betri kennslubók í sálarfræði en margar bækur, sem gefnar eru út undir því heiti.''

Leysing

Leysing

Jón Trausti (Guðmundur Magnússon)

Þó svo að sagan Leysing eftir Jón Trausta (Guðmund Magnússon) sé fæstum kunn þessa dagana, er hún af sumum talin tímamótaverk í íslenskri bókmenntasögu. Sagan, sem skrifuð var haustið 1907 og fylgdi í kjölfar sögunnar Höllu frá árinu áður, lýsir af óvenjumiklum þrótti og skilningi þeim breytingum á sviði þjóðlífsins sem áttu sér stað á Íslandi á þessum árum. Dr. Stefán Einarsson hélt því fram í ritgerð um höfundinn að í Leysingu sé í fyrsta sinn í íslenskri skáldsögu lýst þjóðfélagslegri hreyfingu, baráttu gamalla og nýrra verslunarhátta.

Mannamunur

Mannamunur

Jón Mýrdal

Skáldsagan Mannamunur eftir Jón Mýrdal kom fyrst út árið 1872 og hefur lifað með þjóðinni síðan þá. Þrátt fyrir að vera barn síns tíma býr hún yfir ákveðnum tærleika sem gerir það að verkum að ólíkar kynslóðir finna sig í henni. Höfundurinn Jón Mýrdal fæddist árið 1825 og lést árið 1899. Var hann smiður að mennt og starfaði við það allt sitt líf. Skrif hans spruttu af innri þörf, sem sjá má af því hvað honum tókst að skila af sér miklu ritverki meðfram annarri vinnu. Notaði hann flestar tómstundir til að skrifa og haft hefur verið eftir manni honum kunnugum að hann hafi farið á fætur vel á undan öðrum að geta skrifað og sat þá jafnvel við hefilbekkinn. Geri aðrir betur en það.

Maður og kona

Maður og kona

Jón Thoroddsen

Sagan Maður og kona eftir Jón Thoroddsen kom fyrst út árið 1876, átta árum eftir lát Jóns og tuttugu og sex árum eftir útkomu fyrstu íslensku skáldsögunnar, Pilts og stúlku.  Sagan er á margan hátt svipuð og Piltur og stúlka, en þó má merkja að sá sem stýrir pennanum býr yfir meiri þroska.  Þrátt fyrir að Jón hafi ekki haft margar íslenskar fyrirmyndir til að byggja sögur sínar á, tókst honum ágætlega upp í þessum sögum.  Hann nær að draga upp skýra mynd af bændasamfélagi sinnar samtíðar, en það hefur helst verið fundið að því hvað aðalpersónurnar í sögunum séu daufar og skorti líf.  Hann bætir það þó upp með ýmsum aukapersónum.  Jóni tókst ekki að ljúka við Mann og konu en sagan stendur þó ágætlega fyrir sínu og er skyldulesning fyrir alla sem unna íslenskum bókmenntum.

Morgunn lífsins

Morgunn lífsins

Kristmann Guðmundsson

Nafn Kristmanns Guðmundssonar (1901-1983) var ,,á hvers manns vörum'' í Noregi í kringum 1930 þar sem fyrstu skáldsögur hans birtust. Þær voru þýddar á yfir þrjátíu tungumál á 4. áratug síðustu aldar og víða gefnar út aftur og aftur. En á Íslandi mætti höfundurinn snemma miklum andbyr. Nú gefst nýrri kynslóð tækifæri til að lesa eitt af bestu verkum Kristmanns Guðmundssonar, Morgun lífsins, sem á sér stað við hafnlausa strönd í sunnlensku samfélagi á seinni hluta 19. aldar. Á yfirborði virðist mannlífið kyrrstætt og staðnað en undiraldan er ógnvænleg. Frásagnargleði og innsæi Kristmanns í mannlegan vanmátt og breyskleika hrífur lesandann með sér inn í straum örlaga og ásta - en hatrið, ,,hin þyngsta byrði lífsins'', bíður álengdar glottandi.

Ofurefli

Ofurefli

Einar Hjörleifsson Kvaran

Ofurefli er merkileg saga fyrir margra hluta sakir. Hún er t. a. m. fyrsta skáldsagan þar sem sögusviðið er Reykjavík og hún er jafnframt fyrsta heila skáldsagan sem Einar skrifaði. Kom hún út árið 1908. Hlaut sagan mjög góðar viðtökur og dóma og vildu margir meina að um tímamótaverk væri að ræða í íslenskri skáldsagnagerð. Sagan er skrifuð undir formerki raunsæisins og tekur á mörgum þeim málum sem voru ofarlega á baugi í samtímanum. Stíll Einars er þótti nokkuð sérstakur en Guðmundur G. Hagalín sagði eitt sinn að enginn Íslendingur hefði náð Einari í þeirri list að samræma efni, stíl og mál. Þremur árum eftir útkomu Ofurefli kom framhald hennar út og hét sú bók Gull.

Ólöf í Ási

Ólöf í Ási

Guðmundur Friðjónsson

Guðmundur Friðjónsson (1869-1944) fæddist á Sílalæk í Aðaldal. Um þrítugsaldur hóf hann búskap á Sandi í Aðaldal og bjó þar síðan til dauðadags. Hann var að mestu sjálfmenntaður, alþýðuskáld sem margir vilja meina að hafi verið með betri skáldum síns samtíma. Guðmundur tók snemma að láta til sín heyra. Fyrsta kvæði hans birtist þegar hann var rösklega tvítugur. Fyrsta smásagnasafnið, Einir, kom út árið 1898, fyrsta kvæðabókin fjórum árum síðar og skáldsagan Ólöf í Ási árið 1907. Næstu áratugina fékkst hann mest við ritun smásagna og dýrasagna, auk fjölda greina og fyrirlestra. Allt var þetta unnið í hjáverkum með erfiðum búskap. Sjónhringur Guðmundar var ekki víður en hann lýsti næsta nágrenni ágætlega. Sjálfur gerði hann þessa grein fyrir hlutverki sinu meðal samtímahöfundanna: ,,Gestur Pálsson tók sér fyrir hendur að lýsa í sögum hræsninni, Einar H. Kvaran hefur á efra aldri lýst spíritismanum, ég tók mér Íslendingseðlið.'' Stíll Guðmundar er þróttmikill og orðaval fjölbreytt og sérkennilegt. Lýsingar hans á sveitafólki, og þá einkum eldri kynslóðinni, eru frábærar enda sagði fræðimaður einn að sögur hans ,,mættu heita Íslendingasögur hinar nýju.'' Margar lýsa þær alvöru lífsbaráttunnar andspænis harðneskjulegum náttúruöflum. Aðrar segja frá samskiptum ólíkra manngerða. Ósjaldan teflir Guðmundur fram mönnum gamla og nýja tímans, skólagengnum flysjungum og flautaþyrlum annars vegar en hins vegar gömlum og grónum bændum með reynslu kynslóðanna á herðum sér.

Piltur og stúlka

Piltur og stúlka

Jón Thoroddsen

Piltur og stúlka eftir Jón Thoroddsen kom út árið 1850 og telst vera fyrsta íslenska skáldsagan sem gefin var út á Íslandi. Setti sagan tóninn fyrir þá höfunda sem á eftir komu. Sagan hefur löngum verið talin falla undir mælistiku raunsæis, enda lýsir hún íslenskum samtíma nokkuð vel og trúverðuglega, en ef litið er á byggingu sögunnar, persónusköpun og fléttu verður annað upp á teningnum. En hvað sem öllum flokkunum líður er sagan mikilvæg í sögulegu tilliti og þá er ekki verra að hún líka bráðskemmtileg aflestrar.

Sagan af Heljarslóðarorrustu

Sagan af Heljarslóðarorrustu

Benedikt Gröndal Sveinbjörnsson

Sagan af Heljarslóðarorrustu eftir Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal kom fyrst út árið 1861 og er með kunnustu verkum hans. Er þetta gamansaga, þar sem meginsögusviðið er rammað inn af orrustunni við Solferino sem háð var árið 1859, en þar tókust á annars vegar sameinaður her Frakka undir stjórn Napóleons III. og  her Sardiníu undir stjórn Viktors Emmanúels II. og hins vegar her Austurríkismanna undir stjórn keisarans Franz Jósefs I.  Mun það hafa verið síðasta  orrustan í veraldarsögunni þar sem þjóðhöfðingjar fóru sjálfir fyrir herjum sínum.  Inn í atburðarásina spinnast svo fleiri samtímaatburðir, erlendir og innlendir.  Sagan er skrifuð í stíl fornaldarsagna sem Benedikt gerir af stakri snilld og úr verður listileg frásögn sem kitlar hláturtaugarnar og spyr áleitinna spurninga um stríð og stjórnmál í leiðinni.  Stórbrotið bókmenntaverk sem á erindi við alla tíma.)

Sandárbókin

Sandárbókin

Gyrðir Elíasson

Fráskilinn málari sest að í hjólhýsabyggð og hyggst einbeita sér að því að mála tré. Hann hefur orðið fyrir ýmsum skakkaföllum í lífinu og dvöl hans í þessari sérkennilegu byggð er öðrum þræði hugsuð til að freista þess að öðlast hugarró. Ýmislegt reynist þó standa í veginum. Gyrðir Elíasson er einn listfengnasti rithöfundur þjóðarinnar og fáir ná betur þeirri dýpt að láta tilfinningar og kenndir krauma undir yfirborði orðanna. Höfundur les.

Sögur 1

Sögur 1

Gestur Pálsson

Þetta annað smásagnasafn Matthíasar Johannessen hefur að geyma þrjátíu sögur sem flestar komu fyrst út árið 1986. Sögurnar í þessu bindi eru á vissan hátt þroskaðri en sögurnar í fyrsta bindinu og mun áleitnari, jafnvel persónulegri. Það er eins og höfundurinn sé meðvitaðri um hvað hann vill segja í sögunum og öruggari í forminu. Í sögunum veltir Matthías fyrir sér fólki og viðbrögðum þess við umhverfinu og þar af leiðandi verða sögurnar óháðari tímanum en margar aðrar sögur því mannfólkið er jú alltaf samt við sig.

Sögur frá Skaftáreldi I: Holt og skál

Sögur frá Skaftáreldi I: Holt og skál

Jón Trausti (Guðmundur Magnússon)

Sögur frá Skaftáreldi I–II komu út á árunum 1912 -1913. Voru það fyrstu sögulegu skáldsögur Jóns Trausta (Guðmundar Magnússonar), en þar notar hann Skaftárelda sem umhverfi fyrir dramatíska atburðarás. Fyrri hlutinn ber heitið Holt og skál, en sá seinni Sigur lífsins. Um söguna skrifaði Steingrímur Matthíasson í blaðið Norðurland: ,,Þessi bók Jóns Trausta hafði sömu þægilegu áhrifin á mig eins og allar hans fyrri sögur, að ég las hana með ánægju frá upphafi til endis." Og satt að segja þekki ég ekki neinn ákjósanlegri kost neinnar sögubókar en þann, að efnið sé svo fjölskrúðugt og aðlaðandi, að maður geti flett hverri blaðsíðunni og lesið hvern kaflann á fætur öðrum með stöðugri forvitni og vaxandi fróðleiksfýsn." Þessi orð Steingríms segja allt sem segja þarf því þetta er frábært bókmenntaverk sem því miður hefur farið framhjá alltof mörgum.

Sögur frá Skaftáreldi II: Sigur lífsins

Sögur frá Skaftáreldi II: Sigur lífsins

Jón Trausti (Guðmundur Magnússon)

Sigur lífsins nefnist seinni hluti sagnabálksins Sögur frá Skaftáreldi I-II, og heldur áfram þar sem fyrri hlutanum Holt og skál sleppti.  Komu sögurnar fyrst út á árunum 1912-1913 og voru fyrstu sögulegu skáldsögur Jóns Trausta.  Um söguna skrifaði Steingrímur Matthíasson í blaðið Norðurland: ,,Þessi bók Jóns Trausta hafði sömu þægilegu áhrifin á mig eins og allar hans fyrri sögur, að ég las hana með ánægju frá upphafi til endis." Og satt að segja þekki ég ekki neinn ákjósanlegri kost neinnar sögubókar en þann, að efnið sé svo fjölskrúðugt og aðlaðandi, að maður geti flett hverri blaðsíðunni og lesið hvern kaflann á fætur öðrum með stöðugri forvitni og vaxandi fróðleiksfýsn." Þessi orð Steingríms segja allt sem segja þarf því þetta er frábært bókmenntaverk sem því miður hefur farið framhjá alltof mörgum.

Söngva-Borga

Söngva-Borga

Jón Trausti (Guðmundur Magnússon)

Sagan Söngva-Borga er ein af þremur sögulegu skáldsögum Jóns Trausta (Guðmundar Magnússonar) þar sem hann sækir efniviðinn í sömu íslensku ættina. Hinar sögurnar eru Veislan á Grund og Hækkandi stjarna. Sögurnar eru þó allar sjálfstæðar og gerast á mismunandi tímum.  Er Söngva-Borga styst af þessum sögum en þó engu síðri en hinar. Jón Trausti (Guðmundur Magnússon) hóf ritferil sinn á kveðskap og hér nýtir hann þá gáfu sína vel og skreytir söguna með ljóðum. Já, hér enn ein fjöðurin í hatt þessa íslenska skáldarisa.

Sýður á keipum

Sýður á keipum

Jón Trausti (Guðmundur Magnússon)

Sagan Sýður á keipum eftir Jón Trausta eða Guðmund Magnússon eins og hann hét með réttu, kom fyrst út árið 1916 og var þá spyrt saman við söguna Krossinn helgi í Kaldaðarnesi. Eins og með flestar sögur Jóns Trausta var sögunni tekið vel af almenningi, en dómar um hana voru nokkuð misjafnir, allt frá því að vera með því besta sem hann hafði látið frá sér fara, til þess versta. Sýnir það hve oft er erfitt að henda reiður á dómum gagnrýnenda. Sagan gerist á verstöðinni við Dritvík á Snæfellsnesi og gefur okkur skemmtilega innsýn í lífið á slíkum stöðum, en það var löngum einn helsti styrkur höfundar að draga upp myndir af lokuðum heimum, lokuðum samfélögum, jafnhliða því að segja góða sögu. Nægir að nefna sögurnar af Höllu og heiðarbýlinu því til staðfestingar.

Upp við fossa

Upp við fossa

Þorgils gjallandi (Jón Stefánsson)

Sagan Upp við fossa eftir Þorgils gjallandi kom út árið 1902 og voru þá tíu ár liðin frá því að fyrsta bók hans, Ofan úr sveitum, kom út. Í henni má merkja áhrif frá norrænum raunsæisrithöfundum og natúralistum og Þorgils ræðst af offorsi gegn lífslyginni í samfélaginu og ríkjandi gildum. Þá er hann berorðari en áður og gerir sér allt far um að hneyksla, bæði með hispurslausum lýsingum og skoðunum. Viðtökurnar voru eins og við mátti búast, og þeir voru fáir sem reyndu eitthvað að verja höfundinn. Það segir þó sitt að sagan lifir enn ágætu lífi nú rúmlega hundrað árum frá því hún kom fyrst út og hefur lifað margar sögur er hlutu betri dóma. Álitamálin og afstaðan sem sagan fól í sér á sínum tíma lyfta engum brúnum í dag og helst að menn hafi gaman af að rýna í þetta forpokaða samfélag sem sagan var skrifuð inn í. Þrátt fyrir viðtökurnar á Upp við fossa hélt Þorgils áfram að skrifa, en sögur hans eftir þetta voru mildari og ádeiluhitinn virðist hafa kulnað lítið eitt. Kannski var það bara að Þorgils varð sáttari við eigið samfélag með árunum.

Vaknað upp

Vaknað upp

Gyrðir Elíasson

Gyrðir Elíasson hlaut  bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2011 fyrir smásagnasafnið Milli trjánna. Sagan Vaknað upp er úr því safni.

Valshreiðrið

Valshreiðrið

Einar Benediktsson

Eins og með mörg kunn skáld úr fortíðinni, hafa verk Einars Benediktssonar einhvern veginn dottið á milli kynslóða og fæstir þekkja nokkuð til verka hans. Þó hefur nafn hans ítrekað borið á góma, en öll umfjöllun tengd manninum hefur einkum snúist um manninn sjálfan og líf hans. Þetta dálæti okkar Íslendinga á persónunum á bak við skáldverkin, má þó ekki skyggja á sjálfan skáldskapinn. Það er fyrst og fremst hann sem gaf þessum gömlu meisturum það líf og gerði þau okkur hjartfólgna. Sagan Valshreiðrið er jafnframt kunnasta saga hans. Í formála sínum að sögum Einars (útg. 1980) segir Kristján Karlsson um söguna: „Valshreiðrið er á hinn bóginn svo vel skrifuð, að merking hennar liggur í sjálfum stílnum; hún er meðal allra bestu smásagna tungunnar.“ Já, ummælin gerast vart betri.

Veislan á Grund

Veislan á Grund

Jón Trausti (Guðmundur Magnússon)

Sagan Veislan á Grund kom fyrst út árið 1915 og var í huga höfundar hluti þríleiks, en hver saga þess þríleiks sjálfstæð og óháð hinum. Í Veislunni á Grund er fjallað um atburði sem áttu sér raunverulega stað árið 1362. Voru þá nákvæmlega hundrað ár liðin frá því að Íslendingar lentu undir valdi Noregskonunga í kjölfar borgarastríðsins sem stóð yfir á 13. öld. Og þó svo að 14. öldin hafi ekki verið eins átakasöm og öldin á undan og ákveðinn stöðugleiki hafi fylgt því að valdið komst á eina hendi, var hún engan veginn laus við róstur og átök. Ekki voru allir sáttir við að vera komnir undir erlendan konung og umboðsmenn konungs hér á landi áttu í töluverðum deilum við landsmenn, ýmist vegna þeirra eigin yfirgangs, skattheimtu konungs og kergju landsmanna. Þó sagan sé ekki í hópi kunnustu sagna Jón Trausta, en hún engu að síður mjög skemmtileg og vel skrifuð. Einkum skal hér bent á náttúru- og umhverfislýsingar höfundar sem eru oft á tíðum stórbrotnar.

Vonir: Sögur og ljóð

Vonir: Sögur og ljóð

Einar Hjörleifsson Kvaran

Einar er og verður eitt af stóru nöfnunum í bókmenntasögu þjóðarinnar og er öllum áhugamönnum um bókmenntir þjóðar vorrar nauðsynlegt að þekkja eitthvað til verka hans og ætti það ekki að vera neinum ofviða, því verk hans eru því marki brennd að þau eru ekki einungis bundin við hans samtíma, heldur eiga erindi til hugsandi fólks á hvaða tíma sem er. Þegar kom að því að velja efni í þessa bók úr þeim mikla sjóði sem eftir Einar liggur lá við að okkur féllust hendur. Það er svo margt sem kemur til greina og kallar á. Við vonum þó að þetta safn endurspegli vel hæfileika Einar sem rithöfundar og kalli á að menn sæki í meira efni efir hann.

Smásögur á íslensku

Anderson

Anderson

Einar Hjörleifsson Kvaran

Sagan Anderson var fyrst gefin út árið 1913 í smásagnasafninu Frá ýmsum hliðum og vakti þá töluverða athygli.  Fékk hún þann dóm frá einum gagnrýnanda að á henni sé „einkennilega mikið kast“, hvað sem það þýðir.  Þó svo að sögunni hafi ekki verið hampað með bestu verkum Einars er hún engu að síður bæði skemmtileg og áhugaverð.  Á margan hátt er hún röklegt framhald af sögunum Ofurefli (1908) og Gull (1911) þar sem Einar atti saman fortíð og framtíð í samfélagi sem lifði á mörkum tveggja heima. Það er einmitt sú hugsun sem gerir hana enn áhugaverða 100 árum eftir útgáfu hennar, því við erum jú alltaf á með annan fótinn í fortíðinni á sama tíma og við skimum inn í framtíðina.  Fyrstu skrif Einars voru í anda raunsæis og var hann þá undir sterkum áhrifum frá George Brandes, og þó svo að hann hafi aldrei alveg sagt skilið við raunsæið vék það fyrir hans eigin persónulega stíl, sem rakst illa með ákveðnum bókmenntastefnum. Má segja að viðfangsefnið hverju sinni hafi kallað á ólík stílbrigði.  Einar Hjörleifsson var stórbrotin persónuleiki, sem fetaði sig eftir óvenjulegum leiðum og þrátt fyrir að skoðanir hans og verk féllu ekki öllum í geð og hann eignaðist ákafa andstæðinga, efuðust þeir jafnt og aðrir ekki um heilindi Einars í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur og frýjuðu honum hvorki vits né hæfileika.

Aprílsnjór

Aprílsnjór

Indriði G. Þorsteinsson

Fáir íslenskir höfundar hafa haft jafnmikið vald á smásagnaforminu og Indriði G. Þorsteinsson. Aprílsnjór er ein af hans áhugaverðustu sögum og þar koma fram hans bestu eiginleikar sem höfundar.

Einir

Einir

Guðmundur Friðjónsson

Guðmundur Friðjónsson (1869-1944) fæddist á Sílalæk í Aðaldal. Um þrítugsaldur hóf hann búskap á Sandi í Aðaldal og bjó þar síðan til dauðadags. Hann var að mestu sjálfmenntaður, alþýðuskáld sem margir vilja meina að hafi verið með betri skáldum síns samtíma. Fyrsta smásagnasafn Guðmundar, Einir, kom út árið 1898.

Gamalt og nýtt

Gamalt og nýtt

Þorgils gjallandi (Jón Stefánsson)

Þorgils gjallandi eða Jón Stefánsson eins og hann hét réttu nafni, kvaddi sér fyrst hljóðs sem rithöfundur árið 1892 með bók sinni Ofan úr sveitum en hún innihélt þrjár stuttar sögur og eina lengri sögu, Gamalt og nýtt. Var hann þá orðinn rúmlega fertugur að aldri. Þrátt fyrir að Þorgils væri ekki að skrifa inn í langa og ríka smásagnahefð hér á landi var öllum ljóst við lestur bókarinnar að hér var enginn venjulegur rithöfundur á ferð og ekki maður sem batt bagga sína sömu hnútum og aðrir á ritvellinum. Sögur hans hneyksluðu og kölluðu fram sterk viðbrögð, enda réðst hann í þeim gegn ríkjandi viðhorfum og skinhelgi hvað varðaði grundvallarstofnanir samfélagsins, s. s. hjónaband og kirkju. Þá var stíll hans beinskeyttur og óvæginn sem truflaði marga.

Grasaferð

Grasaferð

Jónas Hallgrímsson

Sagan Grasaferð kom út í síðasta árgangi Fjölnis árið 1847 tveimur árum eftir lát Jónasar. Er sagan á margan hátt tímamótaverk, en margir telja hana marka upphaf íslenskrar sagnagerðar á síðari tímum og að hún sé fyrsta listræna smásagan í íslenskum nútímabókmenntum. Jónas mun hafa skrifað hana nokkru fyrr og hafa menn nefnt árin 1835 og 1836. Nokkur áhöld eru um það hvort sagan eins og við þekkjum hana sé eins og Jónas hafi hugsað sér hana fullkláraða. Er margt sem bendir til þess að hann hafi ætlað sér að eiga meira við hana. Hvernig og með hvaða hætti er ómögulegt að geta sér til um. Til marks um þetta er í fyrsta lagi sú staðreynd að Jónas hafði ekki skráð neitt nafn á söguna og þá endar hún nokkuð óvænt eins og Jónas hafi hætt í miðju kafi. Þrátt fyrir að sagan sé á yfirborðinu einföld í sniðum, er margt í henni sem krefst nánari skoðunar. Vilja margir trúa því að sagan sé táknræn og að lykill hennar sé einhvers konar ,,leit''. Er þá átt við leit drengsins (Jónasar?) að öryggi, karlmennsku, framtíð o.s.frv. Þá má líka lesa úr sögunni ákveðinn ótta við framtíðina og það að fullorðnast. Drengurinn sækir í að leiða "systur" sína eins og hann hafði gert er hann var yngri. Einnig má velta vöngum yfir manninum sem birtist allt í fjallinu fyrir ofan þau og grjóthruninu í fjallinu. Margir vilja líka dvelja við þá hugsun að fjallið sjálft sé táknmynd.

Kreppuráðstafanir

Kreppuráðstafanir

Sigurður Róbertsson

Smásagan Kreppuráðstafanir eftir Sigurð Róbertsson leiftrar af kímni. Hér segir frá skrifstofumanninum Halldóri Hansen, sem er undirtylla allra, en þráir að segja öðrum fyrir verkum. Þegar hann heyrir að nú muni kreppa að í samfélaginu, vegna stríðs og annarra erfiðleika, ákveður hann að láta til sín taka svo um munar. Ekki dugi að fljóta sofandi að feigðarósi - nú skuli spara. Ráðstafanir hans reynast þó ekki sem gæfulegastar.

Sögur

Sögur

Einar Benediktsson

Smásögurnar í þessu safni bera höfundi sínum vitni. Stíllinn er sérstæður og getur stundum verið erfitt að greina hvort um er að ræða smásögu, samtal, minningarþátt eða ritgerð. En hvað sem allri flokkun líður, eiga sögur Matthíasar það eitt sameiginlegt að þær eru skemmtilegar aflestrar. Í sögunum kemur Matthías víða við en viðfangsefni þeirra er gjarnan snertifletir hins forna og nýja í menningu okkar. Þar er Matthías á heimavelli. Við hvetjum alla til að kynna sér þessar sögur því eins og með önnur verk Matthíasar fer það ekki framhjá neinum við lestur þeirra að þar er meistari á ferðinni.

Sögur og ævintýri

Sögur og ævintýri

Ólöf Sigurðardóttir

Í þessa bók höfum við safnað saman öllum þeim textum í lausu máli sem birtir voru í ritsafni Ólafar sem kom út hjá Helgafelli 1945.  Var það Steindór Steindórsson menntaskólakennari og skólameistari sem tók textana saman enda var hann rétthafi efnisins eftir lát Ólafar, en sjálf var Ólöf barnlaus.   Allir textarnir í þessu safni eru skáldskapur utan eins, en það er ritgerðin Bernskuheimili mitt, sem birtist í Eimreiðinni 1906.  Mætti heldur flokka hana sem minningarbrot.  Olli sú minning nokkru fjaðrafoki þegar hún birtist, enda frásögnin nokkuð berorð og hispurslaus fyrir þann tíma.  Vildu sumir meina að Ólöf skreytti nokkuð upplifun sína og jafnvel hallaði sannleikanum.  Ekki skal hér sagt neitt um hvað rétt sé í því, en við lestur greinarinnar skynjar maður einlægni höfundar og þá vissu að hér er satt og rétt frá sagt hvað Ólöfu sjálfa snertir, þó svo að fólk geti upplifað sama raunveruleika á ólíkan hátt.

Ævisaga

Aðalsteinn: saga æskumanns

Aðalsteinn: saga æskumanns

Aðalsteinn: saga æskumanns var önnur íslenska nútímaskáldsagan á eftir Pilti og stúlku Jóns Thoroddsen og vakti þónokkra athygli þegar hún kom út. Sagan endurspeglar vel samtíð sína og er gott innlegg í bókmenntaumræðu 19. aldar. Guðrún Birna Jakobsdóttir les.

Dægradvöl

Dægradvöl

Benedikt Gröndal Sveinbjörnsson

Dægradvöl er sjálfsævisaga Benedikts Gröndals og er hún af mörgum talin með betri slíkum sögum sem skrifaðar hafa verið á Íslandi.  Benedikt tekst á meistaralegan hátt að flétta saman sitt eigið lífshlaup og það sem er að gerast í samfélaginu í kringum hann.  Já, hér er á ferðinni góður aldarspegill yfir nítjándu öldina.

Bækur á ensku

A Christmas Carol

A Christmas Carol

Charles Dickens

Ein þekktasta jólasaga heimsbókmenntanna er án efa A Christmas Carol eftir Charles Dickens. Hér segir frá fúllynda nískupúkanum Ebenezer Scrooge og óvæntri heimsókn sem hann fær eina jólanótt sem á eftir að breyta lífi hans svo um munar.

Berties Christmas Eve

Berties Christmas Eve

Saki (Hector Hugh Munro)

Bertie's Christmas Eve er skemmtileg jólasaga eftir Saki. Breski rithöfundurinn Saki (1870-1916) hét réttu nafni Hector Hugh Munro. Hann er hvað þekktastur fyrir hnyttnar sögur þar sem hann hæðist að bresku samfélagi og menningu við upphaf tuttugustu aldarinnar.

Bleak House

Bleak House

Charles Dickens

Skáldsagan Bleak House er af mörgum talin með bestu verkum Charles Dickens. Hún kom fyrst út á árunum 1852-1853. Í sögunni birtist fjöldi litríkra persóna eins og Dickens einum er lagið. Hér segir frá Esther Summerson, laundóttur frú Dedlock, sem alin er upp hjá strangri frænku sinni. Eftir að frænkan deyr er Esther komið í umsjá hins þunglynda en vinalega herra Jarndyce sem býr í Bleak House.

Dubliners

Dubliners

James Joyce

Dubliners er safn fimmtán smásagna eftir írska rithöfundinn James Joyce (1882-1941). Sögurnar komu fyrst út árið 1914 og voru skrifaðar meðan barátta Íra fyrir sjálfstæði stóð sem hæst.

Emma

Emma

Jane Austen

Sagan Emma eftir Jane Austen er á meðal þekktustu bókmennta enskrar tungu og kom fyrst út árið 1815. Emma Woodhouse er ung, lagleg og vel efnuð. Hún býr með öldruðum föður sínum á sveitasetri í suðurhluta Englands. Í upphafi sögunnar er nýafstaðið brúðkaup sem Emma telur sig eiga heiðurinn af. Hún þykist því búa yfir miklum hæfileikum til hjónabandsmiðlunar og beinir sjónum sínum í því skyni að nýrri vinkonu, Harriet Smith, og prestinum hr. Elton, þvert á móti ráðleggingum nágranna síns og vinar, hr. Knightley.

Frankenstein

Frankenstein

Mary Shelley

Frankenstein, or The Modern Prometheus eftir Mary Shelley kom fyrst út árið 1818 og markaði upphafið að nýrri tegund bókmennta. Sagan var síðar gefin út með nokkrum breytingum, en hér er birt sú útgáfa sem kom út árið 1818. Háskólaneminn Victor Frankenstein vinnur hörðum höndum að því að uppgötva leyndardóm lífsins. Dag einn tekst honum að kveikja lífsneista í sköpunarverki sínu, gríðarstórri veru samsettri úr mennskum líkamshlutum.

Great Expectations

Great Expectations

Charles Dickens

Hin þekkta skáldsaga Great Expectations eftir Charles Dickens kom fyrst út á árunum 1860-1861. Hér segir frá viðburðaríkum uppvaxtarárum hins munaðarlausa Philip Pirrip, eða Pip, eins og hann er kallaður.

Heart of Darkness

Heart of Darkness

Joseph Conrad

Heart of Darkness eftir Joseph Conrad er af mörgum talin með bestu skáldverkum enskrar tungu á tuttugustu öldinni. Sagan kom fyrst út árið 1899 og hefur verið þýdd yfir á fjölda tungumála. Hér segir frá Charles Marlow sem starfar við siglingar á Kongófljóti. Joseph Conrad (1857-1924) var pólskur rithöfundur sem settist að í Englandi og skrifaði á ensku upp þrá því. Heart of Darkness byggist að hluta til á hans eigin reynslu af siglingum í Afríku.

Jane Eyre

Jane Eyre

Charlotte Brontë

Jane Eyre eftir Charlotte Brontë er ein þekktasta og vinsælasta skáldsaga enskra bókmennta. Hún kom fyrst út árið 1847.

Jude the Obscure

Jude the Obscure

Thomas Hardy

Hver öld á sín stórmenni sem standa upp úr, hvort sem er í skáldskap, menntun, eða öðrum þjóðþrifamálum. Einn af þeim mönnum sem bar höfuð og herðar yfir samtímamenn sína á 18. og 19. öld var Jón Þorláksson prestur og þjóðskáld sem löngum hefur verið kenndur við Bægisá í Hörgárdal í Eyjafirði. Á tímum þegar Íslendingar voru einkum uppteknir við að berjast við hungurvofuna og eirðu lítið við veraldlegan skáldskap fékkst hann við að þýða heimsbókmenntirnar yfir á íslensku við erfið skilyrði og svo vel að erlendir fræðimenn fylltust hrifningu. Þá orti hann vísur, ljóð og sálma sem fengu fastan stað í hjörtum landsmanna.

Life in the Iron Mills

Life in the Iron Mills

Rebecca Harding Davis

Sagan Life in the Iron Mills markaði tímamót í bandarískri bókmenntasögu sem eitt fyrsta verk raunsæisbókmennta. Sagan birtist fyrst á prenti árið 1861. Hér segir frá Hugh Wolfe, fátækum verkamanni í járnverksmiðju, sem býr yfir miklum listrænum hæfileikum og þrá eftir betra lífi. Rebecca Harding Davis (1831-1910) var bandarískur rithöfundur og blaðamaður. Með skrifum sínum leitaðist hún eftir að stuðla að breytingum í samfélagi síns tíma. Life in the Iron Mills er þekktasta verk hennar.

The Adventures of Sherlock Holmes

The Adventures of Sherlock Holmes

Arthur Conan Doyle

The Adventures of Sherlock Holmes er safn fyrstu tólf smásagnanna um spæjarann snjalla, Sherlock Holmes. Sögurnar voru fyrst birtar í Strand Magazine á árunum 1891-1892.

The Age of Innocence

The Age of Innocence

Edith Wharton

Edith Wharton (1862-1937) hlaut Pulitzer-verðlaunin fyrir skáldsöguna The Age of Innocence árið 1921, fyrst kvenna. Sögusviðið er New York á seinni hluta 19. aldar. Hér segir frá lögfræðingnum Newland Archer sem er í þann mund að kvænast hinni fögru May Welland. Þegar til sögunnar kemur greifynjan Ellen Olenska, nýlega fráskilin, fer Archer að endurskoða ákvörðun sína.

The Awakening

The Awakening

Kate Chopin

Sagan The Awakening eftir Kate Chopin kom fyrst út árið 1899 og er af mörgum talin eitt af lykilverkum upphafstíma femínismans. Hér segir frá Ednu Pontellier sem reynir að samræma heldur óhefðbundin viðhorf sín til kvenleika og barneigna ríkjandi viðhorfum samfélagsins í Suðurríkjum Bandaríkjanna í kringum aldamótin 1900.

The Boar-Pig

The Boar-Pig

Saki (Hector Hugh Munro)

The Boar-Pig er hnyttin smásaga eftir breska rithöfundinn Saki (1870-1916), en hann hét réttu nafni Hectur Hugh Munro.

The Canterville Ghost

The Canterville Ghost

Oscar Wilde

The Canterville Ghost var ein fyrsta saga Oscars Wilde til að koma út á prenti. Hún hefur verið geysilega vinsæl og fjöldi kvikmynda, leiksýninga og sjónvarpsefnis hefur verið byggður á henni. Hér segir frá Sir Simon, afturgengnum íbúa ensks sveitaseturs, sem á ekki sjö dagana sæla eftir að hin bandaríska Otis-fjölskylda flytur þar inn.

The Curious Case of Benjamin Button

The Curious Case of Benjamin Button

F. Scott Fitzgerald

Smásagan The Curious Case of Benjamin Button eftir F. Scott Fitzgerald kom fyrst út árið 1922. Hér segir frá Benjamin Button sem við fæðingu lítur út eins og sjötugur maður og virðist eftir það eldast aftur á bak.

The Gift of the Magi

The Gift of the Magi

O. Henry (William Sidney Porter)

The Gift of the Magi er falleg jólasaga eftir O. Henry. Hér segir frá hjónunum Dellu og Jim sem langar mikið til að gefa hvort öðru góða jólagjöf, en ýmislegt fer á annan veg en ætlað var.

The Last Leaf

The Last Leaf

O. Henry (William Sidney Porter)

The Last Leaf er skemmtileg smásaga eftir bandaríska rithöfundinn O. Henry (1862-1910), en hann var þekktur fyrir leiftrandi kímni, orðaleiki og sniðugar fléttur í smásögum sínum.

The Picture of Dorian Gray

The Picture of Dorian Gray

Oscar Wilde

Skáldsagan The Picture of Dorian Gray eftir Oscar Wilde birtist fyrst í tímaritinu Lippincott's Monthly Magazine árið 1890, og var svo gefin út á bók árið eftir. Hér segir frá Dorian Gray, sem metur fegurð og nautnalíf ofar öllu öðru. Hann óskar þess að fá að halda æskuljóma sínum og fegurð, en í staðinn muni málverk af honum eldast og fölna. Óskin rætist og Dorian heldur ótrauður áfram syndsamlegu líferni sínu.

The Red Badge of Courage

The Red Badge of Courage

Stephen Crane

The Red Badge of Courage eftir Stephen Crane (1871-1900) segir frá ungum hermanni í bandaríska borgarastríðinu (þrælastríðinu).

The Strange Case of Dr. Jekyll and Mr. Hyde

The Strange Case of Dr. Jekyll and Mr. Hyde

Robert Louis Stevenson

Hin sígilda saga The Strange Case of Dr Jekyll and Mr Hyde kom fyrst út árið 1886. Lögfræðingurinn Gabriel John Utterson rannsakar dularfulla atburði er tengjast vini hans, Dr Henry Jekyll, og hinum illa Edward Hyde.

The Toys of Peace

The Toys of Peace

Saki (Hector Hugh Munro)

Breski rithöfundurinn Saki hét réttu nafni Hector Hugh Munro (1870-1916). Hann er hvað þekktastur fyrir hnyttnar sögur þar sem hann hæðist að bresku samfélagi og menningu við upphaf 20. aldarinnar.

Wives and Daughters

Wives and Daughters

Elizabeth Gaskell

Wives and Daughters var síðasta skáldverk breska rithöfundarins Elizabeth Gaskell (1810-1865). Sagan var birt í tímaritinu Cornhill Magazine á árunum 1864-1866. Elizabeth Gaskell lést skyndilega áður en hún náði að ljúka við síðasta kafla sögunnar. Í hennar stað lauk Frederick Greenwood, ritstjóri tímaritsins, við söguna. Sögusviðið er bær á Englandi á fjórða áratug 19. aldar. Hér segir frá Molly Gibson, sem elst upp hjá lækninum föður sínum eftir að móðir hennar deyr.

Wuthering Heights

Wuthering Heights

Emily Brontë

Skáldsagan Wuthering Heights eftir Emily Brontë (1818-1848) er eitt af þekktustu og vinsælustu verkum enskrar bókmenntasögu. Sagan kom fyrst út árið 1847 undir dulnefninu Ellis Bell. Sögusviðið er Yorkshire á Englandi við upphaf 19. aldar. Maður nokkur að nafni Lockwood hittir þar fyrir hinn hrjúfa herra Heathcliff. Fljótlega kemst hann á snoðir um atburði sem áttu sér stað fyrir löngu en draga dilk á eftir sér.