Hvað er að finna á Skólavefnum? | Skólavefurinn

Hvað er að finna á Skólavefnum?

Kynningarsíða - Börn á leikskólaaldri

Leikskólamappan er safn alls kyns verkefna sem á sínum tíma voru boðin í vikulegum skömmtum og hægt var að prenta út eftir hentugleika hvers og eins.  Voru 5 – 6 verkefni í hverjum pakka. Var um að ræða verkefni í föndri, þjálfunaræfingar í tölum og lestri, leikir og hvað eina. Pakkarnir eru yfir 150 talsins og það gerir tæplega 1000 verkefni. Ekki lítill verkefnabanki það. 

Fyrir þá sem eru að byrja að læra að lesa bjóðum við upp á skemmtilegar og stigskiptar þjálfunarbækur í lestri sem unnar eru af Berglindi Guðmundsdóttur. Er hér um mjög vandaðar bækur að ræða sem notaðar hafa verið í kennslu með góðum árangri. Hægt er að nálgast þessar bækur til að prenta þær út og einnig í aðgengilegri flettibókaútfærslu á vef þar sem hægt er að hlusta á upplestur á þeim. Eins og áður sagði henta bækurnar vel byrjendum í lestri og þeim sem þurfa mikla æfingu við að tengja saman málhljóð og bókstaf.

Í þessum leik á að telja epli og velja viðeigandi tölustaf. Fyrir hvert rétt svar er gefin stjarna, en stjarna dregst frá ef svarið er rangt. Þegar nemandi hefur safnað 10 stjörnum hefur hann lokið leiknum. Hægt er að fara aftur og aftur í leikinn, þar sem fjöldi eplanna er handahófskenndur frá 1 upp í 10. Leikurinn hentar vel þeim sem eru að læra að telja.

Hvar í ósköpunum hefur litla músin falið sig? Krakkarnir eiga að lyfta hlutunum í herberginu til þess að finna músina. Einfaldur og góður leikur fyrir þá sem eru að uppgötva tölvur.

Hér er hægt að nálgast fjölda þematengdra leikja þar sem þið getið þjálfað minnið og almenna rökhugsun, því vissulega er hægt að þjálfa það eins og allt annað.  Leikir af þessu tagi einskorðast hreint ekki við ákveðinn aldur, nema síður sé, því það er öllu fólki gott að þjálfa minnið. Það tapar enginn á því. Svo er líka svo gaman að reyna að ljúka leikjunum á góðum tíma.

Kynningarsíða - Yngsta stig

Við bjóðum upp á mikið af alls kyns námstengdum leikjum og vefsíðum sem miðast fyrst og fremst við það að æfa og styðja við barnið á leið þess til aukins þroska. Leikirnir eru af ýmsum toga og henta ólíkum aldursstigum og ættu allir að finna hér eitthvað við hæfi.

Öll börn hafa gaman að sögum og hér á þessari síðu getið þið nálgast alveg gríðarlega mikið safn af sögum fyrir börn á öllum aldri. Eru sögurnar mjög fjölbreyttar og ætti hver og einn að geta fundið nóg af sögum við sitt hæfi. Þá fylgja sögunum verkefni bæði í formi hugleiðinga sem ýta undir umræður og almennra spurninga.  Eru verkefnin mismunandi eftir sögum. Þá eru sögurnar miserfiðar eins og gengur og mislangar. Við bjóðum t.a.m. upp á sögur í nokkrum köflum, sbr. Sögur af Alla Nalla og Sagan Labba pabbakút, en flestar eru þó í einu skjali.  Nýjar sögur bætast við reglulega.

Ritum rétt er forrit í stafsetningu sem er einkum hugsað fyrir yngstu krakkana. Nemendur fá orðalista sem tengjast ákveðnum stöfum og eiga síðan að skrifa eða draga orðin í reit útfrá mynd sem birtist á skjánum. Þetta forrit sameinar í raun almenna lestrarkennslu og stafsetningu.

Egils sögu einhenda og Ásmundar berserkjabana er að finna í safninu Fornaldarsögur Norðurlanda. Hún er hér í nokkuð einfaldaðri útgáfu, ætluð til kennslu í 3.-4. bekk grunnskóla. Hverjum kafla fylgja frábær verkefni, bæði útprentanlegu útgáfunni og vefútgáfunni. Þá er hægt að hlusta á alla kaflana upplesna af vefútgáfunni. Athugið að hægt er að panta bók og vinnubók á bóksölunni, en svo er líka hægt að prenta út af vefnum.

Hér er á ferðinni vandað heildstætt námsefni sem byggir á hinni stórskemmtilegu sögu Vilborgar Dagbjartsdóttur, Sögur af Alla Nalla. Efnið samanstendur af 13 köflum sem bæði er hægt að nálgast í útprentanlegri útgáfu og í vefútgáfu. Útprentanlegri útgáfu fylgja verkefni og svör.  Vefútgáfu fylgja gagnvirkar æfingar og leikir. Einnig er hægt að hlusta á söguna upplesna.

Skemmtilegur og gagnlegur leikur sem þjálfar ýmis atriði í stærðfræði. Leikurinn skiptist í 6 borð og 3 þyngdarstig. Eftir því sem svarað er hraðar þeim mun fleiri bónusstig fær nemandi. Góða skemmtun!

Kynningarsíða - Miðstig

Vanda málið er heildstætt námsefni í íslensku fyrir miðstig. Það að efnið sé heildstætt þýðir að hér er tekið á öllu sem tengist íslenskunáminu á einum stað. Ekki þarf sérstaka bók fyrir málfræði, stafsetningu eða bókmenntir og ljóð. Kennsluefnið myndar eina heild fyrir miðstigið og skapar samfellu í náminu sem er til mikilla bóta fyrir nemendur, kennara og foreldra. Nú hafa um 70 prósent allra skóla keypt Vanda málið. Þetta vandaða efni er unnið eftir kröfum Aðalnámsskrár grunnskólanna og tekur á öllu þáttum sem þar er getið. Rétt er að geta þess að efnið þykir nokkuð krefjandi en flestir eru einmitt á því að það sé einmitt styrkur þess. Námsefni þetta var rúm tvö ár í þróun og var það m.a. tilraunakennt í þremur stórum grunnskólum. Þannig var reynt að tryggja að efnið hentaði sem best þörfum og kröfum bæði nemenda og kennara.​

Umgjörðin utan um efnið er sagnfræðileg, en það er sagan The Story of the Romans eftir H. A. Guerber, þannig að hér sameinum við nám í ensku við nám í sögu. Efnið er fyrst og fremst hugsað fyrir 5.-7. bekk, en getur nýst vel eldri bekkjum allt eftir því hvar menn eru staddir. Það er Mjöll Sigurðardóttir sem hefur haft veg og vanda af þessu efni og lagt sérstaka áherslu á að hafa það einfalt og aðgengilegt og skemmtilegt fyrir augað. Útprentanlega efnið er skemmtilega myndskreytt með vel uppsettum verkefnum. Vefútgáfunni fylgja gagnvirkar æfingar, orðskýringar og þar er einnig hægt að hlusta á kaflana upplesna.

Sagan Róbinson Krúsó kom fyrst út árið 1719 og hét þá ,,Life and strange surprising adventures of Robinson Crusoe". Hún varð strax mjög vinsæl og enn þann dag í dag yljar hún lesendum út um allan heim, enda sagan verið þýdd á ótal tungumál. Hér er á ferðinni heildstætt námsefni í íslensku  fyrir efstu bekki grunnskólans.  Sagan er hér í 21 kafla og fylgja hverjum kafla góð verkefni hvort heldur vefútgáfu og prentútgáfu.

Hér er á ferðinni heildstætt námsefni um sögu sem tekur fyrir tímabilið frá aldamótunum 1800 og fram að því að Íslendingar öðluðust svonefnda heimastjórn.  Margskipt efni sem unnið er útfrá markmiðum aðalnámskrár í sögu fyrir 8. – 10. bekk.

Hér bjóðum við upp á stutt æviágrip valinkunnra einstaklinga. Sögufrægir Íslendingar býður upp á æviágrip Íslendinga en Fólk í sögunni geymir æviágrip erlendra einstaklinga. Persónurnar eru frá ýmsum tímum og verður nýjum nöfnum bætt við reglulega. Tilvalið að nota efnið í hópkennslu eða sem viðbót við annað efni.

Egils saga Skallagrímssonar er og verður okkur Íslendingum ávallt hugleikin, enda ein af stórbrotnustu Íslendingasögunum og talin skrifuð af sjálfum Snorra Sturlusyni. Egils sögu má skipta í tvo hluta, en sá fyrri (1-27) segir sögu Kveld-Úlfs Bjálfasonar; sona hans Skalla-Gríms og Þórólfs og baráttu þeirra við norska konungsvaldið. Sá síðari segir svo sögu Egils sjálfs, af skáldinu, vígamanninum og bóndanum sem býður erlendu valdi byrginn og hefur sigur að lokum.

Kynningarsíða - Unglingastig

Hér getið þið nálgast skýringabanka í stærðfræði þar sem farið er yfir öll helstu atriði stærðfræðinnar úr efstu bekkjum grunnskólans og upp í fyrstu áfanga framhaldsskólans. Eru skýringarnar settar fram í stuttum myndböndum þar sem sýnt er hvernig á að reikna samkvæmt viðkomandi aðferð. Yfirflokkarnir í þessum lið eru:

1. Tölur
2. Hlutföll og prósentur
3. Bókstafareikningur
4. Jöfnur og jöfnuhneppi
5. Rúmfræði
6. Tölfræði og líkindi
7. Mengi
8. Annars stigs jöfnur

Segja má að hér sé um skemmtilega nýjung að ræða sem kennarar og nemendur geta nýtt sér jöfnum höndum og felur það í sér að hægt er að skoða skýringarnar aftur og aftur þangað til fullur skilningur hefur náðst. Samhliða skýringunum er svo boðið upp á léttar æfingar til að vinna nánar með útskýringarnar og festa skilninginn inni. Efnið er unnið af stærðfræðingunum Önnu Hrund Másdóttur og Grétari Amazeen.

 

Heimurinn, eðli hans og uppbygging hefur löngum valdið mönnum heilabrotum. Í aldanna rás hefur orðið til hópur manna sem við í daglegu tali köllum heimspekinga, sem hafa það að markmiði að finna röklegt samhengi tilverunnar, þannig að við getum skilið hana betur og áttað okkur á tilgangi lífsins. Á þessari síðu bjóðum við upp á kynningar á helstu heimspekingum sögunnar, kenningum þeirra og niðurstöðum sem þeir komust að. Efnið er boðið í þægilegum og aðgengilegum einingum sem hentar bæði einstaklingum og kennurum. Efnið er unnið af Dr. Geir Sigurðssyni heimspekingi. Auk þess sem hægt er að nálgast heimspekiefni okkar í aðgengilegum vefbúningi bjóðum við upp á 6 sérútbúin kennsluhefti til útprentunar.

Fjöldinn allur af æfingum um nafnorð, lýsingarorð, fallorð, sagnorð og smáorð.

Stigskiptir lestextar um allt milli himins og jarðar. Hægt er að nálgast textana til útprentunar með verkefnum og í vefútgáfu með upplestri og gagnvirkum æfingum.

Kynningarsíða - Framhaldsskólinn

Hér er að finna fjölda Íslendingasagna og Íslendingaþátta. Sögunum fylgja góð verkefni, upplestur, orðskýringar og ýmiss konar ítarefni.

Kynningarsíða - Hitt og þetta

Táknmálstengillinn er heildstæð vefsíða þar boðið er upp á fjölbreytt efni sem tengist táknmáli, s.s. fræðslu, táknabanka, leiki og verkefni.

Hér er að finna fjöldann allan af stökum krossgátum til útprentunar, skemmtilegum þrautaheftum og sudoku-þrautum. Nú ætti engum að leiðast.

Bæði  er um að ræða kennslubók og vefsíðu (Fjármálaskólinn). Efnið er tilvalið að nýta í lífsleikni eða stærðfræði á efri stigum.

Hér er hægt að nálgast tímalaus tímarit með ágætu afþreyingarefni, sögum, þrautum, ljóðum o.fl.

Fjölmargar skemmtilegar litabækur til útprentunar.

Skemmtilegar uppskriftir frá öllum heimshornum. Þessi bók hefur verið notuð í nokkrum grunnskólum með góðum árangri og um að gera að kynna sér hana.

Kynning á efni í boði á Skólavefnum