Íslenska 1 | skolavefurinn.is

Íslenska 1

Bleikbókin

Um efnið

Bleikbókin er sjöunda bókin í ritröðinni sem við höfum kosið að kalla Litabækurnar þar sem boðið er upp á vandaða og áhugaverða lestexta til þess að þjálfa nemendur í lesskilningi.  

Þessi bók er nokkuð frábrugðin fyrri bókum bæði hvað varðar lestextana sjálfa  og hvernig spurt er úr efninu. Hér er lagt allmikið upp úr töflulestri og tölfræðilegum upplýsingum, auk þess sem reynt er að spyrja þannig að lesendur þurfi að draga ályktanir af þeim upplýsingum sem er að finna í textunum. 

Við val á textum reyndum við að hafa efnið fjölbreytt og áhugavert. Sumt gæti jafnvel nýst nemendum í dagsins önn; þá tengjast margir textanna öðrum námsgreinum með einum eða öðrum hætti. 

 

Artúr konungur – Lestrarvinnubók

Artúr konungur – Lestrarvinnubók er fyrsta bókin í nýrri bókalínu sem er einkum hugsuð fyrir nemendur í 3.–4. bekk. Er hér um að ræða stuttar lesbækur með góðum og fjölbreyttum verkefnum sem taka mið af því sem kveðið er á um í námskrá í íslensku fyrir viðkomandi aldurshópa. Fyrsta bókin í þessum flokki fjallar um hinn kunna konung Artúr sem sagan segir að hafi ríkt í Englandi á 6. öld. Bókin sem telur 21 blaðsíðu skiptist í 5 kafla og er hægt að prenta hana út beint af vefnum, eða nálgast hana sem vefbók þar sem einnig er hægt að hlusta á hana upplesna.

 

 

Örnámskeið um söguna Sýður á keipum eftir Jón Trausta

Velkomin.

Á þessu örnámskeiði munum við rýna í söguna Sýður á keipum eftir Jón Trausta.

 

Leiðbeiningar:

Byrjið á því að lesa eða hlusta á söguna. Tengil í söguna (vefbók með upplestri) má finna hér fyrir neðan.

Að lestri loknum skuluð þið líta á ítarefnið sem fylgir námskeiðinu, en það skiptist í kort af sögusviðinu, umfjöllun um Dritvík, stutt æviágrip Jóns Trausta (Guðmundar Magnússonar), samtímagagnrýni á söguna, glæruskýringar og verkefnahefti. Tengla í allt ítarefnið má finna hér fyrir neðan.

Þá er komið að því að horfa á fyrstu umræðustundina, þar sem Baldur Hafstað prófessor og Ingólfur Kristjánsson ritstjóri Skólavefsins ræða um höfund og umhverfi sögunnar (sjá tengil hér til vinstri). Umræðustundirnar eru um 10 mínútna langar og þeim fylgja hugleiðingar það sem þar er fjallað um.

Svo gerið þið eins með hinar umræðustundirnar.

 

 

Sýður á keipum eftir Jón Trausta
(vefbók með upplestri / smelltu hér)

 

Sýður á keipum

Sagan Sýður á keipum eftir Jón Trausta eða Guðmund Magnússon eins og hann hét með réttu, kom fyrst út árið 1916 og var þá spyrt saman við söguna Krossinn helgi í Kaldaðarnesi. Eins og með flestar sögur Jóns Trausta var sögunni tekið vel af almenningi, en dómar um hana voru nokkuð misjafnir, allt frá því að vera með því besta sem hann hafði látið frá sér fara, til þess versta. Sýnir það hve oft er erfitt að henda reiður á dómum gagnrýnenda.

Sagan gerist á verstöðinni við Dritvík á Snæfellsnesi og gefur okkur skemmtilega innsýn í lífið á slíkum stöðum, en það var löngum einn helsti styrkur höfundar að draga upp myndir af lokuðum heimum, lokuðum samfélögum, jafnhliða því að segja góða sögu. Nægir að nefna sögurnar af Höllu og heiðarbýlinu því til staðfestingar. 

Líkt og í fyrri verkum Jóns Trausta leggur hann í þessari sögu mikið upp úr náttúru- og umhverfislýsingum og er þar á heimavelli. Guðmundur Magnússon var mikill náttúruunnandi og gerði sér far um að kynna sér land sitt með beinum hætti. Fór hann gjarnan í leiðangra um valda staði og skrifaði um þá. Hann fór t.a.m. með leiðsögumanni um Snæfellsnes og notar töluvert úr ferðalýsingum sínum í þeirri ferð í söguna.

Því hefur stundum verið haldið fram að persónusköpun Guðmundar hafi á stundum verið ábótavant, en það á ekki við í þessari sögu. Helstu persónur sögunnar eru einmitt afskaplega vel upp dregnar og sannfærandi í þessu umhverfi. 

Þegar Guðmundur hóf að skrifa sögur var raunsæisstefnan að ryðja sér til rúms og varð hann fyrir töluverðum áhrifum frá henni. Það er hins vegar álit margra að þegar líður á og einkum þegar hann snýr sér að sögulegum skáldsögum hafi sýn Guðmundar breyst. Í Bókmenntasögu Máls og menningar frá 1996 segir að þær sögur hafi einkennst ,,af rómantískri fortíðarhyggju og kristilegu verðmætamati...“, og ýjað að því að þær standi eldri sögum hans töluvert að baki hvað skáldskap varðar. Eflaust má færa einhver rök fyrir því, en slíkar staðhæfingar verður þó að taka með fullum vara og breytt lífsýn höfundar segir ekkert til um ágæti skrifanna í sjálfu sér. Er það trú undirritaðs að í sögunni Sýður á keipum sýni Jón Trausti á sér margar sínar bestu hliðar sem rithöfundur. Þá minnir tónninn í sögunni nokkuð á eldri smásögur hans, s.s. Strandið á Kolli og Á fjörunni, sem margir vilja meina að sé með því besta sem hann skrifaði.

Við vekjum athygli á því að hægt er að hlusta á alla kafla sögunnar upplesna. Sigurður Arent Jónsson les.

 

 

Örnámskeið um söguna Sýður á keipum eftir Jón Trausta
(vefsíða / smelltu hér)

 

Króka-Refs saga

Króka-Refs saga hefur notið vinsælda á fyrri tíð eins og m.a. sést af því að út frá henni hafa verið ortar a.m.k. þrennar rímur. Eitt rímnaskáldanna er sjálft passíusálmaskáldið, Hallgrímur Pétursson. Vinsældir sögunnar má rekja til þess að hún er vel og skipulega sögð, hún er spennandi og viðburðarík, og hetjan er heilsteypt og afar snjöll og úrræðagóð. Sagan er listavel skrifuð. Gamansemi og skopskyn birtist víða. Það er því létt yfir frásögninni og jafnframt má draga af henni lærdóm, m.a. um mannlega kosti og bresti.

Júdas

Okkur er ánægja að kynna söguna Júdas eftir Sigurð Róbertsson rithöfund. Hér segir frá hinum eina sanna Júdasi Ískaríot, en sjónarhornið er ólíkt því sem við erum vön að fylgja og er óhætt að segja að sagan veiti okkur nýja sýn inn í þessa þekktu sögu úr Biblíunni. Já, það getur verið forvitnilegt að skoða söguna stundum í nýju ljósi. 

Sögur af Alla Nalla – Útprentanleg vinnubók

Hinar skemmtilegu Sögur af Alla Nalla eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur eru mörgum kunnugar og hér er búið að útbúa þær sem heildstætt námsefni í íslensku fyrir yngri nemendur. Efnið samanstendur af 13 köflum og skiptist í leshefti og vinnubók. Leskaflana má nálgast í vefútgáfu eða í bók sem hægt er að panta í bóksölu Skólavefsins.

Síður

Subscribe to RSS - Íslenska 1