Vefslóð
Lýsing
Einn er sá konungur í Noregi sem mest áhrif hafði á byggð landsins í upphafi sögu okkar, en það er Haraldur hinn hárfagri. Það var á hans dögum sem landið byggðist og á margan hátt fyrir hans tilverknað. Þegar hann hófst handa við að sameina Noreg undir einn konung voru margir sem vildu ekki sætta sig við það og ákváðu í kjölfarið að leita annað og fundu þá Ísland. Má segja að til að skilja sögu okkar Íslendinga sem best er nauðsynlegt að kunna skil á sögu hans. Því förum við nú af stað með sögu Haralds hárfagra eins og Snorri Sturluson hefur skráð hana í Heimskringlu.
Það fer vel á því að kenna Haralds sögu hárfagra í 5.-6. bekk samhliða umfjöllun um landnám Íslands og næstu ár þar á eftir. Það bæði hjálpar til að setja landnámið í sögulegt samhengi og skýrir margt í landnáminu og hvernig það þróaðist hér á landi. Þá ætti sagan að gefa nemendum betri hugmynd um almenn viðhorf þessa tíma og tengja þá betur inn í heim Íslendingasagna, enda gerast þær margar hverjar að stórum hluta í Noregi.
Söguna er hægt að nálgast í sérstakri útprentanlegri útgáfu með góðum verkefnum og svörum við þeim og einnig í vefútgáfu með gagnvirkum skýringum þar sem hægt er að hlusta á hana upplesna.