Ást og auður eftir Jóhann Gunnar Sigurðsson | skolavefurinn.is

Ást og auður eftir Jóhann Gunnar Sigurðsson

Ást og auður er stutt örlagasaga í 11 köflum, oft átakanleg. Segir þar frá stúlkunni Sigríði, bóndanum Gísla sem ann henni hugástum og kaupmanninum Þórarni sem giftist henni. Hefur sagan yfir sér þunglyndislegt yfirbragð og minnir stundum á Kærleiksheimilið eftir Gest Pálsson. Sagan telst þó ekki til raunsæis heldur nýrómantíkur, en skilin eru ekki mjög skörp.

Það sem kannski helst gerir söguna jafn góða og skemmtilega aflestrar og raun ber vitni er einlægnin og ákefðin sem býr að baki. Það er eins og maður finni samkennd höfundar með sögupersónunum og það að hér er skrifað af sárri reynslu, þess sem átt hefur en misst. Þá er ljóðrænn textinn seiðandi og myndmálið oft á tíðum forvitnilegt:

„Fyrra hluta sumars, þegar dagurinn er lengstur, getur varla heitið, að sólin setjist. Hún loggyllir hafið yzt, en leggur geislabrú inn eftir firðinum beint til þess, sem er að horfa á sólarlagið. Sveitin er falleg og grasgefin, og blómlegar eru þær jarðir, sem vel hafa verið setnar. Neðst í sveitinni eru lélegar húsagerðir og túnin óræktarleg. En eftir því, sem fjær dregur kaupstaðnum, batnar þetta. Uppi við fjallið eru túnin miklu sléttari og bæjahúsin miklu reisulegri.“ (1. kafli)

Þessa útgáfu sögunnar höfum við fyrst og fremst hugsað sem kennsluútgáfu, en auðvitað geta allir notið hennar án verkefnanna sem fylgja. Hún er eins og stærstur hluti efnis okkar bæði hægt að nálgast í skemmtilegri og aðgengilegri vefútgáfu, þar sem hægt er að hlusta á hana upplesna, og í sérútbúinni prentútgáfu með góðum verkefnum. Skiptast verkefnin þannig að efnisspurningar fylgja hverjum kafla, en í lokin eru svo almennari bókmenntaspurningar, eyðufyllingarverkefni og o.fl.

Sagan getur hentað ólíkum aldurshópum og fer þá eftir hverjum einum hvernig unnið er úr verkefnunum og með söguna almennt.

 

Image

Tengill

Námsgreinar

Útprentanlegt (pdf)

Hljóðbækur á Hlusta.is