Snorra-Edda er íslensk handbók í skáldskaparfræðum, samin af Snorra Sturlusyni, einhvern tíma á bilinu 1220–1230. Verkið hefst á Prologus (formála) þar sem lýst er sköpun heims, upphafi trúarbragða og tilurð hinna fornu ása.
Meginmálið skiptist svo í þrjá hluta þar sem fremst fer Gylfaginning, þá Skáldskaparmál og loks Háttatal.
Gylfaginning er öðrum þræði frásögn og kennslubók í goðafræði. Er hún okkar helsta heimild um norrænan goðsagnaheim. Skáldskaparmál segja frá upphafi skáldskaparins. Þar er kenningum og heitum lýst með dæmum úr fornum skáldskap, og vitnað er í fjölmörg skáld. Einnig er þar að finna goðsögur og hetjusögur sem sagðar eru til að lýsa uppruna kenninga. Þriðji hlutinn er kvæðið Háttatal ásamt bragfræðiskýringum og hves kyns fróðleik um skáldskap og brag. Það er hundrað og tvær vísur og sýnir þá bragarhætti og afbrigði þeirra sem Snorri þekkti.
Í Gylfaginningu segir frá Gylfa, sem var konungur þar „er nú heitir Svíþjóð“. Gylfi þessi hafði haft kynni af ásum og skynjaði yfirburði þeirra. Hafði hann t.a.m. verið blekktur af Gefjun ásynju sem hafði af honum töluvert landsvæði. Til að komast að hinu sanna varðandi æsi ákvað hann gera sér ferð til Ásgarðs dulbúinn sem gamall maður (Gangleri) og kynna sér í hverju kraftur þeirra væri fólginn.
Æsir komast á snoðir um ætlun Gylfa og gera í móti honum sjónhverfingar. Kemur Gylfi til stórrar hallar sem hann telur vera Ásgarð og þar taka á móti honum þrír konungar er allir bera nafn Óðins; Hár, Jafnhár og Þriðji. Í samtali Gylfa við konungana þrjá fræðist hann um hin fornu fræði og ásatrú. Í lokin hverfa konungarnir og höllin, og Gylfi konungur er þá staddur einn úti á víðavangi. Hafði allt verið blekking eða ginning.
Þegar Snorri skrifar Gylfaginningu hefur kristin trú verið lögboðin á Íslandi í yfir 200 ár og markmið hans með frásögninni því fyrst og fremst að fræða fólk um þessa gömlu trú. Hann hefur eflaust þekkt erlend rit um goðafræði og viljað koma þessari norrænu goðafræði í búning. Formið, þ.e. samtalsformið, var algengt í fræðiritum á miðöldum og hentar vel efninu.
Gylfaginning hefur lengi staðið Íslendingum nærri, enda býr texti hennar yfir miklum töfrum og geymir afar dýrmætar upplýsingar um fornan hugarheim forfeðranna. Segja má að Gylfaginning sé hluti af Íslandssögunni; undanfari hinnar eiginlegu atburðasögu eins og við þekkjum hana. Það er því hverjum Íslendingi nauðsynlegt að kunna skil á henni.