Latína fyrir alla | Skólavefurinn

Latína fyrir alla

Segja má að latína sé flestum Íslendingum framandi tungumál. Bæði er að það er mjög óskylt íslenskunni og svo heyrum við það aldrei talað, tölum það aldrei og langfæst okkar lesa það. Af þessum sökum virðist mörgum latínan vera úrelt tungumál og ónothæft og síðast en ekki síst óhagnýtt. Raunar tala, heyra, lesa og jafnvel semja þúsundir manna í heiminum á latínu. Hún er meira að segja í stöðugri þróun eins og íslenskan þó það fari hljótt. Og sem betur fer er enn töluverður áhugi hjá ungu fólki að læra latínu. Þar liggja margar ástæður að baki. Sumir halda því fram að latína sé fyrsta flokks æfing til þess að styrkja heilann, að hún sé lógísk og kenni manni því að hugsa skýrt. Aðrir segja tilganginn vera e.k. listnám vandaðs prósa og snjalls fornaldarskáldskapar og að hún sé nákvæm rannsókn á manninum og sögu hans. Margir vilja meina að nokkurra ára nám í latínu auðveldi háskólanám. Enn fleiri telja að það dýpki skilning okkar á indóevrópskum málum og þá einkum rómönskum málum. Markmið þessarar síðu er fyrst og fremst að gera námsefni í latínu aðgengilegt á íslenskri tungu og á því formi sem hentar nemendum í dag. Hér má finna málfræði, æfingar, viðtöl við nemendur o.fl. Höfundur latínusíðunnar er María Ásmundsdóttir Shanko.

 

Image

Tengill

Námsgreinar