Vefslóð
Lýsing
Ein áhugaverðasta saga Snorra Sturlusonar í Heimskringlu um norska konunga er Haralds saga Sigurðarsonar hins harðráða. Sagan hefur löngum verið Íslendingum kær og kannski ekki síst fyrir þær sakir að Haraldur tengist Íslendingum sterkari böndum en flestir aðrir konungar Norðmanna frá þessum tímum og var þeim jafnan hliðhollur. Haraldur konungur ríkti til ársins 1066, þá rétt rúmlega fimmtugur, og hafði á ótrúlega stuttri ævi afrekað ótrúlega mikið.
Eins og með aðrar konungasögur frá þessum tíma byggir Snorri frásögn sína oft á hæpnum heimildum og er enda kannski meira í mun að segja áhugaverða sögu en að sagnfræðin sé alltaf kórrétt höfð að leiðarljósi. Því ber að taka sögunni með varúð hvað það varðar, en þó er sagan í stórum dráttum skilmerkileg. En til að fá sem gleggsta mynd af Haraldi þeim er Snorri dregur upp svo skemmtilega mynd af er best að lesa söguna af eigin raun og síðan geta menn lesið álit og umsagnir fræðimanna, og eru þá betur í stakk búnir að meðtaka þeirra boðskap. Telur sagan 101 kafla og er hin skemmtilegasta lesning.