Íslenska 1 | Skólavefurinn

Íslenska 1

Finnboga saga ramma

Við bjóðum upp á Finnboga sögu ramma í heildstæðum kennslubúningi. Söguna er hægt að nálgast í vefútgáfu með gagnvirkum æfingum og líka í útprentanlegri útgáfu með sömu verkefnum. Á vefnum er svo boðið upp á gagnvirkar orðskýringar og þar er einnig hægt að hlusta á söguna upplesna.  

Finnboga saga er bráðskemmtileg og enginn skortur á ýkjukenndum lýsingum. Hún er ein af yngri Íslendingasögunum, talin rituð á fyrri hluta 14. aldar en lýsir atburðum sem eiga að hafa átt sér stað á 10. öld og allt fram yfir kristnitöku (Finnbogi lét gera kirkju í elli sinni). Sögusviðið vítt, allt frá Flateyjardal í Suður-Þingeyjarsýslu til Húnavatnsþings og loks Trékyllisvíkur. En einnig bregður söguhetjan sér til Noregs og þaðan allt til Grikklands og lendir í mörgum ævintýrum.

Þetta er saga Finnboga Ásbjarnarsonar sem fæddist á Eyri í Flateyjardal á 10. öld. Faðir hans var bóndinn og goðorðsmaðurinn Ásbörn dettiáss. Nýfæddur var Finnbogi borinn út en Gestur og Syrpa, ábúendur á Tóftum í Flateyjardal, fundu hann þar sem hann lá reifaður í urð, og ólu hann upp. Var hann í fyrstu kenndur við fundarstaðinn og nefndur Urðarköttur. Nafnið Finnbogi hlaut hann eftir að hafa bjargað manni þeim úr sjávarháska er Finnbogi hét, en sá gaf upp öndina og gaf Urðarketti nafn sitt að launum fyrir björgunina. Síðan var það sjálfur Grikkjakonungur sem gaf Finnboga viðurnefnið „hinn rammi“ eftir mikla aflraun sem hann framdi á þingi sem konungurinn efndi til. 

Sagan af Finnboga ramma er miklu meira en skemmtisaga af heljarmenni sem m.a. gat unnið vopnlaus á bjarndýri. Sagan er listavel skrifuð og lýsir lífshlaupi göfugs manns frá vöggu til grafar, manns sem ekki efndi til illinda að fyrra bragði en var stundum baldinn í æsku og fastur fyrir þegar hann óx úr grasi. Oft þurfti hann að verja hendur sínar því að enginn skortur var á öfundarmönnum.  

Gleði og sorgir, skin og skúrir skiptast á í lífi þessa manns og fólks hans. Konur gegna mikilvægu hlutverki í þessari sögu; þær eru að mörgu leyti drifkraftur atburða. 

Ef einhver spyr um gildi sögunnar og það hvers vegna hún sé tekin til kennslu gæti eitt svar af mörgum verið þetta: Fyrir utan skemmtana- og listgildi má líta má á hana sem dæmisögu um það að göfugum mönnum farnast að lokum vel.

Bandamanna saga

Bandamanna saga er til í tveimur gerðum. Lengri gerðin er varðveitt í Möðruvallabók en sú styttri í Konungsbók frá fyrsta fjórðungi fimmtándu aldar. Af Bandamanna sögu eru til rúmlega 30 pappírshandrit.

Bárðar saga Snæfellsáss

Bárðar saga Snæfellsáss er talin rituð á fyrri hluta 14. aldar og telst því með yngri Íslendingasögum, enda má jafnvel segja að hún sé meir í ætt við riddarasögur og fornaldarsögur Norðurlanda. Hún segir frá Bárði Dumbssyni af ætt bergbúa, sem flýr Noreg og sest að undir Snæfellsjökli á Íslandi. Lendir hann í ýmsum ævintýrum en á endanum hverfur hann inn í jökulinn og gerist einn af landvættum Íslands. Sagan er sögð í ýkjustíl, en höfundi hennar tekst þó ótrúlega vel að halda í ákveðinn trúverðugleika og úr verður hin skemmtilegasta lesning.

Vopnfirðinga saga

Vopnfirðinga saga gerist einkum í Vopnafirði og spannar tímabilið frá landnámi og fram yfir kristnitöku árið 1000. Þar segir af baráttu Hofverja og Krossvíkinga um völd í héraði. Lykilpersónur sögunnar eru þeir Brodd-Helgi á Hofi og Geitir Lýtingsson í Krossavík. Voru þeir goðorðsmenn og miklir fyrir sér. Þá segir einnig af sonum þeirra, þeim Víga-Bjarna og Þorkatli Geitissyni. Þó svo að sagan hafi ekki notið jafn mikilla vinsælda og aðrar kunnari sögur hefur hún að geyma frábæra kafla sem gefa því besta úr þeim sögum ekkert eftir. Sérstaklega þykja mannlýsingar sterkar í sögunni og þá er eftirtektarvert hve stóran sess konur skipa.

Síður

Subscribe to RSS - Íslenska 1