Íslenska 1 | Skólavefurinn

Íslenska 1

Grettis saga

Grettis saga hefur löngum verið ein af ástsælustu Íslendingasögunum. Hún fjallar um Gretti Ásmundarson frá Bjargi í Miðfirði, sem gekk undir nafninu Grettir sterki, enda var maðurinn ógnarsterkur og lét ekki bugast þótt við forynjur væri að etja. Í sögunni er greint frá æsku og uppvexti Grettis, brekum hans og óláni, sem olli því að hann varð á endanum útlagi. Var hann í útlegð í mörg ár og kom víða víða við á landinu en að lokum náðist hann í Drangey á Skagafirði og var veginn þar eftir hetjulega baráttu. Skemmtileg saga sem allir Íslendingar ættu að þekkja.

Fóstbræðra saga

Fóstbræðrasaga var lengi vel talin með elstu Íslendingasögum, en nú er almennt talið að hún sé með þeim yngri og skrifuð undir lok 13. aldar. Er sagan til í mörgum uppskrifum, m.a. í Hauksbók, Möðruvallabók og Flateyjarbók, þar sem henni er skeytt inn í Ólafs sögu helga.

Sagan fjallar einkum um þá fóstbræður Þormóð Bersason, sem kallaður var Kolbrúnarskáld og Þorgeir Hávarsson. Þó að þeir bindist vinarböndum og eigi samleið í uppivöðslusemi þegar þeir eru ungir eru þeir ólíkir um flesta hluti. Þorgeir er fyrst og fremst vígamaður sem virðist ættaður aftan úr heiðni; hugmyndaheimur hans á margan hátt úr takt við samtímamenn hans, en Þormóður er fjölbreyttari maður, kvennamaður og skáld sem getur lagað sig að breyttum aðstæðum, s.s. tileinkað sér nýja trú o.þ.h.

Er sagan ólík öðrum Íslendingasögum, ekki síst fyrir afstöðu höfundar. Í flestum Íslendingasögum er höfundurinn nánast ósýnilegur í bakgrunni og lætur söguþráðinn líða áfram án þess að taka beina afstöðu, en því er hins vegar öðruvísi farið í Fóstbræðrasögu. Þar talar höfundurinn til okkar nánast með beinum hætti. Hefur sagan heillað marga vegna skemmtilegra lýsinga og sérstæðs stíls og t.a.m. byggði Halldór Kiljan Laxness söguna Gerplu á Fóstbræðrasögu.

Eiríks saga rauða

Eiríks saga rauða segir frá landnámi norrænna manna á Grænlandi og landafundum í Vesturheimi. Er hún sennilega skráð snemma á 13. öld og eins og með flestar aðrar Íslendingasögur er höfundur hennar ókunnur. Hún hefur varðveist í handritunum Hauksbók og Skálholtsbók. Svipar henni um margt til Grænlendinga sögu, en í stórum dráttum segja þær frá sömu atburðum en á ólíkan hátt og einnig greinir þær á um margt. Þá er einnig að finna styttri frásagnir af Grænlandsferðum, Eiríki og Leifi syni hans í fleiri handritum og mætti í því sambandi nefna Íslendingabók Ara fróða, Flateyjarbók, Landnámu og Ólafs sögu Tryggvasonar.

Fátt eitt er hægt að staðhæfa um sannleiksgildi Eiríks sögu, en í flestum megindráttum mun hún vera skáldskapur sem þó byggir á sönnum atburðum, er eiginlega ofin inn í atburði sem áttu sér stað í raunveruleikanum. Flestar persónanna eiga sér samastað í raunveruleikanum, en atburðarásin er óljós. En við vitum t.a.m. útfrá rannsóknum Helge og Anne Ingstad að norrænir menn komu við og settust að í Nýfundnalandi á þeim tíma sem sagan gerist. Fundu þar m.a. leifar af húsum og munum sem algengir voru á Íslandi á þeim tíma.

Eyrbyggja saga

Eyrbyggja saga er um margt merkileg saga, ólík mörgum hinna þekktari, hvað varðar áherslur og efnistök. Þrátt fyrir að hún hafi aldrei notið jafn mikilla vinsælda og sögur eins og Njála, Egla og Laxdæla og standi þeim sögum töluvert að baki hvað varðar listfengi og byggingu, er hún samt ein af þessum stóru sögum sem allir áhugamenn um Íslendingasögur þurfa að kunna skil á. Persónur sögunnar skarast töluvert við bæði Brennu-Njáls sögu og Laxdæla sögu og svo þykir hún forvitnileg í sagnfræðilegu og þjóðfræðilegu tilliti.

Sagan er á margan hátt frábrugðin öðrum Íslendingasögum og á það ekki síst rætur að rekja til aðalpersónu sögunnar, Snorra goða, sem er ólíkur þeim hetjum sem við eigum að venjast annars staðar frá. Má jafnvel halda því fram að Snorri sé nútímanlegri hetja en menn eins og Gunnar á Hlíðarenda og Egill Skallagrímsson og tali því betur inn í nútímann en þeir.

Brennu-Njáls saga

Brennu-Njáls saga, eða Njála eins og hún er kölluð, þarfnast engrar kynningar við. Flestir Íslendingar vita af henni og hvaða sess hún hefur í bókmenntum vorum. Sagan hefur að geyma margar af helstu hetjum fortíðarinnar, fólk eins og þau Njál og Bergþóru, Gunnar og Hallgerði langbrók, Kára Sölmundarson og hinn stórbrotna Skarphéðin Njálsson. Þá má ekki gleyma einum helsta skúrki íslenskra bókmennta, Merði Valgarðssyni.

Sagan telur 159 kafla. Það er skylda allra að þekkja þetta lykilrit íslenskra bókmennta, enda er hún kennd við flesta framhaldsskóla. Hér gefst ykkur þægileg leið til að tileinka ykkur þessa frábæru sögu.

Kjalnesinga saga

Hér birtist Kjalnesinga saga í rafrænni útgáfu, ætluð til lestrar á unglingastigi og í framhaldsskólum. Sögunni fylgja orðskýringar, spurningar um innihald og svör, leiðbeiningar til kennara (umræðuefni) og upplestur; einnig eftirmáli þar sem Baldur Hafstað ræðir um söguna, leyndardóma hennar og sérstöðu meðal fornsagna.

Það er von Skólavefsins að þessi útgáfa verði til þess að auðvelda aðgang ungs fólks að þessari bráðskemmtilegu og töfrandi sögu – og að hún kveiki síðan áhuga á fleiri sögum. Skólavefurinn býður upp á æ fleiri Íslendingasögur rafrænt í þeirri fullvissu að þær eigi fullt erindi til allra ungmenna.

Gunnlaugs saga ormstungu

Gunnlaugs saga ormstungu tilheyrir flokki Íslendingasagna sem eru um 40 talsins, skrifaðar á 13. og 14. öld en greina frá atburðum sem eiga að hafa gerst löngu fyrr. Í sumum þeirra er í upphafi jafnvel sagt frá landnámi seint á 9. öld, en yfirleitt er sögutíminn seinni hluti 10. aldar og allt fram á fyrri hluta þeirrar 11. Í Gunnlaugs sögu gerast atburðir nálægt árinu 1000 og tengjast þá m.a. kristnitökunni.  

Sagan er talin rituð á seinni hluta 13. aldar. Ekkert er vitað um höfundinn en hann hefur verið lærður maður sem þekkt hefur til margra rita; hugsanlega var hann prestlærður. Riddarasögur hefur hann þekkt því að greina má áhrif evrópskra riddarasagna í sögu hans, t.d. Flóres sögu og Blankiflúr, ævintýralegri ástarsögu ungmenna sem skrifuð var á frönsku á 12. öld en þýdd á íslensku á þeirri 13. Einnig má geta þess að draumur Þorsteins á Borg um fuglana á sér merkilega hliðstæðu í Niflungaljóðinu þýska frá því um 1200.

Gunnlaugs saga er ekki varðveitt í frumriti fremur en aðrar Íslendingasögur en tvö skinnhandrit eru til af henni, annað frá 14. en hitt frá 15. öld. Yngri pappírshandrit eru frá þessum skinnhandritum runnin. 

Í fyrirsögn annars skinnhandrits sögunnar segir að sagan sé skráð „eftir því sem sagt hefir Ari prestur hinn fróði Þorgilsson, er mestur fræðimaður hefir verið á Íslandi á landnámssögur og forna fræði“. Þessi staðhæfing stenst reyndar illa því að Ari fróði lést löngu áður en Gunnlaugs saga var skrifuð. En skrásetjari handritsins hefur hugsanlega viljað ljá sögunni sannfærandi svip með því að tengja hana nafni sjálfs Ara fróða.  

Löngum hafa menn deilt um það hvort Íslendingasögurnar séu hreinar og klárar skáldsögur eða hvort líta megi á þær sem nokkurs konar arfsagnir sem byggðar séu á sönnum atburðum, en hafi svo nærst á hugmyndaflugi og frásagnargleði kynslóðanna þann tíma sem leið frá því að atburðirnir gerðust fram til þess að sögurnar voru færðar í letur.  Víst er að margar af persónum Gunnlaugs sögu eru nefndar í eldri ritum. En þar með er auðvitað ekki sagt að þeim sé lýst í sögunni eins og þær raunverulega voru. Hvað t.d. um skáldskap Gunnlaugs í sögunni? Hæpið mun talið að hann sé í raun og veru hægt að rekja alla leið til persónunnar Gunnlaugs. 

En hvað sem öllum sannleika líður, þá hefur Gunnlaugs saga ormstungu lengi verið með vinsælustu Íslendingasögunum. Hún fjallar um heitar ástir ungmenna og mikil örlög en er jafnframt blandin gamansemi og húmor. Hún er sterk í byggingu og er römmuð inn af draumum sem feður aðalpersónanna dreymir. Draumur Þorsteins á Borg, við upphaf sögu gefur tóninn og grípur lesandann traustataki. Draumar þeirra Illuga og Önundar í lok sögu kallast á við draum Þorsteins.  

Helstu persónur eiga hver sín einkenni, mikla kosti og augljósa galla, sem gera dramatísk átök óumflýjanleg. Sagan er tilvalin til umræðu um mannlegan breyskleika og mannleg samskipti, og mætti nýta til siðferðislegrar og heimspekilegrar rökræðu.     

Gunnlaugs saga er á margan hátt góður gluggi að lengri og flóknari Íslendingasögum. Hér kynnumst við afkomendum Egils á Borg, en leiða má að því rök að Gunnlaugs saga sé skrifuð sem nokkurs konar framhald sögu Egils: fólkið hefur viljað fá meira að heyra af Mýramönnum. En vel má nú fara hina leiðina og kynna sér Egils sögu að loknum lestri sögunnar um sonardóttur skáldsins á Borg. 

Á Gunnlaugs sögu má líta sem dæmisögu um það hvernig farið getur ef haldið er dauðahaldi í gömul hetju- og sæmdargildi í friðsömu bændasamfélagi. Eða öllu heldur, hvernig farið getur ef ekki er hugað að dygðum á borð við sanngirni og tillitssemi í samskiptum manna. En jafnframt er þetta saga um mannlega reisn og mannlegan harm í viðsjárverðum heimi. 

Þjóðsögur: Þá hló marbendill

Þessi bók er ein þriggja þjóðsagnabóka sem eru ætlaðar efstu bekkjum grunnskóla. Sögunum fylgja skýringar og hugmyndir að umræðuefni og verkefnum sem eiga að dýpka skilning en jafnframt er leitast við að tengja innihald sagnanna málefnum líðandi stundar. Ýmis málfræðileg og stílfræðileg atriði eru tekin til umræðu og ættu þau að efla tilfinningu nemenda fyrir móðurmálinu og framsetningu texta. Hér eru þjóðsögur einmitt heppileg fyrirmynd, m.a. vegna þess að stíllinn er knappur og byggingin sterk. En jafnframt veita þjóðsögur ómetanlega innsýn í líf og hugsunarhátt fólks á fyrri tímum.

Síður

Subscribe to RSS - Íslenska 1